27.10.1953
Neðri deild: 11. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

61. mál, alþjóðaflugþjónusta

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leyfa mér í sambandi við þessa lánsheimild að bera fram þá fyrirspurn til annaðhvort hæstv. ríkisstj. eða fjhn., ef hún getur svarað því, hvað sé fyrirhugað viðvíkjandi vöxtum af þessu láni. Ég býst við, að það sé nú þegar eitthvað búið að þreifa fyrir sér um þetta lán og það sé þess vegna hægt að gefa upplýsingar um það. Það er ekki ófróðlegt fyrir þm. að fá að fylgjast með því, hvaða vexti muni eiga að reikna af því. Í öðru lagi vil ég spyrja, til hve langstíma sé meiningin að taka þetta lán; og í þriðja lagi, af því að það er ekki tekið neitt fram um það í frv. sjálfu, hvort hér sé að einhverju leyti um að ræða að taka lán erlendis, þannig að Framkvæmdabankinn eigi að taka lán erlendis og veita hingað, eða hvort um það sé að ræða að veita þetta lán einvörðungu úr innlendu fé, sem Framkvæmdabankinn hafi til umráða, og svo framarlega sem svo sé, hvaðan komi þá það fé, sem Framkvæmdabankinn hefur þannig til umráða. Á að lána þetta úr mótvirðissjóði? Og þá þyrfti að taka það hér sérstaklega fram, vegna þess að það er ekki hægt að lána úr mótvirðissjóði öðruvísi en með samþykki Alþingis. En ella: Hvaðan fær Framkvæmdabankinn fé til þess að lána þetta?

Mér finnst eðlilegt, að um þessi atriði fengjust upplýsingar. Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að fá þær á annan hátt, og ég vildi þess vegna beina þeirri fyrirspurn til hv. form. fjhn. og frsm., ef hann getur upplýst þetta og það hefur verið rætt í nefndinni, en ella til hæstv. ríkisstj.