19.03.1954
Efri deild: 64. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

118. mál, póstlög

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Frv. þetta um breytingu á póstlögum, sem hér liggur fyrir, er flutt af samgmn. þessarar hv. d. að heiðni hæstv. póst- og símamálaráðherra. Tilgangur frv. er að auðvelda útburð og afhendingu á póstsendingum á þeim stöðum, þar sem daglegur bréfaútburður fer fram. Það er ætlzt til að þessum tilgangi verði náð með. því, að póstmeistari geti með samþykki póst- og símamálastjórnar og eftir nánari ákvæðum í reglugerð, sem póst- og símamálaráðherra setur, gert húseigendum skylt að setja upp bréfakassa í eða við hús sín. Er nánar tekið fram um þetta í 1. gr. frv.

Rök fyrir því, að nauðsyn sé á lagasetningu um þetta efni, er að finna í grg., sem frv. fylgdi, en þar segir m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir því sem stórhýsum fjölgar hér á landi, sérstaklega í Reykjavík, veitist æ erfiðara að starfrækja útburð póstsendinga, svo að í viðunandi lagi sé, án tilfinnanlegs aukins kostnaðar fyrir hið opinbera. Í Reykjavík er það t.d. hinum mestu erfiðleikum bundið fyrir bréfberana , að geta haldið réttum tíma sem þeim er ætlaður, ef þeir þurfa að fara upp marga stiga og spyrjast fyrir á hverri hæð, því að venjulegast er, að aðeins húsnúmer erti sett á sendinguna, án þess að hæð í húsi sé tilgreind, enda oft engin nafnspjöld á hurðum eða við dyr. Tómlæti almennings í þessu efni er næsta furðulegt, og úr því virðist ekki geta orðið bætt, nema lagaheimild til aðgerða komi til.“

Þá er bent á í grg., að ákvæði þessi séu að efni til tilsvarandi norskum lögum, sem nýlega hafa verið sett þar í landi til að ráða bót á tilsvarandi ástandi þar.

Um framkvæmd laganna er það að segja, að ætlazt er til, að ráðh. sá, er fer með póst- og símamál, gefi út reglugerð, sem segi til um, hvernig framkvæmdum skuli haga um gerð og uppsetningu bréfakassanna. Þá er einnig gert ráð fyrir, að yfirmaður pósthússins á staðnum leiti samþykkis póst- og símamálastjórnar til þess að fyrirskipa verkið og sé þá haft samráð við húseiganda. Það þykir óhjákvæmilegt, að póststjórnin hafi hönd í bagga með gerð kassanna.

Vegna þess að frv. þetta, ef samþ. verður, leggur fjárhagslega kvöð á húseigendur, og vegna þess að við 1. umr. málsins hér í d. lét hv. 1. þm. N-M. svo ummælt, að tæplega kæmi til greina að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir, þótti samgmn. rétt að senda Fasteignaeigendafélagi Reykjavíkur frv. til umsagnar. Svar félagsins hefur nú borist í bréfi, dags. 13. þ.m. og segir þar m.a. með leyfi hæstv. forseta:

Fasteignaeigendafélaginu eru ljósir þeir erfiðleikar á útburði pósts, sem liggja til grundvallar þessu lagafrumvarpi, og mun því ekki hreyfa andmælum gegn þeirri kvöð, sem frv. leggur á húseigendur, í trausti þess að framkvæmdin verði lipur og sanngjörn.“

Bréf félagsins er nokkru lengra, og bendir það á nokkur atriði, sem eiginlega tilheyra nú framkvæmd málsins frekar en frv. sjálfu.

Ég vil þá einnig lýsa því yfir, að samgmn. leggur einróma til, að frv. sé samþykkt.