24.11.1953
Neðri deild: 28. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Við hv. 6. þm. Reykv. höfum leyft okkur að flytja brtt. á þskj. 156 við frv. það, sem hér liggur fyrir til umr. Brtt. okkar er um það að undanskilja innfluttar landbúnaðarvélar söluskatti.

Það má öllum ljóst vera, sem eitthvað þekkja til landbúnaðar, hversu mikil nauðsyn það er, að fluttar séu til landsins nýtízku landbúnaðarvélar og þar með létt störfin og fengin meiri o,g betri afköst í þessum þýðingarmikla atvinnuvegi. Nú er það staðreynd, að margar af þessum vélum eru dýrar og því allmiklum erfiðleikum háð fyrir efnalitla bændur, sérstaklega byrjendur í búskap, að eignast vélarnar. En einmitt þeim, sem minnst hafa efnin, er oft og tíðum mest þörf á að geta komizt yfir aukinn vélakost, og það virðist lítið samræmi vera í því hjá hv. stjórnarflokkum og öðrum að vera með því að setja í lög og gera margvislegar lagasetningar um styrki til landbúnaðarins og landbúnaðarframkvæmda, en aftur á móti skattleggja hinar nauðsynlegustu landbúnaðarvélar o.s.frv., svo sem dráttarvélar, skurðgröfur, plóga, herfi, svo að eitthvað sé nefnt. Ég veit ekki nákvæmlega, — ég hef ekki athugað það, — hvað söluskatturinn muni nema hárri upphæð af t.d. einni dráttarvél, en það mun þó ekki fjarri lagi, að skatturinn nemi jafnvel nokkrum þúsundum króna. Smáatvinnurekendur, eins og flestir Lændur landsins eru, munar um minna. Við flm. þessarar brtt. væntum þess, að bændastéttin eigi svo marga formælendur á Alþ., að þessari till. okkar verði vel tekið og hljóti samþykki meiri hluta hv. alþingismanna.

Það má vel vera, að hv. þm. stjórnarflokkanna hafi verið og séu eitthvað feimnir við að ganga á móti vilja og skoðun hæstv. fjmrh. í þessu máli, því að eins og þingmönnum er kunnugt, er hinn illræmdi söluskattur sérstakt ástfóstur hæstv. fjmrh. Hins leyfi ég mér þó að vænta, að hv. þm., hvar í flokki sem þeir standa, ljái þessu máli lið, þar sem ég er þess fullviss, að það mundi stórum létta undir með öllum ræktunarframkvæmdum og öllu því, sem til landbúnaðar heyrir.

Þá liggur hér fyrir brtt. á þskj. 143 frá hv. 11. landsk. Í þeirri till. er gert ráð fyrir að undanþiggja söluskatti vélar í skip og fiskibáta o.fl. Þessi brtt. er að mínum dómi hin sjálfsagðasta, og er alveg furðulegt, að hv. Alþ. skyldi ekki þegar í upphafi undanskilja allar vélar til atvinnuveganna, bæði til landbúnaðar og sjávarútvegs, iðnaðar o.s.frv., þar með taldar vélar til rafveitna.

Um söluskattinn sem slíkan er það að segja, að hann er í alla staði ranglátur og hefur orðið til þess að auka dýrtíð í landinu stórkostlega, eins og reyndar allir skattar og tollar gera, og þar með skerða lífskjör fólksins allverulega. Það er nú svo komið, að allur almenningur beinlínis stynur undan skatta- og tollafargi, enda ekki óeðlilegt, þar sem stór hluti tekna fólksins fer til greiðslu á tollum og sköttum til hins opinbera, bæði bæjar- og sveitarfélaga. Þessi staðreynd er svo ljós orðin, að jafnvel málgögn núverandi stjórnarflokka eru farin að tala um skattaáþján, og má þá segja, að bragð sé að þá börnin finna. Hins vegar virðist ekki bóla á neinni verulegri viðleitni í þá átt frá hæstv. ríkisstj., að hún hafi hugsað sér að koma fram með á þessu þingi neinar raunhæfar úrbætur á þessu sviði. Það má þó reyndar geta þess, að um það hefur verið talað, að einhverjar breytingar kæmu fram viðvíkjandi sköttum, en þær eru ekki komnar fram enn, hvað sem því veldur. Má vel vera, að það sé ekki fullt samkomulag í þeim herbúðum, en líkindi eru þó til þess, að þessar breytingar komi fram. En ef maður á að byggja á þeirri reynslu, sem áður hefur fengizt um þessi mál og lík, þarf almenningur ekki að vænta, að þar verði a.m.k. réttur að neinu ráði hlutur þeirra, sem verst eru settir í þjóðfélaginu.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er um framlengingu á hinum illræmda söluskatti, og það virðist sem ríkisstjórnarflokkarnir leggi áherzlu á það að fá frv. í gegn að mestu leyti óbreytt. Ég minnist þess, að við 2. umr. var flutt hér í þessari hv. d. till. frá 1. landsk. um það, að nokkur hluti af skattinum rynni til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga. Það var mjög táknrænt, sem skeði við þá atkvgr., sem ég leyfi mér aðeins að benda á. Þegar gengið var til atkvæða um málið, greiddu engir atkv. með þessari brtt. aðrir en þm. Alþfl. og Sósfl. Allir þm. stjórnarfiokkanna, þar með taldir kjörnir þingmenn frá bæjunum, sem eru í algerðu greiðsluþroti, létu sig hafa það að greiða atkv. á móti þessari sjálfsögðu brtt. Jafnvel hv. 7. þm. Reykv., sem á sínum tíma hafði barizt mjög ákveðið fyrir því, að bæirnir fengju hluta af þessum skatti, lét sig hafa það að sitja hjá, og verð ég að segja það, að miðað við þá baráttu, sem þessi hv. þm. háði á fundum, sem bæjarstjórar víðs vegar af landinu héldu í Rvík 1951 og 1952, hafi þar orðið alleinkennileg hugarfarsbreyting frá því, sem þá var.

Ég vil þó taka það fram, að við þm. Sósfl. erum í sjálfu sér á móti þessum skatti sem slíkum. En þar sem við vitum, að við getum ekki ráðið við það, að hann verði framlengdur, viljum við, að einhver hluti af skattinum renni til bæjar- og sveitarfélaga; þegar það er jafnframt haft í huga, að svo að segja hvert einasta bæjarfélag í landinu og svo að segja hvert einasta sveitarfélag í landinu er að stynja undir erfiðleikum vegna skorts á fjármagni og margvíslegra annarra erfiðleika, sem steðja að bæjarfélögunum og sveitarfélögunum. Það er eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. telji sig þurfa að hafa miklar tekjur til umráða. En þess verður líka að gæta, að sveitarfélögum og bæjarfélögum hefur verið óeðlilega íþyngt vegna ýmislegra ráðstafana af hendi hins opinbera og að nú er svo komið, að fjölmörg bæjar- og sveitarfélög eru beinlínis að komast í fjárhagslegt öngþveiti, og jafnvel er svo komið, að sum sveitarfélögin og bæjarfélögin eru alveg á takmörkunum að fara beinlínis á ríkið. Ég hefði haldið, að það hv. Alþ., sem nú situr, gæti ekki gengið frá störfum sínum, án þess að eitthvað yrði gert til þess að létta einmitt undir með bæjar- og sveitarfélögunum frekar en orðið er. Og ég hefði vænzt þess, að hæstv. ríkisstj. hefði komið með einhver lagafrv. eða annað þess háttar, sem gæti orðið til úrbóta á þessu sviði.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, en vænti þess, að þessar brtt. við frv. til l. um framlenging á gildi laga o.s.frv., um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, hljóti samþykki meiri hluta Alþ.