30.03.1954
Efri deild: 73. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

172. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði hér áðan, að hann liti svo á, að samþykkt á 1. gr. gæti ekki haft nein áhrif á aldurstakmarkið, þó að það væri samþ. nú, þá vil ég í sambandi við þetta benda á tvennt. Í fyrsta lagi: Ef greinin er samþ., þá er þar með fastákveðið, hvernig skilja beri það ákvæði núgildandi laga, sem deilt er um nú, þ. e., að sjóðfélagar, sem greitt hafa í 30 ár, skuli ekki greiða lengur. Þetta stríðir raunverulega á móti orðum laganna, eins og þau eru nú. Í fyrsta lagi kemur það ekki fram í 10. gr., að þessari greiðslu skuli hætt, eins og ég hef tekið fram, nema síður sé, auk þess sem 12. gr. laganna nú segir beinlínis, að ef starfstíminn hafi verið 30 ár eða lengur, — með því er gert ráð fyrir, að greitt hafi verið lengur en 30 ár, — þá skuli viðkomandi aðili hljóta ákveðinn ellilífeyri. Það væri því að torvelda það takmark, sem meiri hlutinn vill ná í sambandi við endurskoðun laganna, og það er að halda áfram greiðslunum fram yfir 30 ára aldurinn, — það væri til að torvelda að ná því takmarki, ef 1. gr. frv. er samþ. A það vil ég leggja áherzlu.

Hinu atriðinn, sem hv. þm. talaði um, að það væri miklum erfiðleikum bundið að koma mönnum í skilning um, að þeir eigi að greiða eftir 30 ára tímabilið, vil ég svara því, að ég tel það síður en svo neina fjarstæðu og teldi einmitt, að það ætti að taka þá reglu upp, að eins og hækkuð er hér á hverju árabili, víða um 1½%, sums staðar 2% og jafnvel upp í 3% og 3½% viðbót til lífeyrisins við hvert starfsár, sem maðurinn starfar og greiðir, þá ætti að halda þeirri reglu áfram, og gæti þá farið svo, að ef maðurinn greiddi ekki í 30 ár, heldur t. d. 40 ár, þá væri hann kominn upp í hærri lífeyrisbætur. Það þarf ekki að fara saman, að stöðvaðar séu lífeyrisbætur, þó að menn hafi greitt í 30 ár og hafi náð 60% hámarki, heldur miklu frekar, að þeir fái að halda áfram starfi með rétti til hækkandi lífeyris. Næstu fimm ár gætu bætzt við 15% í lífeyri, og væri þá komið upp í 75%, og það teldi ég síður en svo nokkra goðgá.

Það er einmitt það, sem liggur á bak við flutning á brtt. okkar í meiri hl., að það sé einmitt athugað gaumgæfilega, hvort það sé ekki sú rétta leið, og þar með að forða ríkissjóði frá því að þurfa að taka á sig nýjar byrðar í sambandi við þessa menn, ef þessum málum yrði komið fyrir á þann hátt, sem ég þegar hef bent á. Ég mun því mjög mælast til þess, að hv. d. samþ. brtt. og einnig þá 1. brtt. um að fella niður 1. gr. frv. Ég sé heldur enga hættu í þessu eða erfiðleika fyrir sjóðsstjórnina, þó að hún fái ekki þessar breytingar á þessu rúmlega hálfa ári, sem eftir er, þar til lögin eiga að endurskoðast á ný. Ef hún kemst að þeirri niðurstöðu og þeir, sem endurskoða lögin, og svo Alþ. síðar, að það skuli láta þessa menn hætta að greiða, þegar þeir eru búnir að greiða í 30 ár, er enginn skaði skeður, þó að það verði beðið með það ákvæði þennan tíma. Komist þeir hins vegar að annarri niðurstöðu, þá mun það valda frekari erfiðleikum, ef búið er að fastsetja um það lög á Alþ., að þessir menn skuli ekkert greiða, eins og lagt er til í 1. gr. frv.