26.11.1953
Efri deild: 24. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af þessu, sem hv. þm. Vestm. sagði, þá vil ég taka það fram, að söluskattur á fullsmíðuðum bát mundi nú ekki geta komið undir þetta ákvæði, sem hann las upp og ég gat um áðan. En ég vil benda á, að í söluskattslögunum er heimild fyrir fjmrh. til þess að undanþiggja með reglugerð einstakar vörur söluskatti, ef sérstök ástæða þykir til. Og ég er alveg reiðubúinn til þess að taka upp viðræður við þá menn úr stjórnarflokkunum, sem eru að íhuga bátasmiðamálið, um það, hvort ástæða sé til þess að nota þá heimild til þess að undanþiggja söluskatti fullsmíðaða báta. Þetta er hægt að gera eftir lögunum, eins og þau eru nú úr garði gerð, þó að þetta ákvæði, sem við höfum rætt um, taki ekki til þeirra.

Ég er nú sjálfur ekki kunnugur því satt að segja, hvort söluskattur er tekinn af bátum, en mér heyrðist á hv. þm. Vestm., að hann vissi um, að svo væri, og þá er það atriði, sem þarf að íhuga í sambandi við þessa endurskoðun á grundvelli fyrir bátasmíðum, sem þeir eru að athuga.