02.04.1954
Efri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

121. mál, skipun læknishéraða

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur ekki orðið ásátt um frv. Minni hl. leggur til, að það verði fellt, og hefur skilað sérstöku nál. Meiri hl. leggur hins vegar til, að frv. verði samþ. óbreytt. — Þetta frv. er raunar gamall kunningi hér í hv. d. Það mun hafa legið fyrir tveimur síðustu þingum, en eigi náð samþykki. Nú er málið mjög einfalt í sjálfu sér, og ætti að vera þarflítið að flytja um það langa ræðu. Mér þykir þó rétt að gera grein fyrir því með örfáum orðum.

Á Fljótsdalshéraði voru tvö læknishéruð fram til ársins 1944, þá var skipan mála breytt og héruðin sameinuð. Það var ákveðið þá, að læknir skyldi búsettur á Egilsstöðum. Þá var einnig hafizt handa um að reisa þar sjúkraskýli, mjög fljótlega eftir sameininguna. Jafnframt var gert ráð fyrir í l., að aðstoðarlæknir sæti þarna einnig. Sem sagt, tilætlunin var, að ævinlega skyldu sitja tveir starfandi læknar á Egilsstöðum. Á þessu hefur orðið verulegur misbrestur. Það hafa oft komið tímabil, sem aðstoðarlækni hefur vantað, og hefur það átt sér stað bæði um sumar og að vetrarlagi. Út af þessu hefur skapazt mikil og almenn óánægja í læknishéraðinu, sameiginlegir fundir oddvita af öllu svæðinu hafa hvað eftir annað látið í ljós þessa óánægju fólksins og óskað breytinga á skipulaginu.

Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til að verða við óskum fólksins og skipta héraðinu að nýju. Þó er gert ráð fyrir því, að báðir læknar sætu eftir sem áður á Egilsstöðum. Egilsstaðir eru, og hafa raunar verið um lengri tíma, ákaflega mikil samgöngumiðstöð. Það má segja bókstaflega, að út frá Egilsstöðum liggi leiðir til allra sveita á Héraði. Einnig mælir það með því, að báðir læknarnir sitji þarna áfram, að nú er þar, eins og ég tók fram áðan, sjúkraskýli, og er þess vegna aukið öryggi í því, að tveir læknar séu þar búsettir. Meiri hl. n. lítur svo á, að samþykkt frv. yki stórum líkurnar fyrir því, að ætíð sætu tveir fullgildir læknar á Egilsstöðum. Fljótsdalshérað er ákaflega víðlent. Þar eru upp undir 200 km á milli yztu og efstu bæja. Þetta byggðarlag er að vísu greiðfært yfirferðar á sumrin, en þar er vetrarríki mikið, og þá þyngist róðurinn að sjálfsögðu. Með hliðsjón af þessu, svo og þeim verkefnum, sem sjúkraskýlinu fylgja, telur meiri hl. n. sem sagt fullkomið sanngirnismál, að þessi byggðarlög fái tvo fasta lækna.

Tveir hv. þm. hafa flutt brtt. á þskj. 552 um stofnun sérstaks læknishéraðs í Kópavogi. N. ræddi þessa till. nokkuð, en tók ekki sameiginlega afstöðu til hennar. Till. gerir, eins og ég sagði, ráð fyrir, að alveg nýtt hérað verði stofnað í Kópavogi. Tillögumenn munu að sjálfsögðu gera grein fyrir sínu máli, en ég vil strax taka það fram sem mína skoðun, að mér virðist ekki aðkallandi að stofna þetta læknishérað nú. Það er vitað, að íbúar Kópavogshrepps nota að sjálfsögðu hina mörgu lækna hér í Reykjavík, og á því út af fyrir sig mundu ekki verða neinar stórbreytingar, þó að nýtt hérað yrði stofnað, Hitt er svo annað mál, að það dregur sjálfsagt að því, að koma þurfi nýrri skipan á heilbrigðismál þessa byggðarlags, sem er mjög ört vaxandi og þegar orðið nokkuð fjölmennt. Hér í hv. d. hefur nýlega verið lagt fram frv. til nýrra læknaskipunarlaga, samið af landlækni, og mér er kunnugt um það, að á næsta þingi hyggst hæstv. heilbrmrh. leggja fram stjfrv. um þetta efni. Mér virðist því engin ástæða til að samþykkja brtt. á þskj. 552 að þessu sinni.