08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1520 í B-deild Alþingistíðinda. (1883)

121. mál, skipun læknishéraða

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Eins og þskj. bera með sér og nál. minni hl., hafði ég framsögu fyrir minni hl. í þessu máli. Nú hefur það tekizt svo til í n., að minni hl. er orðinn að meiri hl. og meiri hl. orðinn að minni hl. í sambandi við afgreiðslu þessa máls.

Meiri hl. n. stendur að brtt. á þskj, 747, að vísu annar meiri hl. heldur en stóð að nál., þegar það var gefið út.

Minni hl., sem stóð að nál., ásamt einum manni úr þáverandi meiri hl., stendur að þeim brtt., sem hér eru bornar fram, en þær eru fjórar.

1. brtt. er við 1. gr. Það er aðeins orðabreyting á nafninu á héraðinu, sem þykir þægilegri heldur en það, sem sett er í frv.

2. breyting er, að 2. málsgr. falli niður, en það er fyrirmæli um, hvernig starfrækja skuli í félagi sjúkrahús á Egilsstöðum. Það er fyrirmæli, sem Alþ. getur ekki fyrirskipað. Sjúkrahúsið er eign hreppanna. Alþ. hefur ekkert um það að segja og getur ekki fyrirskipað með l., hvernig eigi að starfrækja þetta hús. Það hefur aðeins styrkt byggingu hússins, en ræður ekkert yfir og á ekkert eignarhald á húsinu. Þess vegna er það eðlilegt, að þessi gr. falli niður. Ég lagði til í minnihlutaáliti, að frv. yrði fellt. Það náði ekki samþykki í þessari hv. d. En úr því að það varð ekki, þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt að laga frv., svo að það sé þó ekki til vansa fyrir hv. Alþ. samþ. það eins og það er nú.

3. brtt. er við 4. gr. Það er, að greinin orðist svo: „Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1955.“ Ég skal skýra, hvers vegna þetta er sett inn í þetta frv. Ég var hins vegar ekki frsm. í því frv., sem var rætt um hér áðan, og lét það í vald þeirra manna, sem um það ræddu, en hér er þetta gert beinlínis af ríkri þörf. Það er ekki hægt að skipta héraði raunverulega svona í miðjum mánuði eða miðri viku eða á miðjum degi. Er eðlilegast, að þetta sé gert um áramót. Það er heldur enginn skaði skeður, þó að það verði að bíða með þetta til þess tíma. Það hefur verið venja áður, þegar stofnuð hafa verið ný héruð, að lögin tækju gildi frá áramótum, en ekki á miðju ári. Það eru tveir læknar nú í héraðinu, einn aðallæknir og einn aukalæknir, og það er þar að auki mjög mikill ágreiningur um það, hvort læknisþjónustan verður nokkuð betri með þeirri löggjöf, sem hér er verið að samþ., en úr því að búið er að samþ. það til 3. umr. og líklegt, að það verði að lögum, verða héraðsbúar að taka því. Hins vegar þykir þó rétt að hafa sömu aðferð hér eins og venjulega hefur verið höfð í þessum málum.

Þá er einnig 4. brtt. Það er um, að bráðabirgðaákvæðið falli niður. Það er, að núverandi héraðslæknir skuli eiga rétt á að kjósa, hvoru læknishéraðinu hann vill þjóna, og heldur hann þeirri íbúð, sem hann hefur nú í læknisbústaðnum. Þetta er eðlilegast að sé ekki fyrirskipað með l. Það er vitað, að sá læknir, sem er aðallæknir hér, ætlar að fara frá embætti á þessu ári, og það er mjög mikil ástæða til þess að halda þessu alveg opnu fyrir hina nýju lækna, sem þarna koma þá tveir, hverjir fá það hús, sem fyrir er, og hvernig þeir skipta á milli sín héraðinu.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta nánar, en legg til f. h. þess meiri hl., sem stendur að þessum brtt., að þær verði samþ.