08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1521 í B-deild Alþingistíðinda. (1884)

121. mál, skipun læknishéraða

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls lagði þá verandi meiri hl. heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. til, að frv. yrði samþ. óbreytt. Nú hefur hins vegar svo skipazt, að hér liggja fyrir till. í fjórum töluliðum og undirliðum frá núverandi meiri hl. heilbr.- og félmn. um að breyta frv. allmikið. Ég er enn þeirrar skoðunar, sem ég var við 2. umr., að ekki sé ástæða til þess að breyta frv. neitt. En ef í það færi að farið yrði að gera breytingar á því á annað borð, þá hefði ég mjög óskað eftir því, að 2. brtt. á þskj. 747 næði þó að minnsta kosti ekki fram, og mun ég leyfa mér að flytja skrifl. brtt. við hana. Liðurinn orðist svo :

„Við 2. gr. Greinin orðist svo: Læknar beggja héraðanna annast læknisstörf við sjúkrahúsið á Egilsstöðum, enda hafi báðir rétt á sjúkrahúsvist þar fyrir sjúklinga sína. Stjórn sjúkrahússins á Egilsstöðum ákveður, hvor hinna starfandi héraðslækna skuli vera yfirlæknir við sjúkrahúsið. Landlæknir getur ákveðið, að lyfjabúð sé sameiginleg fyrir bæði læknishéruðin, og setur hann þá reglur þar um.“

Það var gerð grein fyrir þessu máli af hálfu meiri og minni hl. heilbr.- og félmn. við 2. umr. þess, og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um það frekar nú, þegar komið er langt fram á kvöld, en leyfi mér að afhenda hæstv. forseta brtt. og óska eftir, að hann leiti afbrigða fyrir henni.