27.03.1954
Neðri deild: 71. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1560 í B-deild Alþingistíðinda. (1999)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að fara að lengja þessar umr., en vegna þess, hvaða stefnu málið hefur nú tekið, þótti mér óumflýjanlegt að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni og ýmissa annarra flokksbræðra minna hér í sambandi við þetta mál með hliðsjón af þáltill., sem við höfum flutt í Sþ. og var útbýtt í gær.

Það kom hér fram hjá hv. 11. landsk. við 2. umr. þessa máls, og raunar fleirum, að það væru miklar kvartanir uppi vegna þeirra kjara, sem húseigendur í bæjum og sveitum utan Reykjavíkur yrðu að búa við hjá Brunabótafélagi Íslands, og hann rakti hér ýmis dæmi þess, að þessi kjör væru miklum mun verri en Reykvíkingar byggju við. Ég er hv. 11. landsk. alveg sammála um þetta atriði, og ég tel mig einnig geta mælt þar fyrir munn allra þeirra, sem standa að umræddri þáltill. En sú till. er, eins og hv. þdm. vita, þess efnis, að ríkisstj. verði falið að láta athuga í samráði við bæjarstjórnir og sýslunefndir, hvernig tryggingum utan Reykjavíkur verði hagkvæmast fyrir komið. Ástæðan til þess, að við bárum fram þessa till., en greiddum jafnframt atkv. gegn brtt. hv. 11. landsk., sem má segja að gengi í þá átt að rétta hlut þessara aðila að því leyti til, að þeim væru gefnar frjálsar hendur um það, hvar þeir tryggðu sínar húseignir, byggðist á því, eins og segir í grg. þáltill., sem ég vék að, að við teljum, að hér sé um það mikið mál að ræða, að það sé nokkuð varhugavert að gera nú ráðstafanir sem þessar, sem hljóta að hafa í sér það fólgið, að það félag, sem annazt hefur þessar tryggingar til þessa, Brunabótafélag Íslands, kunni að meira eða minna leyti að liðast í sundur eða sá grundvöllur, sem það er byggt upp á. Afstaða okkar byggist ekki á því, að við teljum út af fyrir sig það skipta meginmáli, hvort til er Brunabótafélag Íslands eða ekki, heldur hitt, að það sé algerlega óathugað mál, hvaða afleiðingar þetta kann að hafa fyrir hin ýmsu bæjar- og sveitarfélög, og það þurfi nánari athugunar við. Þess vegna töldum við, þar sem hér er um tvenn lög að ræða, sem alltaf hafa gilt um þetta, önnur lögin fyrir Reykjavík og hin lögin fyrir bæjar- og sveitarfélög, að þá væri ekki eðlilegt að fara að blanda þessum tvennum lögum saman nú, heldur taka út af fyrir sig það mál, sem bæjarstjórn Reykjavíkur var hér með og hafði þegar undirbúið og rannsakað, en láta síðan framkvæma svipaða rannsókn varðandi önnur bæjar- og sveitarfélög. Þetta vildi ég að kæmi hér skýrt fram í sambandi við þetta mál.

Hins vegar, þar sem það virðist vera skoðun meiri hl. hv. þdm. og það sé ekki talið varhugavert heldur af hæstv. félmrh., að út á þá braut verði farið, að gefa þessar tryggingar frjálsar að þessu leyti án þess að athuga frekar, hver áhrif það hafi á grundvöll brunatrygginga utan Reykjavíkur yfirleitt, þá erum við þeirrar skoðunar, að það sé að sjálfsögðu ekki ástæða til að setja fótinn fyrir það og munum af þeirri ástæðu vitanlega styðja málið eins og það liggur nú fyrir og var samþ. við 2. umr. Ég held, að það liggi nokkuð ljóst fyrir samt, að það hljóti alltaf að verða nokkur sérstaða hjá Reykjavík varðandi þessi tryggingarmál, eins og enda hv. 1. þm. Árn. kom inn á hér, og mér þótti einnig vænt um að heyra hann taka það fram, sem var einnig frumrök okkar fyrir þáltill., að það væri mjög nauðsynlegt að fá tóm til þess að íhuga þetta mál betur og sjá, hvaða afleiðingar það hefði, og að rjúfa ekki það tryggingarkerfi, sem byggt hefur verið upp í gegnum Brunabótafélagið, nema lægi ljóst fyrir, að það væri hagkvæmari og betri fyrir heildina önnur skipan mála.

Þetta vildi ég sem sagt að kæmi hér fram, þannig að það lægi ljóst fyrir, hvernig afstaða okkar er og hvað liggur til grundvallar þessari till., því að vel kann svo að fara, ef frv. nær fram að ganga í þessu formi, að það þyki þá ekki sérstök ástæða til þess að láta fara fram þá rannsókn, sem þar um ræðir, og vildi ég því, að þetta lægi ljóst fyrir og skýra jafnframt afstöðu okkar til málsins eins og það liggur nú fyrir.