27.03.1954
Neðri deild: 71. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hér hafa nú verið fluttar nokkrar brtt. við þetta frv. frá því, sem áður hafði verið fram komið, eða síðast þegar þetta mál var til umr. Ég vildi fara örfáum orðum um þessar brtt. og afstöðu mína til þeirra.

Þær brtt., sem eru á þskj. 563 og fluttar af minni hl. allshn. og hv. 1. þm. Árn. hefur hér gert grein fyrir, gera ráð fyrir þeirri meginbreytingu á frv. frá því, sem það er nú, að niður verði felld sú heimild, að bæjar- og sveitarfélög geti tekið rekstur trygginganna í eigin hendur. Hér áður í umr. hafði ég lýst því yfir, að mín skoðun væri sú, að ósk bæjar- og sveitarfélaga utan Reykjavíkur miðaðist fyrst og fremst við það, að þau fengju rétt til þess eins og Reykjavík hefur nú að bjóða tryggingarnar út og eiga þar með kost á því að taka lægstu fáanleg tilboð í tryggingarnar. Út af fyrir sig raskar því þessi till. ekki á neinn hátt því, sem ég tel mestu máli skipta fyrir bæjar- og sveitarfélög utan Reykjavíkur. Ég hef ekki trú á því, að þau mundu í framkvæmdinni ætla sér að taka upp rekstur trygginganna, heldur fyrst og fremst nota sér hitt ákvæðið um heimild um það að gera útboð. En það virðist hins vegar vera, að þetta muni skipta Reykjavíkurbæ talsvert verulegu máli, því að það er einmitt þetta, sem bæjarstjórnin í Rvík er að fara fram á Rvík til handa, til viðbótar við það, að hún hefur haft frjálsræði til þess að bjóða út sínar tryggingar, að hún megi nú framvegis einnig taka að sér rekstur trygginganna. Vegna þess að mér sýnist, að það sé mjög hæpið, að hægt sé að tryggja framgang þessa máls með því að neita Reykjavíkurbæ um það, sem hann hér óskar eftir, að fá aðstöðu til þess að reka sjálfur sínar tryggingar, þá treysti ég mér ekki til þess að styðja þessa brtt., eingöngu á þeim forsendum.

Önnur ákvæði, sem fram koma í brtt. á þskj. 563, leiðir í öllum meginatriðum af þessari breytingu, sem ég var að lýsa núna.

Ég skal játa það, að ég hef ekki fyllilega gert mér grein fyrir þeirri brtt., sem hv. 3 þm. Reykv. hefur flutt hér skriflega, og ég mundi fyrir mitt leyti styðja þá ósk, sem hér hefur fram komið, að það yrði veittur einhver frestur til þess að hugleiða þá brtt., áður en atkvgr. fer fram um hana. Ég sé ekki, að það væri þörf á því að veita þann frest ýkja langan, þannig að það þyrfti ekki að setja þetta mál í neina hættu þess vegna, en hins vegar finnst mér full ástæða til þess, að þm. fái að virða þá brtt. betur fyrir sér en þeir hafa átt kost á hingað til.

Ég lít þannig á þetta mál, eins og ég hef lýst hér áður, að aðalatriðið eða það, sem ég vil leggja mesta áherzlu á, er sá réttur, sem eðlilegt er að bæjar- og sveitarfélög utan Rvíkur fái, það er rétturinn til þess, að þau megi bjóða út sínar vátryggingar á hliðstæðan hátt og Rvík hefur haft. Till. um það efni hefur nú verið samþ. inn í frv., og þannig lítur frv. út nú. Hér hefur enginn hv. þm. raunverulega mótmælt því, að réttmætt væri, að bæjar- og sveitarfélög utan Rvíkur fengju þessi réttindi, en hins vegar hafa nokkrir hv. þm. komið með vissar afsakanir í sambandi við afgreiðslu málsins og ýmist bent á það, að það væri óæskilegt að blanda þessari beiðni bæjar- og sveitarfélaga utan Rvíkur saman við það frv., sem hér liggur fyrir, og nokkrir hafa jafnvel hallazt að því ráði að flytja þáltill. um málið og vilja setja þetta í sérstaka athugun. Ég segi það, að ég sé enga ástæðu til þess að fresta ákvörðun um að veita bæjar- og sveitarfélögum utan Rvíkur sama rétt og Rvík hefur haft í mörg ár. Margir kaupstaðir landsins hafa gert samþykktir um að óska eftir þessu frjálsræði, og mörg erindi hafa borizt til Alþingis í þessa átt.

Mér er sagt, að bæjarstjórnin á Siglufirði hafi gert samþykkt um þetta efni, bæjarstjórnin á Ísafirði; ég veit um Neskaupstað. Hér liggur enn fremur fyrir, sem mér er kunnugt um, undirskriftarskjal frá öllum húseigendum á Eskifirði, þar sem þeir óska eindregið eftir því, að þeim verði heimilaður sá réttur, sem Reykjavík hefur, að bjóða út sínar brunatryggingar. Sömuleiðis mun bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum hafa gert samþykkt um þetta mál, og auk þess má svo benda á það, að slíkar samþykktir og áskoranir frá bæjar- og sveitarfélögum úti á landi hafa komið hingað til Alþingis á mörgum undanförnum árum og verið hér nokkuð til umr. á Alþingi. Ég vil því benda þeim hv. þm., sem m. a. flytja nú þáltill. um, að þetta mál skuli setja í nefnd og þar athugað, á það, að það getur ekki orðið fullnægjandi afsökun fyrir þá gagnvart sínum umbjóðendum heima fyrir, þegar þetta mál er hér raunverulega á dagskrá og hefur verið samþ. hér inn í frv., sem liggur fyrir á Alþingi, að verða við óskum þeirra í þessu efni. Það getur ekki orðið fullnægjandi afsökun fyrir þá að óska nú eftir því, að málið verði sett í nefnd, sennilega til langvarandi athugunar, til athugunar, sem á að fara fram, eins og þar segir, í samráði við allar bæjarstjórnir landsins og allar sýslunefndir landsins, en slík athugun mundi án efa taka alllangan tíma.

Það liggur alveg óumdeilanlega fyrir, að þau brunatryggingarkjör, sem bæjar- og sveitarfélög úti á landi eiga við að búa, eru nú orðin þannig, að iðgjöld þeirra flestra eru um það bil fimm sinnum hærri en þau iðgjöld eru á samsvarandi húseignum, sem Rvík á nú kost á í dag. Hér er sem sagt farið að skakka svo gífurlega miklu, að það er engin von til þess, að fulltrúar þessara staða uni við það lengur, að þetta haldist í því formi, sem það hefur verið.

Ég vil líka benda á þessum hv. þm., sem nokkuð hafa hikað hér við afgreiðslu þessa máls núna í sambandi við þetta atriði, að það er með öllu ástæðulaust að tala um það, að með afgreiðslu málsins á þann hátt, sem það liggur nú fyrir, sé verið að rjúfa það tryggingarkerfi Brunabótafélags Íslands, sem gilt hefur á undanförnum árum, og í rauninni verið að leggja Brunabótafélag Íslands niður. Þetta er fullyrðing, sem engin ástæða er að halda fram. Brunabótafélag Íslands hefur vitanlega jafnan rétt til þess á við önnur tryggingarfélög í landinu að gera tilboð í brunatryggingar bæjar- og sveitarfélaga, eftir að þetta frv. yrði orðið að lögum. Og ég vil benda á það, að Brunabótafélag Íslands er allgamalt félag og talsvert öflugt félag, hefur þar að auki á bak við sig ríkið sem eiganda, mun vera orðið allfjársterkt félag og hefur hagnazt m. a. á undanförnum árum allálitlega, og hví skyldi það ekki geta gert tilsvarandi tilboð í vátryggingar sveitarfélaganna eins og hin frjálsu tryggingarfélög? Það er engin ástæða að ætlast til þess, að með þessu yrði Brunabótafélag Íslands lagt niður.

Ég vil líka benda þessum hv. þingmönnum á það, að ekki kemur þeim það til hugar í sambandi við afgreiðslu þessa máls að flytja hér þáltill. um, að brunatryggingarmálin í Reykjavík skuli sett í nefnd og þau athuguð og það m. a. athugað, hvort rétt er að fara inn á þá braut í tryggingarmálum höfuðborgarinnar, sem hún óskar eftir. Þáltill. er ekki flutt um það. Þar þykir sjálfsagt að verða við óskum Rvíkur um það, að hún fái allmiklu meiri réttindi en hún hefur haft fram að þessu, þó að hún hafi óumdeilanlega haft miklum mun meiri réttindi í þessum efnum en allir aðrir kaupstaðir landsins hafa haft og sveitarfélög.

Ég lít á þetta mál þannig, að hér sé um kröfu bæjar- og sveitarfélaga utan Rvíkur til jafnréttis við Rvík að ræða. Þetta er eitt af þeim málum, sem komið hafa hér fyrir Alþingi, þar sem fólkið úti á landi óskar eftir því að eiga kost á sömu réttindum og fólkið hér í Rvík, og eins og ég hef bent á áður, þá er ekki einu sinni í þessu tilfelli verið að fara fram á það, að neitt sé af Reykvíkingum tekið. Hér er ekki verið að fara fram á neina verðjöfnun. Hér er ekki verið að fara fram á það, að þau tryggingarumdæmi úti á landi, sem til yrðu með samþykkt frv., eigi að búa við sama tryggingariðgjald og Rvík. Ef Rvík hefur betri brunavarnir en aðrir staðir á landinu, ef hennar aðstaða er betri en annarra bæja, þá vitanlega nýtur hún betri tryggingarkjara. Iðgjöldin verða hér lægri. Við, sem að þessari till. stöndum, erum ekki að óska eftir því, að iðgjöldin verði gerð jöfn um allt land, heldur aðeins þetta, að bæjar- og sveitarfélögin úti á landi fái þann rétt, sem Rvík hefur haft til þess að bjóða út sínar brunatryggingar; ekkert annað. Ég skildi ummæli í lók ræðu hv. 2. þm. Eyf., sem er 1. flm.þáltill. þeirri, sem ég hef nokkuð minnzt á, þannig, að hann mundi nú og þeir flokksbræður hans styðja frv. eins og það liggur nú fyrir. Ég vona, að þessi skilningur minn sé réttur, því að ég efast í rauninni ekki um, að hann er á þeirri skoðun, að hér sé um réttlætismál byggðarlaganna úti á landi að ræða. (Gripið fram í.) Já, hann sagði, að það væri af því, að félmrh. væri ekki á móti því. Í rauninni skiptir það mig ekki miklu máli, hvaða forsendur eru fyrir því hjá honum, en ég, þykist alveg vera fullviss um það, að hann þekkir það vel til óska sinna umbjóðenda, að hann vill ógjarnan ganga á móti vilja þeirra í þessu efni, og ég vona, að þessi yfirlýsing hans þýði það í raun og veru, að hann og meðflm. hans að þáltill. ætli nú að standa um frv. eins og það liggur hér fyrir og sjá m. a. um það, að bæjar- og sveitarfélög úti á landi fái þann rétt, sem Rvík hefur haft í sambandi við útboð brunatrygginga.

Ég verð svo að segja það, að mér þykir þar nokkuð skorta á í sambandi við framgang þessa máls, að 1. flm. þessa frv. um brunatryggingarnar í Rvík, borgarstjórinn í Rvík, sem hér hefur nokkrum sinnum talað í sambandi við þetta mál, vildi ekki í gærdag í sambandi við atkvgr. um málið verða við óskum bæjar- og sveitarfélaga úti á landi um það að veita þeim hliðstæðan rétt og hann óskar nú eftir f. h. Rvíkur. Og þó að hann hafi ekki hér í ræðum sínum mælt á neinn hátt gegn því, að hér væri um réttlætismál að ræða, þá hef ég ekki heldur enn getað fundið í ræðum hans hér, að hann vildi standa með þessum óskum byggðarlaganna úti á landi. Mér sýnist, að full ástæða væri til þess fyrir hann, sem nú leggur mikið kapp á það, að þetta mál nái fram að ganga og að Rvík fái þau réttindi, sem hún óskar eftir, að hann beinlínis lýsti því hér yfir, að hann vildi, um leið og hann fer fram á þetta, verða við óskum byggðarlaganna úti á landi og tryggja þar með framgang málsins í þeirri mynd, sem það nú liggur fyrir. Með því fær hann allt það, sem hann hefur óskað eftir og telur að máli skipti fyrir Rvík, en neitar þó ekki öðrum um sama rétt.

Ég skal svo ekki á þessu stigi heyja frekari umr. um málið, en tek undir þau ummæli, sem hér hafa komið fram um það, að rétt væri að leyfa þm. nokkra athugun á þeirri skriflegu brtt., sem hér hefur komið fram um málið, áður en a. m. k. atkvgr. fer fram um þá till.