01.04.1954
Efri deild: 75. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (2019)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson):

Eins og nál. bera með sér í þessu máli, hefur n. klofnað og þá þannig, að við 1. þm. N-M. höfum komið fram með brtt. við frv.

Það liggur nú fyrir í þessu máli, að þróunin í tryggingarmálunum hefur verið þannig, að hér starfaði um langt skeið Brunabótafélag Íslands, meðan ekki voru til hér íslenzk vátryggingarfélög til þess að taka við tryggingunum og bjóða í tryggingar, þannig að það gæti skapazt samkeppni. Þetta leiddi þó til þess, að Reykjavík hefur fengið sérstöðu, sumpart vegna þess, að þar er um stórt bæjarfélag að ræða og brunavörnum hefur verið komið þar vel fyrir. Það segja a. m. k. þeir, sem halda því fram, að eðlilegt sé, að Reykjavík hafi sérstöðu. En vitanlega áttu þau skilyrði, sem voru til staðar í Reykjavík með betri varnir gegn eldsvoða, að koma að gagni alveg eins í Brunabótafélagi Íslands, ef það var samkeppnisfært, eins og í öðrum félögum.

Þetta hefur, eins og við vitum, verið þannig, að Reykjavík hefur verið frjáls með sínar tryggingar og boðið þær út og venjulega tekið því, sem þar hefur verið lægsta boð, og teljum við eðlilegt að hafa þennan hátt á. Það sýnir sig, að það eru mörg félög hér, sem keppa, og samkeppni milli þeirra virðist vera orðin mjög hörð, og þess vegna eru allar líkur til þess, að aldrei hafi verið betri skilyrði til þess fyrir húseigendur í Reykjavík að fá viðunandi tryggingar. Þessa aðferð virtist nú eiga að hafa í þessum málum, og tryggingarnar voru boðnar út með svipuðum hætti og venja hefur verið. En eftir að tilboðin berast, — tilboð, sem þó virðast vera mjög hagkvæm, — þá er gripið til þess ráðs að bera hér fram á Alþ. frv. um það, að bænum sé heimilað að taka að sér tryggingarnar að meira eða minna leyti. Þessa vinnuaðferð og þessa aðferð við tryggingar álitum við mjög vafasama. Það hefur að vísu verið bent á það, að þau tryggingarfélög, sem hafa annazt tryggingarnar undanfarin ár, munu hafa grætt á tryggingunum, og dreg ég það ekki í efa, að það sé rétt. En það er nú einu sinni þannig, að tjón af eldsvoða fara ekki eftir neinum reglum, eins og ég hef nefnt, heldur þvert á móti, að skyndilega eftir hlé eins og þau, sem verið hafa hér og annars staðar, koma stórbrunar, svo sem maður sér í bæjum, þar sem er mikið af timburhúsum, og þarf ekki að rekja það hér. Það er nægilegt að benda á t. d. það, sem kom fyrir í bæ eins og Bergen. Hér eru stór svæði, þar sem geta komið fyrir verulegir skaðar, ef svo færi, að illa tækist til, sem maður að vísu vonar að ekki komi til, og þá er mjög vafasamt fyrir bæ, sem verður fyrir slíkum skakkaföllum eins og bruni getur orðið fyrir bæjarfélag, að bærinn, sem verður fyrir aðalblóðtökunni vegna brunans, á að leggja til það nýja blóð til að byggja bæinn upp að nýju. Þess vegna er þessum tjónum dreift mjög mikið og á þann hátt safnað sjóði, sem getur staðið undir slíkum skakkaföllum. Að vísu er gert ráð fyrir því að sjálfsögðu, að bærinn baktryggi sig að einhverju leyti, en ég sé ekki, að því séu nein ákveðin takmörk sett, að hve miklu leyti bæjarfélagið getur rótað sér inn í þessar tryggingar, ef þessi lög verða samþ.

Ég óttast, að þetta verði til þess, að allur kostnaður við tryggingarnar verði meiri en þyrfti að vera, ef það væri hafður sá háttur á, sem hafður hefur verið hingað til, og þetta verði til þess, að iðgjöld muni hækka frá því, sem hefði þurft að vera. Það er hætt við því, að þegar bærinn tekur að sér þessi mál, þá vilji leita í það horf, að það myndist a. m. k. einhver slappleiki í útboðunum, því að það er nú heldur alls ekki tekið fram hér í þessu frv., eins og það núna liggur fyrir og lá fyrir í upphafi, að bærinn þurfi yfirleitt að hafa nein útboð. Hann getur samið við hvern sem er, og þess vegna er engin trygging fyrir því, að það verði gert.

Ég held, að langeðlilegasti háttur á þessum málum — og till. í þá átt höfum við borið hér fram — sé að hafa þann hátt á, fyrst þessu máli er hreyft, að breyta tryggingunum í það horf að hafa þær að öllu leyti frjálsar. Það er talað um það af hv. þm. Seyðf., að þetta geti orðið til þess, að hús í Reykjavík og annars staðar á landinu verði ekki eins veðhæf. Ég satt að segja undraðist þessi ummæli frá jafnglöggum manni, eða heldur hv. þm., að húseignir í nálægum löndum séu taldar eitthvað ótryggari veð heldur en hér á Íslandi, þó að þessi tryggingarháttur sé á hafður, sem við stingum hér upp á. Vitanlega gengur sá, sem tekur við húsi, alltaf úr skugga um það, að húsið sé tryggt, alveg eins og hver annar hlutur, sem settur er að veði, þar sem eru frjálsar tryggingar, bæði fyrir bruna og öðrum skaða.

Ég get ekki séð, að það sé neitt því til fyrirstöðu að hafa tryggingarnar frjálsar fyrir húseignir í Reykjavík eins og aðrar tryggingar eru frjálsar. Ef á að taka húsin í Reykjavík og þvinga okkur húseigendur hér í Reykjavík til þess að láta bæinn tryggja fyrir okkur að meira eða minna leyti og það jafnvel án þess, að leyfð séu útboð um það, hvers vegna má þá ekki alveg eins taka næst t. d. allar bifreiðatryggingar og allar tryggingar á lausafé? Það liggur í augum uppi, að ef þessi stefna er rétt viðkomandi tryggingum á húsum, þá er hún líka rétt viðkomandi tryggingum á bifreiðum og öðru lausafé, og þessar tryggingar eru orðnar almennar. Þær eru að vísu ekki eins stórfelld útgjöld fyrir landsmenn, þessar lausafjártryggingar, eins og tryggingar á húsum, en við vitum það samt sem áður, að eftir því sem þjóðin þó hefur efnazt, eftir því hefur hennar lausafé, t. d. húsgögn, stóraukizt að verðmæti, og jafnframt er það þannig, að það er að verða sú gerbreyting hér í þessu landi, að stórar bifreiðar kosta eins mikið og húseign, og tryggingarnar á þeim eru engir smámunir. Það er þess vegna, ef þessi stefna er rétt, alveg jafnrétt að taka þetta í hendur ríkisins eða bæjar á hverjum stað. Ég get ekki séð, að það séu nein rök gegn því, en hvort það væri heppilegt, það er annað mál. Mér virðist eins og menn séu yfirleitt sammála um það, að trygging á lausafé og bifreiðum hafi farið stórbatnandi vegna samkeppninnar milli þeirra félaga, sem starfa hér í landinu, og það sé yfirleitt talsverð ánægja með þær tryggingar. Ég er ekki í neinum vafa um það, að á nákvæmlega sama hátt mundi fara með tryggingar á húsum, enda er þetta nú þannig erlendis og það meira að segja í þjóðfélögum, þar sem ráðandi eru flokkar, sem hafa gjarnan haft það á stefnuskrá sinni að sósíalisera og láta bæi og ríki reka eitt og annað, að þeim hefur aldrei komið til hugar að ganga svo langt, eftir því sem ég bezt veit. Það má þá leiðrétta það, ef ég fer með rangt mál, en ég hygg, að þið minnizt t. d., þegar jafnaðarmennirnir voru í meiri hluta í Englandi, að þeim hefur aldrei dottið í hug að taka tryggingarnar þeim tökum, sem þær eru teknar í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Ég veit ekki til þess, að meiri hlutanum, sem sósíaldemókratarnir höfðu í Danmörku, hafi nokkurn tíma komið það til hugar. Ég veit ekki til þess, að það standi til eða hafi staðið til í Noregi að fara þær leiðir. Og ég veit ekki til þess, að Svíum hafi, meðan jafnaðarmenn höfðu hreinan meiri hluta þar á þingi, komið slíkar leiðir til hugar. Að minnsta kosti hafa þeir ekki framkvæmt það, hvort sem þeir hafa tekið það til athugunar eða ekki, og það er vegna þess, að þeir álita, að tryggingarnar hafi verið sæmilega reknar, það hafi verið eðlileg samkeppni milli þeirra, sem tryggingarnar hafa annazt, og þeir hafa talið, að það væri ekki til ávinnings að taka þetta í hendur bæjanna eða ríkisins.

Það er hér talið til hagsbóta, að bæirnir taki þetta að sér. En niðurstaðan mun samt sem áður verða sú, að þessi rekstur verði á þann hátt dýrari en hann mundi annars þurfa að verða. Það er ekki nauðsynlegt að fara langt inn á umr. um það á þessu stigi málsins. Það er hægt að taka samanburð við svo margt annað, sem er framkvæmt af bænum, og sumt, sem er framkvæmt af ríkinu og reynist því miður dýrara en ef það er gert á annan hátt. Ég hygg t. d., að það sé nú staðreynd, að reksturinn á Brunabótafélagi Íslands sé a. m. k. ekki ódýrari, án þess að ég segi nú meira, heldur en hann er hjá nokkru hinna tryggingarfélaganna. Þannig vill nú þetta sækja í þetta horf. Við hv. 1. þm. N-M. leggjum þess vegna til, að tryggingarnar séu gerðar frjálsar, og komum hér fram með brtt., sem að því stefnir. Ef sú till. verður samþ., þá höfum við gert hér till. um það jafnframt, að með reglugerð megi setja ákvæði um það, hvernig skipt verði um, þegar breytt verður um fyrirkomulag, og þess vegna auðvelt að koma því fyrir með þeim hætti, að ekki verði óþægindi af fyrir húseigendur.

Ég skal taka það fram nú þegar, að ef svo færi, að þessar till. verða ekki samþ., þá geri ég ráð fyrir, að við komum fram með við 3. umr. till. um það, að sá háttur verði á hafður að bjóða tryggingarnar út með sem fullkomnustum hætti og taka síðan lægsta boði um tryggingar. Í stað þess að þær verði frjálsar fyrir hvern einstakling, þá verði það þannig, að tryggingarnar verði boðnar út í heild og tekið tilboði þess aðila, sem samkeppnishæfastur er að tryggja hús bæjarbúa.

Ég vil svo, a. m. k. á þessu stigi, ekki orðlengja frekar um þetta mál og vænti þess, að hv. d. taki það til athugunar að samþ. þær till., sem við hv. 1. þm. N-M. höfum borið hér fram.