07.04.1954
Efri deild: 79. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (2172)

111. mál, menntun kennara

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Hv. Nd. hefur sent þetta frv. hingað, og virðist tilgangurinn með því og efni þess vera sá, að það sé heimilað, að Húsmæðrakennaraskóli Íslands sé utan Reykjavíkur.

Menntmn. tók þetta frv. til athugunar, og virtist henni þegar það koma í dálítið einkennilegum búningi, hvað sem um efnið mætti segja að öðru leyti. Það virðist sem sé dálítið einkennilegt að segja, að tiltekin stofnun skuli starfa á Íslandi, án þess að nánar sé tiltekið, hvar það skuli vera, því að þetta virðist nokkur óþarfi, þar sem íslenzkt löggjafarvald nær sennilega ekki út fyrir Ísland, og jafnvel þó að svo væri nú litið á, að Grænland tilheyrði íslenzka ríkinu, þá býst ég við, að það hafi ekki verið meiningin, að húsmæðrakennaraskólinn starfaði á Grænlandi. N. getur vel fallizt á það, að það sé rétt að heimila, að húsmæðrakennaraskólinn sé utan Reykjavíkur, og leggur því til, að frv. verði samþ., en henni finnst þó myndarlegra, að það sé tiltekið, hvar eigi að ákveða, hvar á Íslandi skólinn skuli starfa, og getur það þá vitanlega verið þannig, að það verði ekki endanleg ákvörðun. Ef húsnæði vantar hér í Reykjavík, gæti verið réttmætt að flytja skólann þangað, sem húsnæði er fyrir hendi, en það gætu komið þeir tímar aftur síðar, að rétt gæti verið að breyta þessu. N. leggur því til að vísu að halda þessu orðalagi, að húsmæðrakennaraskólinn skuli starfa á Íslandi, en bæta við: „á þeim stað, sem fræðslumálastjórnin ákveður.“ Auðvitað hefði mátt segja: „húsmæðrakennaraskóli skal starfa á þeim stað, sem fræðslumálastjórnin ákveður,“ en ekki taka það fram beinlínis, sem allir vita, að það hlýtur að vera á Íslandi.

Hef ég ekki frekar um þetta mál að segja.