07.04.1954
Efri deild: 79. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (2176)

111. mál, menntun kennara

Páll Zóphóníasson:

Þetta mál hefur eins og öll önnur margar hliðar, sem maður þarf að athuga og gera sér grein fyrir, þegar á að greiða um það atkvæði. Það er um það að ræða, hvort húsmæðrakennaraskólinn, sem hefur starfað hér í Reykjavík, eigi að flytjast norður á Akureyri eða ekki.

Það fyrsta, sem þar kemur til greina og líklega ýtir undir þetta frv., er nú það, að það er búizt við því, að því húsplássi, sem hann hefur haft í háskólanum, geti hann ekki haldið nema skamman tíma enn. Hins vegar hefur vegna togstreitu milli héraða um að fá skóla hjá sér verið sett upp meira skólarúm í húsmæðraskólum landsins heldur en svarar til þess hluta af kvenfólkinu, sem er á sama árinu á hverjum tíma og vill fara í skóla, og það er aldrei hægt að ætlast til, að það fari svo margar stúlkur í skóla á sama árinu, að húsmæðraskólarnir allir geti orðið fullskipaðir. Það yrði að vera eitthvað sérstakt á ferðinni, óvenjuleg peningavelta eða sérstakir kennarar víð þá eða eitthvað, sem dregur að, ef það á að geta gengið. Þess vegna hefur húsmæðraskólinn á Akureyri, sem er, eins og þm. Barð. (GíslJ) tók fram, eign bæjarins, þó að ríkið hafi lagt í hann fé, verið tómur. Þá dettur mönnum í hug að nota þann skóla fyrir húsmæðrakennaraskólann, og í tilefni af því er frv. fram komið

Ég geri ráð fyrir, að þeir, sem hefur dottið þetta í hug, hafi hugsað það svo, að það væri ódýrara að búa við þann skóla heimavistina og annað, sem þarf að auka við hann og að breyta honum, eins og líka þarf að gera, heldur en að útvega skólanum húsnæði hér. Um þetta atriði þori ég ekki að segja. Ég hef ekki séð áætlanir um það, hvað kostar að byggja yfir hann hér, ekki heldur áætlanir yfir, hvað kostar að breyta á Akureyri. Á hvorum staðnum stofnkostnaðurinn yrði meiri, þori ég ekki að leggja neinn dóm á, og ég held satt að segja, að það séu engir þm., sem hafa gert áætlanir yfir það og geti lagt dóm á það núna. Ég læt þess vegna það atriði liggja milli hluta, enda er það aukaatriði. Það er atriði, sem kemur bara einu sinni í stofnkostnaði skólans. Hitt er aðalatriðið, hvernig skólinn getur fullnægt því hlutverki í framtíðinni að búa til sem bezt hæfar kennslukonur fyrir þær verðandi húsmæður, sem sækja skólana í framtíðinni. Það er aðalatriðið, hvaða kostnaður er því samfara að kenna þeim árlega, ekki bara árið, sem skólinn er fluttur, heldur áratugina, sem skólinn á eftir að starfa og kemur til með að eiga eftir að starfa hér á landi, og það er það sjónarmið fyrst og fremst og hvar kennslan verður bezt, sem á að ráða því, hvort við viljum flytja skólann eða ekki. Og þá er ég ekki í nokkrum minnsta vafa um það, að skóli, sem er í Reykjavík og getur átt von á tímakennurum þaðan, þ. á m. frá háskólanum, mönnum, sem eru sérfræðingar í næringarefnafræði, mönnum, sem eru sérfræðingar í heilsufræði o. s. frv., hvort tveggja fög, sem þar þarf að kenna, stendur miklu betur að vígi til að hafa góða kennslukrafta og standa vel í sinni stöðu sem skóli í Reykjavík heldur en á Akureyri, og hann gerir það miklu ódýrar, því ef hann á að fá þessa menn á Akureyri, þá þyrfti að setja sérstaka menn í það og borga þeim fyrir tiltölulega litla kennslu fyrir fáa nemendur, því að margir nemendur verða aldrei í honum, en það er hægt að fá þá sem tímakennara í Reykjavík. Þetta sjónarmið gerir það að verkum, að ég tel alveg tvímælalaust, að skólinn eigi að vera áfram í Reykjavík, en ekki að flytjast til Akureyrar.

Ég sé enga ástæðu til að samþ. till. þm. Barð. út af fyrir sig. Hún er náttúrlega að því leyti nýmæli, að hún tekur fram, að nemendur eigi að hafa með sér heimavist. Það er náttúrlega spurning, hvort það þarf að taka það fram í lögum, því ef fjárráð verða fyrir því, þá geri ég ráð fyrir, að skólanum verði skaffað það húsnæði, að hann geti komið á heimavistum, því að með því kemur hann til með að ná betur sínu hlutverki, en ég tel ekki þörf á því að samþ. það í lögum og tel þess vegna ekki þörf á öðru en að fella sjálft frv. Ég mun nú samt til vonar og vara greiða fyrri brtt. þm. Barð. atkv., móti þeirri seinni verð ég, en í heild á móti frv. Ef það kemur til atkv. eins og það er á þskj. 208, þá get ég ekki fylgt því, vegna þess að ég er sannfærður um, að þá áratugi, sem þessi skóli kemur til með að starfa, verður hann betur vaxinn sínu hlutverki í Reykjavík en á Akureyri. Það er það sjónarmið, sem hér á að ráða, en ekki hitt, hvað skiptir hugsaðan mismun á stofnkostnaði á Akureyri og í Reykjavík nú, sem enginn veit þó hve mikill er eða á hvorn veginn.