30.11.1953
Efri deild: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (2230)

57. mál, almannatryggingar

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef setið með hv. 2. landsk. (BrB) á þingi síðan 1942, og ég minnist aldrei að hafa séð hann setja svo hljóðan eftir nokkra ræðu eins og eftir þá framsöguræðu, sem ég flutti hér áðan, því að hann var mjög í efa, hvort hann ætti yfirleitt að kveðja sér hljóðs til þess að andmæla nokkru orði, sem sagt var. Svo mikið tók hann til greina þau rök, sem hér voru færð fram, sem ég er ekki heldur neitt undrandi yfir, því að það var ekki hægt að mæla eitt orð gegn þeim. Hann vildi að vísu hér reyna að gera mjög mikinn mun á vátryggingu og þjóðfélagstryggingu. Nú, hann varð að segja eitthvað til þess að halda uppi gagnrýni á mína ræðu, en út í þau mál fór hann ekki heldur þannig, að það verði raunverulega hægt að segja, hvað hann vildi í þeim málum. Hann sagði, að hér væri aðeins um fyrirkomulag innheimtu að ræða. Þann þátt málsins ræddi ég fullkomlega, og það væri endurtekning frá minni hálfu, ef ég færi að ræða það nokkru nánar.

En ég skal aðeins dvelja nokkuð við það, sem hann sagði um útreikning sinn á 15 þús. kr. gjaldabyrði á hverja fjölskyldu í landinu.

Hann hefur nú viðurkennt raunverulega með þessari ræðu sinni, að allur hans útreikningur væri rangur, eins og er alveg rétt, þar eð það er vitað, að það er ekki neitt svipað því, að það séu 15 þús. kr. lagðar á hverja fjölskyldu í landinu. (Gripið fram í.) — Vill ekki hv. þm. biða, þangað til hann fær aftur orðið? — Og það er heldur ekkert svipað því, að allri þessari upphæð sé skipt á fjölskyldur í landinu yfirleitt, eins og ég gat um í minni framsöguræðu. Og það er ekki heldur rétt, að tekjum af ýmissi starfrækslu í landinu og sköttunum, sem teknir eru af þeim tekjum, sé dreift niður á fjölskyldur í landinu. Ég vil bara benda á, að þegar menn hafa með höndum framleiðslu, segjum útveg, og ýmsa aðra framleiðslu í landinu og borga full laun til starfsmanna sinna og öll framleiðslan er síðan flutt út úr landinu og seld á erlendum markaði, þá kemur ekkert af þeim gróða, sem lendir í vasa eigandans eða hjá ríkissjóði, til skiptingar niður á hinar einstöku fjölskyldur í landinu. Það er síður en svo. Og það er einmitt það, sem ég vil vinna að í sambandi við skattamálin, að ýmsir ópersónulegir aðilar afli nýrra verðmæta úr skauti jarðar, til þess að gróðinn af því og sá hluti, sem fer í ríkissjóðinn, þurfi ekki að leggjast á fjölskyldur í landinu til þess að rýra þeirra kaup á fæði og klæði. Hv. þm. ætti að vera mér þakklátur fyrir þá stefnu, en ekki vera að gagnrýna hana.

Sama er að segja um orð hans um III. kafla l. Hann segir, að kaflinn auki lítið útgjöldin. Ég skýrði frá því í minni ræðu, hve mikil líkindi væru til að aukningin yrði, en hann færir til frá iðgjaldagreiðandanum beint yfir á ríkissjóðinn um 30 millj. kr., alveg eins og að færa yrði til aðrar 30 millj. kr. frá iðgjaldagreiðendum yfir á ríkissjóðinn, ef frv. yrði samþ., svo að hér er um að ræða rúmar 60 millj., og það þarf að taka einhvers staðar það fé aftur til þess að mæta þeim útgjöldum ríkissjóðs. Og hv. flm. hafa ekki gert minnstu tilraun til þess að benda á nokkra leið til þess, án þess að það lendi beinlínis á þessum sömu aðilum. Hv. þm. gat hér um nú, að það mætti taka gróðann af olíunni. Það er opin leið í dag að taka gróðann af olíunni með skattalögunum og er gert. Og það er gert þannig, að þegar komið er upp að vissu takmarki, þá eru tekin ekki minna en 90% af gróða, hvort heldur hann er hjá einstaklingum eða félögum, öðrum en samvinnufélögum. Þetta veit hv. þm. Og þó að hann vilji nú enn hækka þennan stiga og fara enn lengra niður í vasa þessara manna, þá eru það aðrir menn, sem hafa komið auga á, að það mundi verða til þess að minnka atvinnuna í landinu, minnka tekjur almennings, minnka tekjur ríkissjóðs. Og það er vegna þessa skilnings á málunum, að meiri hl. Alþ. hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að sjálfsagt sé að endurskoða skattalögin, ekki til þess að þyngja hinn stighækkandi skatt, heldur til þess að létta hann, til þess að breyta honum og gera hann léttari, en ekki þyngri. Það getur því ekki orðið til þess að standa undir hinum 60 millj., sem hér um ræðir, að stighækka skattinn, eins og hy. flm. vill láta gera. Hv. flm. sagði, að hann vissi ekki til þess, að nokkur maður hætti að vinna, þótt hann væri kominn upp í eitthvert tekjuhámark. Ég get bent hv. þm. á það, að það er m. a. fjöldi sjómanna, einkum og sér í lagi yfirmanna á sjónum, svo sem á togurunum, sem vill ekki leggja á sig það strit, sem því er samfara, til þess að vinna þannig að láta hið opinbera, ríki og bæi, hafa 90 krónur af hverjum 100 krónum og halda sjálfur 10 eftir. Og hann þarf ekkert annað en að athuga þessi mál sjálfur, ef hann vill líta í kringum sig. Hann veit, að það er komið svo nú, að svo að segja hver togari þarf að hafa þrjá skipstjóra í rúmi, þar sem einn var áður, af því að þeir vilja ekki vinna nema fyrir ákveðnum hluta tekna, svo að meginhluti teknanna sé ekki tekinn af þeim. Og það eru ekki einu mennirnir. Það eru fjöldamargar þúsundir manna í landinu, sem þannig er ástatt um. Annaðhvort vilja þeir hætta að vinna, þ. e., þeir vilja ekki leggja á sig þetta strit fyrir opinbera aðila, eða þeir gera allt, sem unnt er, til þess að geta þénað tekjurnar þannig, að það sé ekki verið að telja þær fram.

Nú vill hv. þm. fyrirbyggja það, að nokkur geti svikið skatt. Ég er sammála honum um það, svo framarlega sem skattalögin væru gerð þannig úr garði, að það væru ekki hreint og beint föðurlandssvik að svíkja ekki skatt í landinu, eins og það virðist vera í dag. En ef það yrði gengið inn á hans till. í þeim málum, þá mundi það sýna sig, að þá bættust enn við tugir þúsunda af mönnum, sem ekki vildu vinna fyrir ríkið, eins og hann ætlast til. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að berja höfðinu við steininn í sambandi við þetta mál. Þetta er orðið öllum mönnum svo kunnugt og er orðið meginorsökin til þess, að nú hefur Alþingi fengizt til þess að láta athuga í alvöru skattalöggjöfina.

Þá sagði hv. þm., að í minni ræðu hefði falizt yfirlýsing um, að það ætti að lækka skatta á hátekjumönnum, en hækka þá á lágtekjumönnum. Ég kom ekkert nálægt því atriði. (Gripið fram í.) Hv. þm. hefur þá bara ekki vitað, hvað hann var að segja. Mín ræða hefur sett hann þannig út af línunni í þetta skipti, að hann hefur hreint ekki vitað, hvað hann vildi segja um þetta mál. Og það sá ég reyndar, því að hann var mjög lengi að sækja í sig veðrið, þar til hann loksins tók í sig kjark til þess að koma upp og andmæla henni, en það hefur þó ekki tekizt betur en þetta. Sannleikurinn er, að mín ræða sagði ekkert um það, hvaða stefna yrði farin í skattamálunum. Ég geymi mér rétt til þess að ræða um þau mál, þegar þau koma hingað í þessa hv. d., og vona þá, að við eigum hér báðir sæti og getum þá rætt um það atriði, eins og við ræðum um þetta atriði, svo að hann þarf ekki að krefja hæstv. ríkisstj. um neina yfirlýsingu í sambandi við það atriði málsins.

Þá sagði hv. þm., að framsöguræða mín væri ekki í neinu samræmi við nál., n. hefði ekki tekið neina efnislega afstöðu til málsins. Hún hefur ekki tekið aðra efnislega afstöðu til málsins en það, að hún álítur óviturlegt og ósanngjarnt að gerbreyta svo tryggingalöggjöfinni sem lagt er til í frv., rétt áður en heildarendurskoðun á að fara fram. Og nú hefur hv. flm. fallizt á þetta með n., og er ég honum mjög þakklátur fyrir það. Í nál. er bent á, að þetta kosti 60 millj. kr. ný útgjöld fyrir ríkissjóðinn á fjárlögum, sem verið er að ganga frá, og það er m. a. ein ástæðan fyrir því, að hún telur, að ekki beri að samþ. frv. án þess að það fái þá athugun, sem það eðlilega getur fengið hjá þeim mönnum, sem eiga að endurskoða lögin á næsta ári, svo að þetta er algerlega í samræmi við það, sem ég hef haldið fram í nál. — Og hann þakkaði m. a. nefndinni fyrir að hafa afgr. málið þannig. Ég er honum sammála um það; ég á minn þátt í því. Ég álít, að það hefði verið rétt, að málið væri afgr., það kæmi hér til umr., svo að hv. alþm. og aðrir, sem heyra hér til, gætu einu sinni fengið að vita, hvaða reginvitleysu hv. flm. og hans meðflm. eru að bera fram hér á þessu þingi og hvað miklar fjarstæður það eru, sem hann hefur látið út úr sér í sambandi við þessi mál öll og hann hefur leyft sér að endurtaka hvað eftir annað hér, þing eftir þing. Ég er líka þakklátur n. fyrir að hafa gefið tækifæri til þess, að almenningur fengi vitneskju um það.

Mér skildist á hv. þm., að hann mundi nú verða með dagskránni, og er það rétt, að augu hans hafi opnazt fyrir því, að svona á ekki að afgr. stórmál, eins og hann óskaði eftir við 1. umr.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta mál nánar. Það ber ekki svo mjög mikið á milli mín og hv. flm. í þessu máli. Við erum orðnir sammála um, að dagskráin sé eðlileg, hann þakkar n. fyrir að hafa gengið þannig frá málinu. Ég er sammála n. og vænti þess, að hv. d. verði einnig sammála mér og hv. flm., eins og hann hefur nú lýst yfir hér við umræðurnar.