18.03.1954
Neðri deild: 63. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (2250)

30. mál, félagsheimili

Frsm. meiri hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Tekjur þær, sem renna í félagsheimilasjóð, eru hluti af skemmtanaskatti. Sá hluti, sem félagsheimilasjóði er ætlaður, hefur verið skertur nokkuð frá því að lög um félagsheimili voru sett 1947, með því að brýna nauðsyn þótti bera til, að stærri hluti af skemmtanaskattinum rynni til þjóðleikhússins heldur en þá var gert ráð fyrir. Tekjur félagsheimilasjóðs eru þar af leiðandi mjög takmarkaðar ár hvert.

Þegar lögin um félagsheimili voru sett, var nokkurt vandamál, hvernig ætti að haga reglum um það, hvaða félög væru styrkhæf og hvaða félög ekki. En ekki þótti kleift að veita úr sjóðnum styrk til allra félaga í landinu, sem hug hefðu á því að reisa félagsheimili ein út af fyrir sig. Niðurstaðan varð sú, að reglan var miðuð við það, að þau félög, sem hefðu menningarstarfsemi að aðalviðfangsefni, væru styrkhæf, en önnur félög, sem hefðu önnur verkefni að aðalviðfangsefnum, þótt þau styddu menningarstarfsemi öðrum þræði, gætu ekki fallið í þennan flokk.

Af þessu leiðir, að eins og lögin eru nú, þá hafa stéttarfélög, t. d. stéttarfélög iðnaðarmanna, verzlunarmanna og ýmissa annarra stétta, ekki rétt til þess að fá styrk úr félagsheimilasjóði, þótt þau reisi félagsheimili fyrir starfsemi sína. Hið sama gegnir í þessu efni um samvinnufélög, af því að svo er litið á, að aðalviðfangsefni þeirra sé á viðskiptasviðinu, en ekki menningarstarfsemi. Samvinnufélög hafa því ekki fengið styrk úr félagsheimilasjóði, þó að þau hafi reist félagsheimili fyrir starfsemi sína. Nefna má búnaðarfélög í þessu sambandi, og fleiri félög mætti nefna, sem þannig er ástatt um. Í framkvæmdinni er þetta líka þannig, að í flestum sveitarfélögum er það fullnægjandi að reisa eitt félagsheimili í sveitarfélagi, og þau hús, sem reist eru og styrkt úr félagsheimilasjóði, þurfa að vera vönduð að öllum frágangi og vel séð fyrir rekstri þeirra og viðhaldi. Þetta verður á allan hátt auðveldara, ef fleiri en eitt félag stendur að byggingu félagsheimilisins og félög í hlutaðeigandi sveitarfélagi slá sér saman og annast reksturinn og viðhaldið í sameiningu. Þess vegna hefur verið kostað kapps um að fá félög til þess að sameinast um slíkt átak sem það er í hverju byggðarlagi að reisa vandað félagsheimili til þeirrar starfsemi, sem þau eru ætluð til. Framkvæmd félagsheimilalaganna hefur verið hagað þannig samkv. áliti, sem stjórn félagsheimilasjóðs gaf heilbr.- og félmn., að þar sem verkalýðsfélög óska þess að eiga þátt að stofnun og rekstri félagsheimila í samvinnu við önnur félög innan sama sveitarfélags, þá hefur leyfi verið veitt til þess. Eru nokkur dæmi um það hér á landi, m. a. í Bolungavík og Sauðárkróki, að ég ætla. En meiri hl. stjórnar félagsheimilasjóðs lítur ekki þannig á, að lögin heimili að veita verkalýðsfélögum styrk, ef þau reisa félagsheimili ein út af fyrir sig.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, stefnir að því að veita verkalýðsfélögum þennan rétt til þess að fá styrk, þótt þau reisi félagsheimili ein út af fyrir sig. Meiri hl. heilbr.- og félmn. telur, að það yrði miklum vandkvæðum bundið að marka skýra reglu í þessu efni gagnvart öðrum félögum, ef frv. það, sem hér liggur fyrir, yrði lögfest. Ef stéttarfélag af einu tagi, eins og stéttarfélag verkamanna, fær ótvíræðan rétt í þessu falli, þá fær ekki meiri hl. heilbr.- og félmn. séð, að það yrði auðið að synja stéttarfélögum verzlunarmanna, iðnaðarmanna og ýmissa annarra stétta um sambærilegan rétt. En ef þessi réttur yrði færður til flestra eða allra félagssamtaka í landinu, sem hug hefðu á því að reisa félagsheimili, þá mundi það takmarkaða fé, sem félagsheimilasjóður hefur til umráða, hrökkva harla skammt til að fullnægja þeim umsóknum, sem fyrir liggja, og verða af því minni not heldur en á þann hátt, sem nú er, að reyna að þrýsta félögunum saman og stuðla að því, að hvert byggðarlag um sig reisi sem vandaðast félagsheimili innan sinna takmarka. Meiri hl. heilbr.- og félmn. telur því ekki fært að lögfesta þetta frv. eins og það liggur fyrir, nema séð sé um það jafnhliða að auka tekjur félagsheimilasjóðs frá því, sem nú er, en engar till. eru uppi um það. Meiri hl. n. leggur því til, að frv. verði afgr. með þeirri rökstuddu dagskrá, sem prentuð er í áliti meiri hlutans.