18.03.1954
Neðri deild: 63. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (2251)

30. mál, félagsheimili

Frsm. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Árið 1947 voru sett merk lög um félagsheimili, þar sem svo er kveðið á, að ríkisvaldið skuli styðja ýmis almenningsfélög, sem hug hafi á því að koma upp samkomuhúsi fyrir starfsemi sína, og eru félagsheimilasjóði ætlaðar sérstakar tekjur af skemmtanaskatti til þess að standa undir þeim styrkveitingum. Úthlutun úr félagsheimilasjóði annast íþróttanefnd og fræðslumálastjóri.

Það hefur komið í ljós í störfum stjórnar sjóðsins, að hún telur verkalýðsfélög ekki vera styrkhæfa, aðila í þessu sambandi, þ. e. a. s., vilji verkalýðsfélög koma upp félagsheimili yfir starfsemi sína, eiga þessi félagssamtök ekki kost á styrk úr félagsheimilasjóði til byggingar samkomuhússins. En í þessu frv. er lagt til, að þessu verði breytt, þannig að verkalýðsfélög verði styrkhæfir aðilar til jafns við þau almenningsfélög önnur, sem þar eru nefnd, en það eru ungmennafélög, íþróttafélög, lestrarfélög, bindindisfélög, skátafélög, kvenfélög og hvers konar önnur menningarfélög, sem standa almenningi opin án tillits til stjórnmálaskoðana. Verkalýðsfélögin eru almenningsfélög, standa almenningi opin án tillits til stjórnmálaskoðana. Þau eru að vísu fyrst og fremst hagsmunafélög, en þau hafa gegnt og gegna jafnframt mjög mikilvægu menningarhlutverki. Og það er einmitt brýn þörf á því, að verkalýðsfélögin auki þá starfsemi sína stórum, sem lýtur að eflingu menntunar og sannrar menningar meðal félagsmanna sinna, en á því eru nokkur tormerki einmitt sökum skorts á samkomuhúsum og félagsheimilum. Það mundi auðvelda verkalýðsfélögum mjög að koma upp fyrir sig hentugu húsnæði og þar með auðvelda þeim að rækja umræddan þátt starfsemi sinnar, menningarhlutverkið, ef þau yrðu viðurkenndur í lögum fullgildur aðili til styrks úr félagsheimilasjóði.

Þess er rétt að geta, að n. fékk upplýst, að í íþróttanefnd er nokkur ágreiningur um það, hvort verkalýðsfélög séu styrkhæfir aðilar eða ekki. Meiri hl. íþróttanefndar hefur litið þannig á, að verkalýðsfélög eigi rétt á því að gerast meðeigendur að félagsheimilum í héraði sínu, en eigi hins vegar ekki rétt á styrk til byggingar félagsheimilis ein sér. Minni hl. íþróttanefndarinnar lítur hins vegar þannig á, að samkv. lögunum eins og þau eru séu verkalýðsfélög fullgildir styrkaðilar í þessu sambandi. En meiri hl. hefur ekki viljað viðurkenna þetta sjónarmið, og tel ég því til þess bera brýna nauðsyn, að það sé lögfest með skýlausu lagaákvæði, svo sem lagt er til í þessu frv.

Þess er rétt að minnast, að verkalýðsfélögin eru ein elztu og fjölmennustu félagssamtök, sem nú starfa hér á landi, þau félagssamtök, sem einna mest hafa látið til sín taka og án efa einna mest og bezt starf hafa innt af höndum til bætts hags og menningarauka fyrir alþýðu þessa lands. Ég tel þess vegna ekki við það unandi, að þessi félagssamtök, sem nú telja um 26 þús. manns, séu ekki viðurkennd jafnrétthár aðili við t. d. ungmennafélög, íþróttafélög og bindindisfélög, að því er tekur til rétts til styrks úr ríkissjóði til þess að koma upp samkomuhúsi fyrir starfsemi sína. Þess vegna hef ég leyft mér í nál. mínu að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt og vænti stuðnings við það frá hv. þingdeildarmönnum.