06.10.1953
Neðri deild: 3. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

15. mál, sjúkrahús o. fl.

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta var undirbúið af fyrrv. ríkisstj. og er samið af landlækni. Það skýrir sig að mestu sjálft, þarfnast lítilla skýringa að öðru leyti en því, að það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir, hver útgjöld fyrir ríkissjóð mundi leiða af þessari styrktarstarfsemi, sem frv. gerir ráð fyrir.

Landlækni telst til, að á næstu árum muni styrkhæfir legudagar nema allt að 150 þús., er skiptast mundu þannig: 30 þús. legudagar á 5 krónur, jafnt og 150 þús., 80 þús. legudagar á 10 krónur, jafnt og 800 þús., og 40 þús. legudagar á 20 krónur, jafnt og 800 þús.; samtals 1 millj. og 750 þús. — En eins og hv. þm. sjá, er ætlazt til með frv., að styrkurinn sé misjafnlega hár til hinna ýmsu sjúkrahúsa eftir aðstæðum og legurúmafjölda, og er það tekið fram í 1. gr. frv.

En til frádráttar þessari 1 millj. og 750 þús. kr. koma rúmlega 160 þús. kr., sem nú eru veittar til rekstrar fjórðungssjúkrahúsa. Á fjárlögum næsta árs, þ.e. til styrkveitinga árið 1954, mundu nægja 800–900 þús. kr., og sennilegt er, að komizt yrði af með 1 millj. og 250 þús. kr. á fjárlögum 1955, því að nokkur aðdragandi verður að því, að sjúkrahús þau, sem nú eru í smíðum, taki til starfa og nái fullum legudagafjölda. Þannig er álit landlæknis.

Ég býst við því, að ýmsir telji, að það sé vafasamt, hvort það sé fært fyrir ríkissjóð að taka á sig þann bagga, sem mundi leiða af lagasetningu sem þessari, en hitt er þó ljóst, að það er ekki til nokkurs hlutar fyrir ríkið að styrkja sjúkrahúsbyggingar, ef ekki er um leið nokkurn veginn öruggt, að sjúkrahúsin geti verið rekstrarhæf. Eins og ástandið er nú um þetta, þá er það þannig með sjúkrahúsin, að þau geta ekki tekið til starfa, þótt búið sé að koma byggingunni upp. Þetta er vitanlega mál, sem hv. Alþingi hlýtur að taka til ákveðinnar yfirvegunar, og ég geri ráð fyrir því, að þegar sú yfirvegun hefur farið fram, þá verði niðurstaðan sú, að það sé óhjákvæmilegt að veita nokkurn rekstrarstyrk til sjúkrahúsanna, eitthvað í líkingu við það, sem þetta frv. fer fram á. — Legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.