26.11.1953
Neðri deild: 29. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í C-deild Alþingistíðinda. (2350)

91. mál, kristfjárjarðir

Pétur Ottesen:

Ég vil þakka hv. frsm. fyrir undirtektir hans viðkomandi því atriði, sem ég óskaði eftir að nánar yrði athugað, og ég tel rétt og hyggilegt undir öllum kringumstæðum, að sams konar ákvæði eða svipuð verði látin gilda um ávöxtun þess fjár, sem fengizt hefur fyrir kristfjárjarðir, sem nú er búið að selja, og ávöxtun þess fjár, sem fæst fyrir þær jarðir, sem kunna að verða seldar hér eftirleiðis, þó að ég geri ekki ráð fyrir, að þær muni verða margar, eftir þeim trausta umbúnaði, sem um þetta er hjá landbn. En það má þó út úr þessu draga viðurkenningu nefndarinnar á því, þegar svo er komið um einhverja jörð, sem verið hefur í leiguábúð og orðin er sökum niðurníðslu gagnslaus gjaldstofn, að eina úrræðið til þess að koma þessari jörð aftur í það ástand, að hún geti svarað vöxtum og þar með náð tilgangi gefandans, sé að selja jörðina og koma henni í sjálfsábúð. Þetta er rétt ályktun. Þegar svona er komið, er það vissasta og jafnvel eina leiðin til að rétta við, að jörðin komist í sjálfsábúð. Það var einmitt út frá þeirri hugsun, sem í þessu felst, að mér þótti óþarflega um búið að halda þessum jörðum í þeim gamla farvegi, sem í sumum tilfellum hefur leitt til þess, að þær hafa ekki orðið þjóðfélaginu til neinnar uppbyggingar og ekki heldur orðið til þess að svara til þess tilgangs, sem gefandinn hafði gert ráð fyrir, þegar hann tók sína lofsverðu ákvörðun um að láta einhverja af nauðstöddum borgurum þessa þjóðfélags njóta góðs af afrakstri eignarinnar.