26.11.1953
Neðri deild: 29. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (2355)

91. mál, kristfjárjarðir

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Eftir því sem mér skildist á ræðu síðasta ræðumanns, þá greinir okkur ekki mikið á. En það, sem ég vil leggja áherzlu á, er, að það sé bezt að koma þessu út úr heiminum. Sumar þær jarðir, sem hafa verið seldar, eru enn færðar jafnvel á opinberum skýrslum sem kristfjárjarðir eða jarðeignir í opinberri eigu eða undir þann flokk, og einhverjar deilur kunna að vera um það. Þess vegna er þessi grein til öryggis þeim mönnum, sem hafa keypt þessar jarðir í góðri trú. Það er því ekki alveg einskis virði, hvort þetta er ákveðið og gert hreint borð um þessa hluti eða ekki. Það er vegna þessa atriðis ekki sízt, sem ég tel það sé rétt, sem landbn. hefur lagt til, að samþ. 1. gr. eins og hún liggur fyrir.