09.03.1954
Neðri deild: 59. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (2370)

163. mál, olíuflutningaskip

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér datt eiginlega í hug, að það væri nú alveg sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur að sjá þetta frv. og hlusta á ræðu hæstv. fjmrh., og það frá tvennu sjónarmiði, svo að maður taki nú ekki máske alvarlegustu hlutina í málinu. Við munum máske eftir, að fyrir kosningar varð dálítið ósamkomulag á milli þessara félaga, sem þarna eru að sækja um að fá ríkisábyrgð. Þessi olíufélög voru að bera hvert á annað hinar mestu vammir og skammir. Núverandi stjórnarflokkar notuðu það sem eitt aðalatriðið í öllum sínum kosningaáróðri, hvað þessi olíufélög og flokkarnir, sem stæðu í sambandi við þau, væru vægðarlaus í því að reyna að féfletta þjóðina. En nú eru kosningar liðnar, og nú sjáum við þetta allt saman hér í einingu andans og bandi friðarins og hæstv. ríkisstj. koma hér fram með stjórnarfrv. um ábyrgð til handa þessum olíufélögum, sem áttu svona bágt með að sitja á sátts höfði fyrir kosningarnar. Svo heyrum við hæstv. fjmrh. lyfta sér ofur lítið upp af jörðinni, aldrei þessu vant, og tala um, að við Íslendingar ættum að fara að verða siglingaþjóð og loftsiglingaþjóð og sigla fyrir aðra, bæði á legi og í lofti. Öðruvísi mér áður brá, þegar hæstv. fjmrh. óttaðist mest um, að togararnir, sem við keyptum hér á árunum, væru eintómt gums, sem aldrei kæmi neinum að gagni, og það er þó olían til þeirra, sem nú á að flytja inn og nú á að græða á, og okkar sjávarútvegur verður eftir sem áður undirstaðan að öllu því, sem við leggjum til viðvíkjandi flutningaflota og loftsiglingaflota. En m. ö. o.: Batnandi manni er bezt að lifa, bæði hæstv. fjmrh. og þeim olíufélögum og þeirra flokkum, sem skarpast voru að berjast fyrir kosningarnar.

Sósfl. undirstrikaði mjög í sínu kosningaprógrammi þá stefnu sína að vilja stuðla að því, að Íslendingar gætu eignazt olíuflutningaskip og gætu komið upp loftsiglingaflota, og ég er fyllilega sammála því, sem hæstv. fjmrh. kom fram með um, að það ætti okkur sannarlega að vera mögulegt.

Í þessu frv. er farið fram á, að ríkið veiti um 100 millj. kr. ábyrgð fyrir þrjú olíufélög í landinu, Sambandið og Eimskipafélagið. Og ég vil strax taka það fram, að ég álit það stórt spor í framfaraátt, að við Íslendingar getum sjálfir eignazt olíuflutningaskip og getum sjálfir flutt okkar olíu til landsins og jafnvel líka að einhverju leyti flutt fyrir aðra, þó að hins vegar fyrst og fremst munum við verða að geta staðið undir því fjárhagslega sjálfir að bera þessi skip uppi. Og það er þá strax ein spurning, sem ég vildi leyfa mér að bera fram til hæstv. fjmrh. í sambandi við þessi mál, og það er, af því að ekki er tekið greinilega fram í þessari 1. gr., hvenær eigi að kaupa þessi skip, hvort um sé að ræða skip, sem þegar eru tilbúin, eða hvort eigi að fara að smíða þessi skip. Ég held, að það sé nefnilega enginn efi á því, að svo framarlega sem við getum fengið skip, sem nú eru tilbúin, þá mundi það koma allt öðruvísi út en ef nú á að ganga í ábyrgð fyrir að gera samning, við skulum segja hjá Burmeister & Wain eða einhverjum, um skipasmíði, sem mundi taka nokkur ár. Ég vildi þess vegna leyfa mér að bera fram þá fsp. til hæstv. fjmrh., hvort þessir aðilar, sem hugsa sér að kaupa olíuflutningaskipin, hafi nú þegar í huga ákveðin skip eða hafi tilboð um ákveðin skip, sem nú þegar eru nokkurn veginn fullbúin eða kannske komin í siglingu, eða hvort meiningin er að láta smíða skip. Ég vil vekja eftirtekt á muninum, sem á því mundi vera fjárhagslega fyrir ríkissjóð og Alþingi. Ef á að semja um að smíða skip, sem kann að taka 2–3 ár, þá geta á þeim tíma orðið ýmiss konar breytingar, m. a. líka hugsanlegar breytingar til hækkunar, og það mundi þýða, að ábyrgðin yrði þá máske mun hærri, þegar allt kæmi til alls, því að við þekkjum þess dæmi, að flest frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast lán hafa orðið þannig, að það hefur verið komið einu, tveim, þrem þingum seinna með frv. um viðbótarlán. Það er þess vegna mjög mikill munur, ef það liggur nú fyrir tilboð um ákveðið skip, sem yrði tekið um leið og búið væri að veita þessa ríkisábyrgð, og þessi skip gætu byrjað nú þegar að vinna fyrir landið með því að flytja olíu. Það gerir ákaflega mikinn mun eða hvort við ættum að verða að bíða 2 eða 3 ár, á meðan verið væri að smíða svona skip. Vildi ég óska, að gefnar væru upplýsingar um þetta nú þegar, því að það er áreiðanlega mjög þýðingarmikill þáttur þarna í.

En þá vil ég um leið spyrja, hvort hér sé gengið út frá eins stórum skipum og a. m. k. rætt hefur verið um í blöðunum. Það er nú ekki tekið fram hér, hvað stór skipin eiga að vera, en ég býst við, að það sé jafnvel átt við allt upp í 18 þús. tonna skip, sem þarna hefur verið rætt um, og það vildi ég líka mjög gjarnan fá upplýsingar um, því að það er náttúrlega heldur ekki alveg þýðingarlaust. Þótt þarna standi „allt að 50 millj. kr.“, þá getur það leikið á mörgum tugum millj., og það væri þess vegna ekki óeðlilegt að vita í þessu sambandi, hvaða stærð af skipum hugsað er um. Vildi ég vona, að hæstv. fjmrh. gæfi okkur upplýsingar um það. Ég þykist vita, að einmitt slík stærð af skipum er líka sú, sem er ódýrust í rekstri. Það mun þurfa rúmlega 40 manns á slíkt skip. Það er ekki miklu meira en á togara, og eru það gífurlegir yfirburðir yfir smáu skipin, sem þurfa upp undir það eins margt fólk, en flytja miklu minna. Það hefur þess vegna mikla þýðingu fyrir okkur að vita í þessu sambandi, hversu stórt skip er þarna verið að hugsa um, vegna þess að undir því er það að miklu leyti komið, hve miklir rekstrarmöguleikarnir eru. Ég álít sem sé vera verið að stíga alveg rétt spor með því að tryggja, að Íslendingar geti eignazt skip og flutt alla sína olíu sjálfir og jafnvel búið sig undir að flytja líka fyrir aðra, og þegar það væri gert, þá er bezt, að lagt væri út í það strax og skipin væru til undireins.

En um leið og við gerum svona ráðstafanir, ekki sízt þegar um er að ræða einkafélög, þá verðum við að athuga fleiri hliðar á þessum málum, þó að við séum sammála um sjálft prinsipið, að Íslendingar eignist olíuflutningaskip. Í fyrsta lagi verður að tryggja það, að eigendurnir geti ekki selt skipin úr landi. Ef ég man rétt, þá eru þau lög, sem nú banna að selja skip úr landi, frá 1917, og er það þó hægt með leyfi ríkisstj. Það þarf enga lagabreytingu til. Hins vegar, ef þeim lögum hefur ekki verið breytt, þá er ekki nema um 200 þús. kr. hámarkssekt við að selja skip úr landi, þannig að þegar um væri að ræða skip, sem kosta 50 millj. og þar í kring, gerir það hvorki til né frá. Ég álít því rétt, að sú nefnd, sem fær þetta til athugunar, hv. fjhn., athugi um að setja inn í þessi lög ákvarðanir um, að það megi ekki selja þessi skip úr landi, — algert bann við því, — og enn fremur, að ef selja eigi þessi skip innanlands, þá hafi ríkið forkaupsrétt. Það er það minnsta, sem hægt er að tryggja sér í þessu sambandi, og það vildi ég mjög mælast til að hv. fjhn. athugaði.

Þá er spursmálið um eignarréttinn í þessu sambandi. Það er sem sé af hálfu ríkisstj. lagt til, að það sé ekki ríkið, sem eigi þessi skip. Þó vil ég nú segja það, að það hefði verið að öllu leyti æskilegasti og eðlilegasti hluturinn og frá hagsmunasjónarmiði þjóðarinnar það bezta. Það er svo, að megininu af öllum olíuflutningunum til Íslands er ráðstafað af ríkisstj. Það er ríkisstj. nú sem stendur, sem kaupir inn alla olíu til Íslands. Það er ríkisstj., sem ræður því þess vegna, hvaða aðilar fá að flytja olíuna til Íslands. Og það er þess vegna líka að öllu leyti eðlilegast, að það væri ríkið, sem ætti olíuskipin, sem flytja þessa olíu. Þetta vil ég taka fram sem okkar afstöðu til málsins, að við álitum, að þetta væri það bezta. Það þýðir hins vegar ekki, að við leggjumst á móti málinu, þótt það væru aðrir aðilar.

En þá er rétt að athuga nokkuð um, hvaða aðilar það séu, sem fái leyfi til þess að kaupa þessi skip og fái ríkisábyrgð til þess og fái úthlutað frá hálfu ríkisstj. einkarétti til þess að flytja olíu til landsins, olíu ríkisstj., olíuna, sem ríkisstj. kaupir inn og úthlutar til ákveðinna aðila hér á Íslandi.

Það er í fyrsta lagi lagt til, að Samband ísl. samvinnufélaga og Olíufélagið h/f fái að kaupa annað olíuflutningaskipið með ábyrgð ríkisins. Ég verð nú að segja, að það er ekki eiginlega mjög nákvæmlega tekið fram í þessum tölulið, hvers konar fyrirkomulag eigi að vera á því samfélagi Sambandsins og Olíufélagsins. Á að mynda nýtt hlutafélag um þetta olíuflutningaskip, eða á þetta að vera eins konar sameignarfélag, eða hvers konar rekstrarfyrirkomulag á að vera á þessu? Það er ekki alveg þýðingarlaust. Ég álít nú satt að segja, að fyrst á annað borð ríkið á þetta ekki, þá hefði þó verið að ýmsu leyti nær að Samband ísl. samvinnufélaga sjálft hefði átt þetta skip. En ég býst við, að það sé ekki meiningin eftir þessu, heldur sé meiningin að mynda hér eitt af þeim hlutafélögum enn þá, sem eru orðin ákaflega tíð í sambandi við allan rekstur Sambandsins og ég tel að sumu leyti ekki sem heppilegust. Ég held, að það væri þess vegna mjög æskilegt að fá betri upplýsingar um, hvers konar fyrirkomulag þarna er hugsað.

Þá er viðvíkjandi hinum olíufélögunum og Eimskipafélagi Íslands. Þar kemur ekki heldur fram, hvers konar fyrirkomulag þessi félög hugsa sér, hvort það eigi að vera hlutafélag, sem þau eigi t. d. jafnt í, eða hvort það eigi að vera sameignarfélag milli þeirra eða hvað það sé. Þetta finnst mér líka eðlilegt að komi í ljós, jafnvel þó að það sé tekið fram á eftir, að félögin skuli hvert um sig ábyrgjast þetta eitt fyrir öll og öll fyrir eitt. En hvað snertir það, sem talað er um í öðrum líðum, þ. e. þann svo að segja prívat-kapítalistíska þátt hvað olíuflutningaskipin snertir, — hví er þetta bundið fyrst og fremst við þessi þrjú félög? Fyrst farið er inn á þá braut að gefa auðmönnum landsins eða öðrum, sem vilja leggja fé sitt í olíuflutningaskip, aðstöðu til að fá þarna sérstaka ríkisábyrgð, hví er þá eingöngu verið að binda þetta við þau þrjú félög, jafnvel þótt tvö af þeim séu sjálf olíufélög og selji hér olíu og Eimskipafélagið sé hið stóra flutningaskipafélag? Hví er ekki fleirum gefinn réttur til þess að vera þarna með? Hví er ekki myndað um þetta almennt hlutafélag?

Ég minnist ekki á þetta vegna þess, að ég sé svo sérstaklega fylgjandi slíkum félögum, heldur hins, að mér sýnist stefna í nokkuð óheillavænlega átt um þau afskipti, sem ríkisstj. hefur af þessum efnahagsmálum yfirleitt. Mér sýnist stefna í þá átt, að það eigi svo að segja að löggilda hér á Íslandi tvenna aðila, tvo hringa, sem skuli hafa einokunaraðstöðu í öllu okkar efnahagslífi, það skuli vera alveg afmarkaðir ákveðnir aðilar og þar út fyrir skuli ekki fara. Þetta virðist greinast svo, að annars vegar er S. Í. S. og Olíufélag Íslands og nokkrir fleiri, sem fá af náðinni að vera þar með, hins vegar skuli vera Eimskipafélag Íslands, olíufélögin og nokkrir fleiri aðilar, sem standa sérstaklega í sambandi við Sjálfstfl. Og prinsipið, sem ríkisstj. virðist vera að innleiða, er þetta: Það skal skipta á milli þessara tveggja aðila jafnt öllu því, sem ríkið hefur með að gera. Og svo framarlega sem þessir tveir aðilar, þessir tveir hringar, koma sér ekki saman um að skipta á milli sín gróða af einhverjum ákveðnum hlut á Íslandi, þá skal ekki vinna þann hlut, þá skal ekki gera þann hlut, þá skal ekki leggja í þetta og þetta fyrirtæki. Ég held, að það sé fyllilega tími til kominn, — og ég hef raunar áður minnzt á það hér, — að það sé athugað alvarlega af hálfu Alþ., hvert stefnir með þessum aðferðum. Ég held, að það sé engan veginn heilbrigð þróun, jafnvel fyrir þá, sem annars vildu stuðla að því að flýta fyrir myndun auðvaldsskipulags á Íslandi, að ríkið sem slíkt að Alþ. og ríkisstj. leiði myndun auðvalds á Íslandi inn á þá braut að skipta svo að segja öllu efnahagslífi landsins á milli tveggja einokunarhringa.

Ég hef tekið eftir því, að þessi skipting gengur eins og rauður þráður í gegnum alla pólitík hæstv. ríkisstj., enda þræðirnir nokkuð nærtækir frá þeim flokkum, sem í ríkisstj. eru, og út til þeirra hringa í efnahagslífi þjóðarinnar, sem þarna ráða. Ég skal bara minna á nokkur dæmi.

Þegar tilraunin var gerð til að taka áburðarverksmiðjuna úr ríkiseign og ákveðið að mynda hlutafélag, sem skyldi smám saman eignast að áliti framsóknarráðherranna 4/10 hluta úr henni, þar sem einstaklingar lögðu fram 4 millj. kr., þá kom strax upp deila í stjórnarflokkunum um, hvernig þessar 4 millj. kr. skyldu skiptast, og til þess að tryggja, að ekki stöðvaðist allt saman, var ákveðið af hálfu stjórnarflokkanna að skipta þessu þannig, að annars vegar fengi S. Í. S. helminginn, hins vegar ýmsir einstakir atvinnurekendur í Reykjavík hinn helminginn, svo að ekki hallaðist á. Síðan var svo, eins og menn muna, á síðasta þingi gerð tilraun til þess að taka alla áburðarverksmiðjuna eins og hún lagði sig, selja þær 6 millj. kr. af hlutafé, sem ríkið átti eftir, líka til einstakra aðila. Ég þarf ekki að efast um. að hefði það fengizt í gegn, eins og var í stjfrv. upprunalega, þá hefði því verið skipt bróðurlega á milli þeirra einokunarhringa, sem alls staðar eru að sölsa undir sig úr okkar atvinnu- og efnahagslífi allt, sem einhver gróði er af. Það mistókst þá, þrátt fyrir það að greinilegt væri, að ríkisstj. var því fylgjandi, en hún þorði ekki fyrir kosningar að ganga svo í berhögg við almenningsálitið og hlýða þeim fyrirmælum, sem komu frá Framkvæmdabankanum og Ameríkönum, að gefa Benjamín leyfi til að selja þetta hlutafé ríkisins upp á 6 milljónir króna fyrir nafnverð.

Sama og skeði viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni og í öllu því hneykslismáli, öllu því ránsmáli, hefur skeð viðvíkjandi olíuinnflutningunum til Íslands. Þegar ríkið kaupir alla olíuna, þá skiptir það olíunni á milli olíufélaganna. Það er ekki, eins og greinilega hefur komið fram, verið að hugsa um, hver trygging sé fyrir því, að sjómenn og útvegsmenn geti fengið olíuna ódýrt. Olíufélögunum er gefin alger einokun. — Sama er, eins og hefur verið sýnt fram á, þegar ríkið kaupir inn allt sementið til landsins. Því er skipt á milli tveggja aðila, annars vegar nokkurra stærstu byggingarvöruinnflytjenda íhaldsins í Reykjavík, hins vegar S. Í. S. Það er sama skiptingin, og það er ekki neinn smáræðis gróði, sem tekinn er af þessum aðilum, hvort heldur olíufélögunum eða við sementsinnflutninginn, bæði í fragtinni og álagningunni hér á Íslandi. Við skulum bara taka dæmi um sementið. Það er vitanlegt, að sementið kostar, þar sem ríkisstj. kaupir það, um 200 kr. tonnið fob., fragtin, sem tekin er, hvort heldur með skipum S. Í. S. eða annarra, er yfirleitt 100 kr. á tonnið, verðið hingað komið rúmar 300 kr. á tonn, en útsöluverðið 500 kr. á tonn. Það er lagt eins mikið á það hérna heima eins og það kostar úti.

Nú er mér spurn, og það væri gott, ef hæstv. fjmrh. vildi leysa úr því fyrir okkur: Er það ekki eitt af því, sem stendur í veginum fyrir samkomulagi við Ameríkanana núna um, að Hamilton fari burt af landinu, að stjórnarflokkarnir séu ekki búnir að koma sér saman um, hver eigi að taka við, ef Íslendingar eiga að sjá um? Það má nú mikið vera, ef það væri ekki einhver ágreiningur í ríkisstj. um það, hvort það ætti heldur að vera t. d. Sameinaðir verktakar eða hvort það ætti að vera S. Í. S. og máske gegnum ríkið, sem tæki að sér að stjórna hernámsvinnunni þar suður frá. A. m. k. hefur það vakið eftirtekt manna, að S. Í. S. hefur komið sér upp alveg sérstakri skipulagningu til þess að taka að sér slíka vinnu og er farið að gerast alltilþrifamikið viðvíkjandi því að flytja hingað inn til landsins útlend hús, sem vakið hefur mikil mótmæli. eins og eðlilegt er.

Meðan deilt er innan ríkisstj., hvernig skipta skuli þessum hluta, hvernig skipta skuli arðráninu á Íslendingum, fáum við litið að heyra, en þegar hæstv. ríkisstj. er búin að koma sér saman um hlutina og búið að skipta jafnt á milli þessara tveggja, sem virðast líta á landið og efnahagslíf þess eins og bráð, þá eru frumvörpin lögð hér fyrir okkur. Og mér er spurn: Hvað er um sementsverksmiðjuna? Hvaða snurða er það, sem hlaupin er á þráðinn þar? Er máske verið að undirbúa að fara sömu leiðina með hana eins og með áburðarverksmiðjuna? Sementsverksmiðjan er samkv. lögunum ríkisfyrirtæki eins og áburðarverksmiðjan var, þegar Framsfl. lagði hana fyrst fyrir þingið. Hvað er með sementsverksmiðjuna? Á að fara að taka hana úr ríkiseign líka? Á það sama að gerast í því efni eins og ríkisstj. hefur verið að reyna að framkvæma viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni? Hafa Ameríkanarnir gert sömu kröfuna viðvíkjandi sementsverksmiðjunni, að hún væri ekki ríkisfyrirtæki, eins og þeir hafa gert viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni og eins og Framkvæmdabankinn hefur verið að framkvæma hér á Íslandi? Er það ein fyrirskipunin enn þá frá Ameríkönum um, hvers konar fyrirkomulag eigi að vera á okkar efnahagsmálum? Það er eftirtektarvert atriði, að hér kemur fram að vísu mjög nytsamlegt mál, till. um ríkisábyrgð fyrir 100 millj. kr., en á sama tíma er því lýst yfir af hálfu ríkisstj., að það sé hlaupin snurða á þráðinn viðvíkjandi sementsverksmiðjunni og það sé ekki að búast við neinu frv. viðvíkjandi henni. Hvað er þarna að gerast? Hér eru það einstaklingsaðilar, stór ákveðin hlutafélög, einkaaðilar, eins og það er orðað í frv. um Framkvæmdabanka Íslands, sem eiga hlut að máli, — þá er undireins hægt að rjúka til, þá er undireins hægt að ganga í 100 millj. kr. ábyrgð, þegar það eru einkaaðilar, en ef það er ríkið sjálft, eins og sementsverksmiðjan, nei, takk, þá hleypur snurða á þráðinn, — og hvers konar snurða er það? Er ekki bezt, að við förum að fá að vita eitthvað um þetta, áður en við fáum frv. um, að það eigi að skipta áburðarverksmiðjunni á milli einhverra — við skulum segja þeirra byggingarvöruinnflytjenda, sem hafa núna fengið sementíð? Mig langar til þess, að við fáum dálitlar upplýsingar um þetta hér á Alþ., áður en hlutirnir eru lagðir fram eins og ríkisstj. er búin að koma sér saman um það.

Ég held, að það sé engum efa bundið, enda er það í samræmi við alla þá stefnu, sem þessir tveir stjórnarflokkar hafa framfylgt nú undanfarin ár, að reyna að taka sem mest úr ríkiseign eða hindra, að það verði ríkiseign, og koma því í eign einkaaðila. Og það er alveg vitanlegt mál, að þetta er gert samkvæmt beinum fyrirmælum, sem gefin voru í sambandi við Marshalllánin og Marshallgjafirnar, enda engin tilviljun, að í sambandi við Framkvæmdabankann, — og frv. um hann var útbúið af amerískum sérfræðingum, eins og menn muna, — þá var beinlínis lögð á það áherzla, að í lánveitingapólitík bankans og þar með í eftirlitinu með allri fjárfestingarpólitík ríkisstj. skyldi hlynna að því, að það væru einkaaðilar, sem legðu í fjárfestinguna, eignuðust féð og fengju gróðann. M. ö. o.: Ameríska auðvaldið hefur beinlínis verið að vinna að því að mynda sterka kapítalistíska stétt hérna á Íslandi, — ekki þar sem væru í margir kapítalistar, heldur þar sem væru í fáir kapítalistar, þar sem væri lítil einokunarklíka, sem réði, og það er sú pólitík, sem ríkisstj. er að framfylgja.

Ég skil það vel, að það kann að standa ofur lítið í hæstv. ríkisstj. að fallast á þær kröfur Bandaríkjanna, að sementsverksmiðjan verði einstaklingseign. Ég get vel skilið, að ríkisstj. hiksti dálítið á þessu, vegna þess að við urðum varir við það í fyrra, þegar hún ætlaði að ræna úr ríkissjóði því, sem eftir var af áburðarverksmiðjunni, þá hikstaði hún, þegar komið var fyrir þingið. Hún lagði til að selja öll hlutabréfin, eða gefa Benjamín Eiríkssyni heimild til þess, en hún afnam það úr lögunum á leiðinni í gegnum þingið, eða hér í Nd. Ég held þess vegna, að það sé ekkert fjarri lagi, að hæstv. fjmrh., svo varkár og gætinn fjármálamaður sem hann er, noti tækifærið, þegar hann biður þessa hv. d. um 100 millj. kr. ábyrgð, að segja okkur ofur lítið frá, hvernig þessi mál standa.

Það er ekkert undarlegt fyrir okkur, sem höfum hlustað á yfirlýsingar hæstv. ríkisstj., þegar hún tók við völdum, að hún ætli að setja 100 millj. kr. í ýmis nytsamleg raforkufyrirtæki á landinu, hún ætli enn fremur að útvega uppundir 100 millj. kr. til sementsverksmiðjunnar og þetta tvennt skuli ganga fyrir öllu, þó að við, sem höfum hlustað á svona yfirlýsingar, viljum gjarnan fá að vita, þegar ein 100 millj. kr. ábyrgðin kemur fram til handa ýmsum sterkum einstaklingum og einkaaðilum í landinu og í mjög þörfu og nauðsynlegu skyni, hvað liður því, sem ríkisstj. sagði að ætti að sitja fyrir öllu. Ég skil það vel, og það mun vera alveg rétt hjá hæstv. fjmrh., að það að veita þessa ábyrgð, sem hérna er lagt til, þarf ekkert að rekast á við hinar ábyrgðirnar. Ég geri ráð fyrir því, að það sé fyllilega mögulegt, að þessir sterku aðilar, sem þarna er um að ræða, geti keypt þessi skip erlendis nú, ef þeir fá þessa ríkisábyrgð, og það minnki ekki neitt lánstraust ríkissjóðs. En ég vildi gjarnan, að hæstv. fjmrh. myndi eftir þessu, þegar kæmi að því að ræða till. t. d., sem við höfum verið að leggja hérna fyrir um ríkisábyrgðir í sambandi við að kaupa nýja togara og annað slíkt. Ég vildi gjarnan, að hæstv. fjmrh. myndi eftir því, að það má vel veita ríkisábyrgð til þess að kaupa togara eða til þess að kaupa vélbáta, án þess að það reki sig nokkuð á sementsverksmiðjuna eða raforkufyrirtæki. En það er hins vegar ekkert óeðlilegt, þó að við spyrjum: Hvað líður þessum fyrirtækjum, sem áttu að vera númer eitt hjá ríkisstj.? Ekki sízt af því, að það eru hvort tveggja ríkisfyrirtæki. Raforkuverin á Austurlandi og Vesturlandi eru ríkisfyrirtæki. Sementsverksmiðjan er enn sem komið er ríkisfyrirtæki. En þetta eru einkafyrirtæki, og yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar frá því í fyrra, þegar hún var að pína Framkvæmdabankann hér í gegnum þingið, var að stuðla að eflingu einkaaðilanna í landinu. Ég veit, að hæstv. fjmrh. man, hvað ríka áherzlu ég lagði á það, og margar spurningar, sem ég kom fram með til hans í sambandi við einmitt þann þátt. Nú kemur það svo í ljós, að frv., sem snerta einkaaðilana, ganga glatt. Hér eru 100 millj. í dag, og ef það kemur eitthvert gott fyrirtæki á morgun, þá býst ég við, að þeir samþykki það máske líka. Eitt fyrsta lán Framkvæmdabankans, ef ég má trúa því, sem stendur í Morgunblaðinu, er að veita 2 millj. kr. lán til eins einkafyrirtækis, sem vafalaust ýmsir góðir og gegnir sjálfstæðismenn standa að, en hefur þó ekki nema 100 þús. kr. hlutafé. Það er mjög ríflegt, en er náttúrlega líka til að styðja einkaaðilana í landinu, á sama tíma sem bæjarfélögin úti á landi eru að drepast úr peningaleysi, þau bæjarfélög, sem eiga að standa undir togararekstrinum og standa undir því að borga þá olíu, sem olíufélögin græða á. Ég held þess vegna, um leið og við nú sláum því föstu, að svo framarlega sem ekki er hægt að fá það í gegn, að það sé ríkið, sem kaupir þessi skip inn og eigi þau, þá sé hér um mjög nauðsynlegt og þarflegt mál að ræða, og um leið og við gagnrýnum það, að það skuli bara vera hinir útvöldu, sem að því sitja, sem sé klíkur stjórnarflokkanna sjálfra, innstu hringar þeirra sjálfra, þessir tveir hringar, sem ríkisstj. er að láta einoka smám saman atvinnulíf Íslands, þá vil ég hins vegar minna á, að ef svona á að halda á spilunum, ef það á að vera svona góður við þá sterku aðila, við þá auðugu aðila í landinu, þá verður að fara að hugsa betur en gert er um þá, sem standa undir þessu öllu saman, og það er fyrst og fremst togaraútvegurinn og vélbátaútvegurinn íslenzki. Vélbátaútveginn er að vísu nokkuð hugsað um núna með þeim undarlegu aðferðum, sem ríkisstj. hefur haft viðvíkjandi bátagjaldeyrinum. En með togaraútveginn er það þannig, að ríkisstj. er að drepa hann með sinni pólitík, með sinni bankapólitík og með sinni verzlunarpólitík. Ekki sízt af því, að enn þá liggur fyrir frv., sem við sósíalistar höfum flutt hér á Alþ. um kaup á 10 nýjum togurum og ríkisábyrgð til þeirra, og fæst ekki afgreitt, þá held ég, að ég verði að nota tækifærið til að minna hæstv. ríkisstj. á: Til hvers ætlar hún að láta flytja alla þessa olíu inn í Landið, svo framarlega sem togaraútgerðin stoppast? Ég er hræddur um, að allur gróðinn og allt öryggið, sem hæstv. fjmrh. talaði um áðan að væri í sambandi við kaupin á þessum olíuflutningaskipum, byggist fyrst og fremst á því, að íslenzkir togarar og íslenzkir vélbátar hafi efni á því að kaupa þessa olíu og borga hana áfram.

Þá kom hæstv. fjmrh. að fjármálahliðinni í þessu máli, og hann var að fullvissa okkur um, að þetta væri áreiðanlega mjög skynsamlegt fyrirtæki, sem hérna væri lagt í, og þessi félög, sem þarna ættu hlut að máli, þessi olíufélög þrjú og Sambandið og Eimskipafélag Íslands, væru félög, sem vissu, hvað þau gerðu, þau væru ekki að leggja í svona hluti, ef þetta væri einhver bölvuð vitleysa, við skulum segja, að það væri t. d. togaraútgerð eða eitthvert svoleiðis gums. Ég býst við, að þetta sé alveg hárrétt hjá hæstv. fjmrh. Þessi félög, sem eru að kaupa þessi olíuflutningaskip, vita áreiðanlega, hvað þau eru að gera. En á hverju byggist það, hvort þessi olíuflutningaskip borga sig, hæstv. fjmrh.? Það byggist á því, hvaða fragtir þau fá fyrir olíuna hingað til Íslands, hvaða verðlag er sett á þessar fragtir. Hvaða aðili er það, sem ræður því, hvaða verðlag er sett á flutningsgjald fyrir olíu hingað til Íslands? Er það ekki m. a. ríkisstj. og verðlagseftirlit hennar, þegar henni þóknast að hafa það í gangi, sem getur ráðið því, hvaða verðlag er á flutningi á olíu til Íslands, og það, hvort gróði er að flytja þessa olíu til Íslands, fer það ekki eftir því, hvers konar pólitík viðkomandi ríkisstj. hefur um það, hve mikið skuli græða á því að flytja olíu til Íslands? Og hæstv. fjmrh. og hans blað var nú fyrir kosningarnar — það er nú langur tími liðinn síðan — alveg sérstaklega að deila á það, að það væru meira að segja til vond félög í landinu, sem væru að leggja jafnvel óhóflega á flutninga bæði á olíu og öðrum hlutum til Íslands. Jafnvel Sjálfstfl., sem sjaldan deilir á slíkt, var að deila á það, að það væru til önnur vond félög á Íslandi, sem tækju jafnvel óhóflegan gróða af því að flytja olíu til Íslands. Og jafnvel eru enn þá fyrir hæstarétti mál um, að það væru jafnvel líka til félög, sem legðu nokkuð mikið á olíu, þegar hún væri komin til Íslands. M. ö. o.: Það, hvort skapaður er gróði af olíuflutningunum til Íslands, er á valdi ríkisstj. Það er hægt að láta flytja alla olíu til Íslands án þess, að nokkur maður græði á því. Svo framarlega sem maður áliti til dæmis, að það, sem Ísland þyrfti á að halda, væri að fá sem ódýrasta olíu til handa vélbátaútveginum og togaraútveginum, þá væri hægt fyrir þá stjórn, sem sæti að völdum á Íslandi, að ákveða, svo framarlega sem landið á sjálft olíuflutningaskip, að flutt sé til Íslands olía án þess, að það sé nokkuð verulegt upp úr því að hafa, það rétt svaraði kostnaði. Það fer alveg eftir því, hvers konar pólitík er rekin í landinu, hvort þetta er gott fyrirtæki eða ekki.

Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri engin áhætta í þessu og þetta væri þjóðinni alveg að úttlátalausu. En má ég spyrja: Hver borgar gróðann af olíunni og olíuflutningunum, ef hann er? Er það ekki m. a. sérstaklega útvegurinn? Hver borgar tapið á útgerðinni, tapið, sem útvegurinn hefur vegna þess m. a., hvað olían er dýr? Það borgar alþýðan með bátaútvegsgjaldeyrinum og öðru slíku. Hæstv. ráðh. segir, að það sé þjóðinni alveg að útlátalausu, þessi félög fái sinn gróða og þar með sé þetta allt saman í lagi. Þetta er nokkuð skammt hugsað. Það er alveg að útlátalausu, svo framarlega sem sú pólitík er rekin áfram, að allir, sem selja útgerðinni, skuli græða, útgerðin ein skuli tapa. Það er að útlátalausu, svo framarlega sem það ástand á að haldast, að lítill hópur einokunarauðmanna í landinu fái ýmist sérleyfi til flutninganna til landsins eða einokunaraðstöðu um að eignast samgöngutækin og atvinnutækin og þannig aðstöðu til þess að græða á þeim, sem halda þjóðfélaginu uppi með sínu starfi, og þá fyrst og fremst sjávarútveginum. Þessu vil ég vekja eftirtekt hæstv. ráðh. á.

Ég efast ekki um eftir þeim upplýsingum, sem stjórnarflokkarnir gáfu í sumar og stjórnarblöðin voru full af í sumar, að það sé gróði á olíuflutningum til Íslands. En ég vil efast um hitt, að það sé rétt pólitík að halda því áfram að láta vera slíkan stórgróða á olíuflutningum til Íslands, að stjórnarflokkarnir þurfi að fara í hár saman fyrir hverjar kosningar til þess að bera hvor öðrum á brýn og reikna út milljónatugina, sem klíkur þeirra græði hver um sig á því að flytja olíu til Íslands og selja hana sjávarútveginum íslenzka og öðrum. Ég held þess vegna, að það hefði verið heppilegt, um leið og undirbúið var að leggja frv. fyrir um, að Íslendingar eignuðust olíuflutningaskip, þá hefði ofur lítið verið hugsað um það líka að ná til landsfólksins sjálfs þeim gróða, sem er að olíukaupum, olíuflutningum og olíusölu. Það er að vísu gott, að sá gróði komi inn í landið, en þá fer skörin að færast upp í bekkinn, ef það á að vera sérstaklega hlutverk einnar ríkisstjórnar að sjá um, að allur slíkur gróði í fyrsta lagi verði til, í öðru lagi, að hann lendi á þá réttu staði, tvær einokunarklíkur, sem fjármálalega séð standa á bak við stjórnarflokkana sjálfa. Það hefði þess vegna verið æskilegt, að það hefði komið fram einhver viðleitni í þessu frv. um að ná þessum gróða beint til þjóðarinnar sjálfrar og ekki bara til einstaklinga.

Hæstv. fjmrh. minntist á, að eitt af því, sem gerði það að verkum, að það væri betra að fá lán til skipa heldur en t. d. raforkuvera eða sementsverksmiðju, væri, að skipin væru ekki staðbundin. Rétt er það. En það þýðir m. a., að það þarf að sjá um, að þó að skipin séu ekki staðbundin, þá sé ekki hægt að selja þau úr landinu. Við höfum nú fyrir okkur dæmi um það, að menn hafa siglt sínum skipum burt af Íslandi og Íslendingar ekki séð þau meir. Ég held þess vegna, eins og ég minntist á fyrst í minni ræðu, að þá megi þarna gjarnan og þurfi að bæta við skarpari ákvæðum um bann gegn sölu úr landi og hindrun á því. Er ég þar með ekki að neinu leyti að segja, að þessi félög hefðu sérstaka löngun til þess, en við vitum bara, að svo framarlega sem efnahagspólitík ríkisstj. yrði það vitlaus, að hún t. d. léti þá kreppu, sem nú er byrjuð að gera vart við sig í Bandaríkjunum, skella hér yfir Ísland, þá væri hætta á, að olíuflutningaskipum yrði lagt upp víðar en í Bandaríkjunum. Og ég vil minna hæstv. fjmrh. á það, að í þeim Marshallsamningi, sem hann gerði, var eitt af þeim ákvæðum, a. m. k. þegar sá samningur var gerður við önnur ríki Evrópu, að helmingurinn af öllum þeim flutningum, sem færu fram á vörunum samkvæmt Marshallgjöfunum, væri fluttur með amerískum skipum. Það er ómögulegt að segja, þegar út í kreppu væri komið, hvers konar ráðstafanir slík lönd gerðu eins og t. d. Bandaríkin, ef við verzlum við þau, og það gæti komið hart niður á íslenzkum eigendum, en hins vegar má vel svo vera, að okkur takist að bjarga okkur út úr þeirri kreppu, sem þar er að dynja yfir, a. m. k. er sem stendur með þeirri stefnu, sem höfð er hvað snertir t. d. olíuinnkaupin, ekki hætta á því, að aðrir en við þyrftu að ráða því, með hverra skipum olía til okkar lands væri flutt.

Ég vildi svo aðeins að síðustu minna á, að þetta frv., sem hvað það snertir að tryggja það, að Íslendingar eignist sjálfir olíuflutningaskip, stefnir í rétta átt, og aðstoð ríkisins við það, að Íslendingar eignist olíuflutningaskip, stefnir líka í rétta átt, þó að ég, eins og ég hef lýst greinilega, álíti, að það hefði átt að líta nokkuð mikið öðruvísi út. Þá vil ég minna á það, að allar þessar ákvarðanir viðvíkjandi olíuflutningunum og öðru slíku byggjast á einu, og það er, að framleiðsla okkar sjávarafurða geti haldið áfram eins og verið hefur af fullum krafti. Og sú ríkisstj., sem ber svona mikla umhyggju fyrir því að kaupa olíuflutningaskipin, mætti gjarnan fara að sýna það hér á Alþ., að hún bæri einhverja umhyggju fyrir því, að okkar togaraútgerð geti haldið áfram, sú útgerð, sem framleiðir upp undir helminginn af öllum okkar fiski og þar með því, sem við flytjum út. Ég vil sem sé mjög eindregið æskja þess, að hv. fjhn., sem fær þetta til meðferðar, reyni að laga þetta frv. þannig, að tryggilega sé frá því gengið, og að hæstv. fjmrh. gefi okkur þm. nokkru nánari upplýsingar, sem ég hef farið fram á í minni ræðu.