13.04.1954
Neðri deild: 95. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (2435)

165. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Það er nú illt að þurfa að verða til þess að tefja tíma, eins og nú er á skipað um verkefni þingsins, en þó getur það borið að, sem gerir óhjákvæmilegt fyrir mann a. m. k. að gera grein fyrir atkvæði sínu.

Ég verð að segja það út af ræðum og till. hv. 1. landsk. (GÞG), að það á við hann, að engum er viðleitnin bönnuð. Mér þykir leiðinlegt, hvað þessi hv. þm. leggur mikið kapp á það, að inn í tunguna komist ótal útlend nöfn. Hv. þm. segir: Þau eru í tungunni fyrir — og það er honum nóg. Hvað mundi það þá þýða, að fjöldi útlendra manna kemur með útlend nöfn, heldur ættarnöfnum sínum og þeirra börn og svo maður eftir mann af þeirri kynkvísl? Eitt atriði get ég tekið undir í ræðu þessa hv. þm., og það er um ættarnöfnin, sem Íslendingar bera og þær ættir hafa nú reyndar borið lengi, að langsamlega væri réttast og hreinast vegna tungunnar, að það góða fólk legði ættarnöfnin niður. Það væri það allra æskilegasta, til þess að í nöfnum á íslendingum eða íslenzkum ríkisborgurum fyrirfyndist ekki erlent nafn. En þetta hefur verið látið íhlutunarlaust af hálfu þingsins nú um skeið og stafar af því, að þetta fólk var lengi búið að bera sín nöfn hér heima á Íslandi og það ættfólk þekkt undir þeim nöfnum.

Hv. þm. sagði, að það væri fullkomið siðleysi að setja slíkt ákvæði sem þetta, að skylda þessa útlendinga til að leggja niður nafn, sem þeir bera þegar þeir koma hingað, og taka hér upp íslenzk heiti. Ef þetta væri í heimalandi mannanna, þar sem þeir eru þekktir undir nafninu og þar sem nafnið á við og er komið af þeirra tungu, þá væri nokkuð annað, ef þeir ættu þar að leggja það niður. Okkur þætti hart, ef einhver fyndi, skulum við segja, upp á því að banna — ja, við getum tekið hvaða nafn sem vera skal, það er talið hart nafn Jörundur (Gripið fram í: og Gylfi til dæmis?) — það er nú langtum mýkra, eins og maðurinn sennilega er, a. m. k. gagnvart erlendri tungu. Og vegna hvers þótti okkur það? Vegna þess að það er af norrænum stofni, hljómar vel í tungunni og á þar heima. Ég verð að segja, að ef það bæri fyrir mig, að ég þyrfti að setjast að hjá erlendri þjóð og vildi afla mér þar ríkisborgararéttar, þá kæmi það miklu minna við mig, þó að ég skipti um nafn og tæki upp nafn, sem hljómaði í þeirri tungu, þar sem ég væri setztur að. (Forsrh.: Það er mikil mýkt við forfeður sína!) Það væri bara allt annað mál. — Það er alveg misskilinn heiður gagnvart forfeðrunum að ætla nú að fara að færa inn í þetta land erlend nöfn, sem hljóma jafnvel í íslenzku tungunni sem hrein skrípi.

Eftir vitnisburði hv. 1. landsk. er það ekki fagur vitnisburður, sem þeir menn fá, sem stóðu að setningu íslenzkra laga um mannanöfn, sem því miður hefur í framkvæmdinni ekki verið eins í heiðri haldið og hefði átt að vera. Hvers vegna skyldu þeir menn, sem fyrir því gengust á sinni tíð, hafa sett lög um íslenzk mannanöfn? Ætli það hafi verið af fordild? Og hvernig voru þau lög sett? Þau lutu ekki aðeins að heitum útlendinganna, sem hingað komu; það var líka til varnar gegn því, að menn af fávizku einni eða hégómafullir menn færu að taka upp erlend nöfn og blanda inn í tunguna.

Nú er ekki hægt að fara langt út í þessar sakir, vegna þess að tíminn er naumur, en ég hafði hreina raun af að heyra til hv. 1. landsk. Mér finnst, að hann meini það, sem hann segir, og því tekur mig það enn sárar. Hv. þm. verður að gá að því, að þó að hann hafi fullkomna tilfinningu með þessu fólki, sem þarf nú að skipta um nafn, — ef það kemur við eitthvað af því, sem vel má vera, það þekki ég ekki og vil ekkert staðhæfa um, — þá ber honum þó skylda til þess að láta sér enn annarra um sitt móðurmál og vera á verði fyrir því, að það spillist ekki. Til þess hefur hann skyldu sem íslenzkur þegn — og tvöfalda skyldu, þar sem hann er talinn menntaður maður, og það er hann vafalaust líka, og fulltrúi þjóðarinnar hér í Alþingi.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta frekar. Það er auðvitað í mesta máta óviðurkvæmilegt, að þingið sé að hringla með þetta ákvæði fram og aftur. Mönnum, sem hafa fengið ríkisborgararétt á síðustu árum, hefur verið gert að skyldu að taka upp íslenzk heiti, og fólkið hefur gert það. Svo á að nema þetta úr lögum nú eftir örfá ár, og nú á að gefa þetta alveg frjálst. Komið hefur fram hér, að síðar meir væri hægt að setja bann við þessu, þegar þeim færi að fjölga. En er betra að tungan hafi fengið svo og svo mikil spjöll af því, áður en þetta er leiðrétt? — Mig furðar annars stórkostlega á þessum umr. Ég get vafalaust ekki státað af neinni manngæzku hjá mér eða mannkærleika umfram aðra menn, — það dettur mér ekki í hug, — en þó fer ég nokkuð að efast um skilning manna á því, hvaða skyldur þeir hafi mestar gagnvart eigin feðratungu. Það held ég við ættum að leggja ríkar á hjarta heldur en það, sem nú er flaggað með.