09.10.1953
Neðri deild: 6. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í C-deild Alþingistíðinda. (2465)

25. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Flm. (Sigurður Guðnason):

Herra forseti. Ég get nú byrjað eins og frsm. að samhljóða frv. byrjaði, að það þyrfti nú ekki að skýra það mikið fyrir hv. alþm., jafnoft og þetta frv. hefur komið til umr. Það er í áttunda sinn, sem það er flutt af Sósfl., og núna fjögur undanfarin þing hafa tvær framsöguræður verið haldnar um málið og því síðan vísað til n., svo að það ætti að vera dálítið ljóst hv. alþm., þótt þeir virðist ekki hafa gert sér grein fyrir þeim aðstæðum, sem til þess liggja, sem farið er fram á í þessu frv. um hvíldartíma háseta á botnvörpuskipum.

Það er dálítið athyglisvert, að í hvert skipti, þegar opinberir samningar eru gerðir núna undanfarin ár og eitthvað hefur komið fram í samningunum, sem snertir aðrar stéttir en verkalýðinn og hans kjör, þá eru gefin út brbl. til þess að leiðrétta þetta, ef það er utan þingtíma, og þegar þingið situr, þá er breytt lögum til þess að samræma þau því, sem verkamenn náðu í samningunum. En varðandi þessi tvö mál, fyrst togaravökulögin og svo orlofslögin, hefur hv. alþm. ekki þótt þurfa að breyta lögunum í samræmi við samningana. Þetta er dálítið einkennilegt, nema menn áliti, að þessar stéttir, sjómennirnir og verkalýðsfélögin, séu í raun og sannleika stéttir, sem ekki séu þess verðar, að Alþingi fjalli um þeirra mál, og er það dálítið hart, þegar tekið er tillit til þess, að á öllum tímum, a. m. k. með sjómannastéttina, er vitanlegt, að hún er talin nauðsynlegasta stétt til þess að halda við þjóðfélaginu. En Alþingi hefur ekki álitið, að sjómennirnir séu þess verðir, að það sé tekið tillit til þeirra, að það sé breytt lögunum í samræmi við þá samninga, sem þeir fá hjá atvinnurekendum. Eftir að skipin stækkuðu og togarar fóru að fara langar veiðiferðir, sem taka kannske upp undir mánuð, á fjarlæg mið, þá mun sú spurning vakna, þegar þetta eru orðnir fastir vinnustaðir og þetta hefur gengið þannig hjá Alþingi,, hvort nokkur ástæða sé til annars en þess, þegar þetta er orðið heimili sjómanna um lengri tíma, að þeir hlíti sama lögmáli og landverkamenn, þeir vinni sína 8 tíma fyrir dagkaupi, fái svo eftirvinnu- og næturvinnukaup, rétt eins og mennirnir, sem sitja í landi. Það lítur út fyrir, að hv. alþm. áliti, að þarna sé ekki neinn munur á í þjóðfélagsmeðvitundinni og á mönnunum yfirleitt frá fyrstu tíð, þegar róið var á opnum bátum, það sé háð öðru en önnur vinna, því að það yrði a. m. k. að klára róðurinn. Nú er þetta viðhorf þó algerlega breytt með togarana, þegar skipin eru orðin stór. Það er enginn vafi á því, að ef þetta mál verður látið fara eins í Alþingi og áður, að það sé ekki virt svo mikils, að það sé í rauninni rætt, þá munu þessir menn leita út einhvers staðar annars staðar til að ná sínum rétti í gegnum sína samninga, og þá er ekki eðlilegt, að þeir taki mikið tillit til þess, sem a. m. k. löggjafarvaldið segir um þeirra mál.