13.10.1953
Neðri deild: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (2476)

27. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér þykir leitt, að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera staddur hér í deildinni nú. Hann var nýlega að kvarta yfir því í fjárlagaræðunni hjá sér, að hann hefði ekki of mikið af peningum. Og maður gæti nú ætlazt til þess, að hæstv. fjmrh. mundi alveg sérstaklega skoða það sem sitt verkefni að standa vörð um eignir ríkisins og sjá um, að ekki sé stolið af ríkinu alveg vægðarlaust, opinbert og óskammfellið og sérstaklega að það sé ekki stolið svo að skipti hundruðum millj. kr. Mér þykir hart, að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera staddur hér, því að á hverju einasta þingi nú, a. m. k. tveim eða þrem undanförnum, þegar frumvörp um lántöku til áburðarverksmiðjunnar hafa legið fyrir, hef ég við allar umræður þeirra frumvarpa ríkisstj. flutt brtt. eða komið fram með athugasemdir út af eignarréttinum á áburðarverksmiðjunni, og hæstv. fjmrh. hefur í hvert einasta skipti beðið um, að þessi mál væru helzt ekki rædd í sambandi við spurninguna um lántöku til áburðarverksmiðjunnar. Nú gefst hins vegar hæstv. fjmrh. tækifæri til þess að ræða þessi mál og raunar ríkisstj. allri. Þess vegna er slæmt að hann skuli ekki vera hér viðstaddur. því að ef ég þekki rétt aðferðir stjórnarflokkanna í viðkvæmustu hneykslismálum þeirra sjálfra, þá verður reynt að hafa það ráð, eftir að þetta mál er komið til nefndar. að láta það aldrei koma fyrir þingið aftur. Ég álít hins vegar að hér sé slíkt mál á ferðinni, að ríkisstj. beri skylda til þess að láta í ljós við Alþingi, hver sé hennar skoðun á þessum málum. Það voru tveir ráðh. Framsfl. sérstaklega, — annar situr enn þá í stjórninni og er fjmrh., — sem hafa gefið á undanförnum þingum yfirlýsingar út af eignarréttinum á áburðarverksmiðjunni yfirlýsingar sem ég veit að stjórnarstuðningsmennirnir yfirleitt hafa ekki tekið gildar, yfirlýsingar, sem ég veit meira að segja að stjórnarstuðningsmenn í fjhn. þessarar hv. d. hafa ekki verið samþykkir. Ég held þess vegna, að þetta mál þurfi að ræðast hér í þinginu, og af því að það verður ekki á okkar valdi að sjá um að koma þessu máli aftur út úr nefnd, þá hef ég þess vegna kosið að segja nokkur orð í sambandi við það hér.

Ég álít, að áburðarverksmiðjumálið sé að verða að einhverju stærsta fjármálahneyksli hér á Íslandi, og mér finnst ákaflega hart, þegar menn eru hér í þinginu að tala um ýmislegt smávægilegt, sem ríkisstj. verður á, — og það er þó kannske rétt að ávíta hana fyrir það, — en sleppa því að ræða um það, svo framarlega sem það skiptir hundruðum millj., sem ríkisstj. raunverulega er að ná af arðbærri eign ríkisins. Ég álít, að það sé á ferðinni samsæri hér í þinginu um að ná áburðarverksmiðjunni úr eigu ríkisins, samsæri skipulagt frá upphafi. Það er varla nokkur tilviljun. Eftir að Framsfl. í mörg ár er búinn að tala um ríkisverksmiðju til áburðarvinnslu sem sitt stóra verkefni, og þegar ríkisstj., sem Framsfl. veitir forustu, kemur loksins fram með frv. um þetta, þá er gengið út frá því, að það sé ríkið, sem eigi verksmiðjuna. En svo er, eins og hv. fyrri flm. þessa máls, hv. 11. landsk., gat um, á síðasta stigi málsins í mestu önnum þingsins lögð fram brtt. til þess að gerbreyta eðli þessa máls. Af hverjum var brtt. lögð fram? Hún er þá lögð fram af Birni Ólafssyni, sem að vísu var sjálfur ráðh. og vitað er að hefur alveg sérstakt samband við Vilhjálm Þór, sem nú er formaður áburðarverksmiðjustjórnarinnar, þannig að þessir tveir menn hafa verið höfuðfulltrúarnir fyrir tengslin á milli Framsfl. og Sjálfstfl. í fjárglæframálum á Íslandi, Þetta er sett fram við 3. umr. málsins í Ed., eftir að það er búið að ganga í gegnum 5 umr. þingsins. Hvað gerist svo? Þá gerist það, að málið er samþ. í Nd., án þess að nokkrar umr. fáist um málið, og á næsta þingi á eftir kemur yfirlýsing frá einum ráðh. Framsfl. um, að áburðarverksmiðjan sem samkvæmt 13. gr., sem bætt var þarna inn í í Ed., á að vera rekin sem hlutafélag skuli vera eign þessa hlutafélags. Ég mótmælti þá þessari yfirlýsingu og stend á því enn fast, að þessi yfirlýsing styðjist ekki við nein lög og hún geti ekki breytt neinum lögum. En ég vakti eftirtekt á því þá, að þessi yfirlýsing mundi geta kostað ríkissjóð milljónir, vegna þess að þeir hluthafar sem leggja fram fé til áburðarverksmiðjunnar, eða í hlutafélagið svo kallaða, munu gera kröfur til þess seinna meir, svo framarlega sem áburðarverksmiðjan kemur til með að bera sig að þetta hlutafélag verði skoðað sem eignarhlutafélag samkvæmt þessari yfirlýsingu ráðherranna. en ekki sem rekstrarhlutafélag samkvæmt skýrum ákvæðum laganna frá Alþingi. Þetta mál hefur ekki fengizt tekið fyrir til umræðu. Þeir ráðh. sem eru sekir um þessar yfirlýsingar, hafa ekki fengizt til þess raunverulega að standa við sín loforð. Þeir hafa látið sitja við þessar yfirlýsingar og ekki treyst sér til að standa fyrir því, þegar málið hefur verið rætt hér á Albingi. Þarna virðist samspilið koma fram frá hálfu þeirra fjármálaklíkna í Framsfl. og Sjálfstfl., sem hafa samstarf sín á milli um að ná undir sig eignum ríkisins. Síðan á að stíga þriðja skrefið í þessari fjárplógsstarfsemi, þ. e., að ríkisstj. á síðasta þingi flytur hér frv. um Framkvæmdabankann, og þar er ákveðið, að það skuli heimila Framkvæmdabankanum að selja hlutabréf ríkisins, þau sem eftir voru, að upphæð 6 millj. kr., í Áburðarverksmiðjunni h/f. Þar með ef yfirlýsingar framsóknarráðherranna væru taldar gildar, hefði verið búið að glopra eignarréttinum yfir áburðarverksmiðjunni, 125 millj. kr. fyrirtæki, úr höndum ríkisins í hendur þessa hlutafélags. Það var tilætlun ríkisstj. þá að setja þetta frv. í gegnum Alþ. Það komst upp af tilviljun, þegar Benjamín Eiríksson var yfirheyrður í fjhn. Ed., að meining hans var að selja hlutabréfin á nafnverði. Það var reynt að breyta þessu í Ed., og það var fellt. Þetta varð að hneykslismáli þá. og af því að kosningar voru fram undan, þá tókst að fá breytingu á þessu hér í Nd., þannig að það var þá tekið út. Það tókst ekki í svipinn að framkvæma þetta, en tilgangurinn var alveg nægilega auðsær. Það var samsæri á bak við tjöldin um að ná þessu fyrirtæki úr höndum ríkisins og í hendur nokkurra einstaklinga.

Það hefur lítið verið rætt um áburðarverksmiðjuna. Hún hefur auðsjáanlega orðið eitt af feimnismálum stjórnarflokkanna. Það hefur lítið verið rætt um, hvernig starfað hefur verið að byggingu hennar, hvaða aðilar það eru, sem taka að sér að sjá um bygginguna. hvaða samband er milli þeirra aðila og þeirra, sem stjórna hlutafélaginu, og þeirra, sem koma fram með till. hérna á þinginu. Ég hef í fyrra rakið það samband hér og skorað á viðkomandi aðila að koma fram og standa fyrir sínu máli, því að þeir sátu hér á þingi þá og sitja enn, sumir þeirra. Þeir hafa ekki treyst sér til þess að gera það. Ég álít þess vegna, að þetta sé mál, þar sem hv. þm., svo framarlega sem þeir skoða sem sitt verkefni að standa þarna vörð um lög og eignir almennings, eigi alla vega að gæta að, hvert þeir eru að fara.

Hvað snertir fjárhagshliðina í þessum málum, þá vil ég taka undir með hv. frsm. um það, að ég býst við, að þær 2 millj. kr., — 1½ eða 2 millj. kr. — sem Samband ísl. samvinnufélaga lagði fram sem hlutafé, væru betur komnar hjá kaupfélögunum og bændum, eins mikið og bændur og kaupfélögin nú skortir rekstrarfé, og um það fé, sem iðnrekendur í Reykjavík voru svo að segja píndir til þess að leggja þarna fram — þessa 1½ eða 2 millj. kr., sem þeir lögðu fram á móti — þá var alveg vitanlegt, hvernig það kom til. Það kom til þannig, að þessum iðnrekendum fannst það ekki vera réttlátt, ef Samband ísl. samvinnufélaga ætti eitt saman að taka að láni úr Landsbankanum alla þá upphæð, sem þyrfti til þess að leggja þarna fram, og þess vegna voru þeir að pína sig til þess að leggja fram þessa 1½–2 millj. kr. Iðnrekendurnir hafa verið að ámálga við okkur nú þing eftir þing að fá 15 millj. kr. starfsfé til Iðnaðarbankans, og það hefur enn þá ekki verið hægt að útvega þeim það. Ég býst við, að þeim muni ekki veita af sjálfum að hafa þessa 1½–2 millj. í sinni veltu, þannig að það væri að öllu leyti sanngjarnt, að þeim væri borgað þetta hlutafé til baka.

Ég held þess vegna, að hér eigi hv. þm. að grípa inn í af fullri alvöru, afstýra hneyksli, sem hér er verið að framkvæma og auðsjáanlega verður framkvæmt, ef Alþingi tekur ekki í taumana. Ef 13. gr. er felld niður, þá koma þessi lög til með að líta út alveg eins og þau voru, þegar ríkisstj. lagði þau fyrir 1948, alveg eins og þau voru í þessari hv. deild þá. Það er þetta ákvæði 13. gr., sem aðeins getur orðið til ills eins, skapað óánægju og spillingu utan um þetta fyrirtæki, skapað tortryggni og það, sem verra er: hættu á, að það sé tekið af ríkinu og sett í hendur einstaklinga. Ég álít, að hv. þm. eigi þess vegna að grípa í taumana með þetta nú. Það er ekki um neitt smáræði að ræða þarna. Þetta er fyrirtæki upp á 125 millj. kr. Þetta er stærsta fyrirtæki, sem til er á Íslandi. Ef þetta á að vera leið ríkisrekstrarins í núverandi þjóðfélagi, að það eigi með svona aðferðum að ná ríkisfyrirtækjunum úr höndum ríkisins og í hendur nokkurra einstaklinga, með því að láta ríkið lána þessum aðilum raunverulega 120 millj. kr., til þess að þeir verði eigendur með því að leggja fram fé, sem þeir taka að láni úr Landsbankanum, upp á 4–10 millj. kr., þá sjáum við, að það er ekkert, sem ríkið á, orðið öruggt fyrir yfirgangi þeirra fjármálaklíkna, sem ráða núverandi stjórnarflokkum. Það er slík spilling að grafa um sig í sambandi við meðferð á máli eins og þessu, að Alþ. á ekki að láta það óátalið. Ég veit, að svo framarlega sem nú verður látið bíða að taka ákvarðanir í þessu máli, þangað til áburðarverksmiðjan er farin að starfa, þá verður miklu erfiðara við þetta allt saman að eiga. Komi áburðarverksmiðjan til með að tapa, og þori hæstv. ríkisstj. ekki að setja áburðarverðið innanlands hærra en bændur geta fengið áburð erlendis frá, þá býst ég að vísu við, að það yrði máske auðveldara að koma áburðarverksmiðjunni algerlega í eigu ríkisins. Komi áburðarverksmiðjan hins vegar til með að græða eða hins vegar áburðarverðið verði sett hærra hér innanlands en erlendis til þess að vega upp ella hugsanlegt tap á henni, þá býst ég við, að það verði harðsóttara að ná hlutabréfum þeirra einstaklinga, sem þá færu að vitna í yfirlýsingar ráðherra Framsfl. um, að þeir væru eigendur verksmiðjunnar. Hvernig svo sem þetta færi. hvort sem hún græddi eða tapaði, þá mundu þeir með tilliti til þeirra yfirlýsinga alltaf reyna að vitna í ákvæðin, sem í lögunum sjálfum eru. Það er þess vegna engum efa bundið, að hér er mál á ferðinni, sem hv. þm. eiga að láta til sín taka. Það er mál, sem annars verður Alþ. til skammar og þm., sem að því standa og ábyrgir verða fyrir því, til leiðinda alla tíma að hafa borið ábyrgð á því að ganga svona frá þessum málum.

Ég veitti því athygli í fyrra, að það voru fleiri en við sósíalistar farnir að standa með því, að hér væri hættulegt mál á ferðinni, og ég vil segja það að jafnvel þó að stjórnarflokkarnir kynnu að leggjast á þetta mál í n. og ráðherrar þeirra haldi þeim hætti, sem þeir hafa nú, að hafa sem fæst orð um þetta mál, þá verður það ekki þaggað niður á þennan hátt.