13.10.1953
Neðri deild: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (2494)

34. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 34, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, er nú flutt í þriðja sinn. Það var flutt af mér á næstsíðasta þingi og náði þá samþykki hér í þessari hv. d., en var stöðvað í Ed., og þó með nokkrum breyt., sem á því voru gerðar hér í þessari hv. deild. Í fyrra, á síðasta þingi, var þetta frv. flutt af okkur sömu flm. sem flytja það nú, en það náði þá ekki heldur samþykki, þó að undarlegt megi í sjálfu sér virðast.

Ég þarf ekki að fara mjög mörgum orðum um þá þörf, sem hér er farið fram á að gera tilraun til að leysa. Síðan vísitöluskrúfan var innleidd í okkar þjóðfélagi, sem hefur raskað öllu okkar fjármálakerfi, hefur það komið fram m. a. hjá okkur landbúnaðarmönnum, að allur stofnkostnaður til landbúnaðar hefur margfaldazt, og ég hygg, að það sé ekki fjarri lagi, að hann hafi 10–15-faldazt á þessu tímabili, en stofnkostnaður við landbúnað er búpeningskaup, áhaldakaup, jarðakaup og byggingar.

Allt þetta gerir það að verkum, að fátækum mönnum er algerlega ofvaxið að stofna til búskapar, eins og nú er komið, nema því aðeins að fá talsvert lánsfé, en aðgangur að því lánsfé er hvergi til. Það eru hvergi, eins og nú standa sakir, fáanleg lán til þess að kaupa fyrir búfé og kaupa fyrir jörð og ekki heldur til þess að kaupa fyrir verkfæri. Þetta gerir það að verkum, að víðs vegar — ég hygg yfirleitt um öll okkar sveitahéruð — eru það stórkostleg vandræði, sem allir þeir menn eru í, sem eru að stofna til búskapar, og þetta gerir það m. a. að verkum, að fjöldi manna, sem gjarnan vilja stofna til búskapar og verða í sveitum landsins, leitar til kaupstaðanna, vegna þess að þar, ef maðurinn fær atvinnu, þá er það þó ekki annað, sem hann þarf í stofnkostnaði, en að útvega sér húsnæði, sem þó er mörgum fullerfitt.

Það, sem hér er farið fram á, er nú ekki meira en það, að ríkissjóður láni til þessarar deildar stofnfé, er nemi 5 millj. kr. í upphafi, og það endurgreiðist á tíu árum. Undanfarið og eins í þessu frv. höfum við flm. farið fram á það, að þessi fyrirhugaða stofnlánadeild hafi tækifæri til þess að taka við sparifé gegn því, að það sé skattfrjálst, og eins og sakir hafa staðið á því sviði, þá má gera ráð fyrir því, að þetta hefði getað orðið talsverð tekjulind fyrir þá deild, sem hefði fengið þau réttindi. Ef nú verður farið, eins og að nokkru leyti er ákveðið með nýjum stjórnarsamningi, að afnema skatta á sparifé almennt, þá getur það orðið til þess, að það verði ekki þessari fyrirhuguðu deild frekar en öðrum lánsstofnunum hagsmunamál að fá þarna fjármuni, og þá gæti þess í stað þurft að auka töluvert mikið framlag frá ríkinu sem lánsfé, til þess að þessi fyrirhugaða lánadeild gæti fullnægt sínu verkefni.

Nú hefur svo atvikazt síðan þetta frv. kom fram, að það hafa tvö önnur frv. í svipaða átt verið lögð fram hér í hv. deild. Annars vegar er flutt af 4 hv. framsóknarmönnum frv. á þskj. 42, og hins vegar er á þskj. 49 flutt frv. af hv. 11. landsk. þm. (ÁS). Bæði þessi frv. ganga í sjálfu sér lengra í kröfum til ríkisins en þetta frv. okkar gerir, sem hér liggur fyrir, og mætti því ætla, að það væri þó a. m. k. hugsanlegt, að þetta litla frv. næði framgangi á þessu þingi. Og náttúrlega er það gefinn hlutur, að við flm. þessa frv. mundum vera mjög ánægðir yfir því, ef þau framlög, sem ákveðin eru og lengra ganga, væru fáanleg nú í þessu skyni. Að vísu er þar um fleiri atriði að ræða í þessum frv., sem gert er ráð fyrir að veita fé í. En sem sagt skal ég nú ekki við þessa umr. fjölyrða meira um þetta mál, en vænti þess fastlega, að það nú, þegar það er flutt í þriðja sinn, fái framgang á því hv. Alþingi, sem nú stendur. — Að lokinni þessari umr. óska ég, að frv. verði vísað til hv. landbn.