13.10.1953
Neðri deild: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (2495)

34. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla með fáeinum orðum að vekja athygli á mjög annarlegu ákvæði í 5. gr. þessa frv. Þar er gert ráð fyrir því, að auk þess fjár, sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður leggi Stofnlánadeild landbúnaðarins til, þá skuli henni heimilt að afla sér fjár með því að taka á móti sparisjóðsinnlögum, og stendur í greininni, að vextir skuli vera 3½%. Ég veit ekki, hvort hér er um að ræða slæma prentvillu eða hitt, að þetta frv. er meira en ári eða tveimur árum á eftir tímanum. Nú eru vextir, sem kunnugt er, 5% af sparisjóðsinnstæðum. Ég get ekki séð, hvernig þessir ágætu forvígismenn landbúnaðarins hugsa sér að afla fjár í Stofnlánadeild landbúnaðarins með því að heita 3½% vöxtum. Ég geri ráð fyrir, að þær yrðu ekki margar, krónurnar, sem kæmu inn til styrktar landbúnaðinum á þennan hátt.

Kannske er það hugmyndin, að það eigi að teljast svo mikil hlunnindi, að spariféð eigi að vera skattfrjálst, að það nægi til að bæta þennan mikla vaxtamun? Þó held ég, að engum geti dottið það í hug í alvöru. Þau hlunnindi, sem í því fælust, að spariféð væri skattfrjálst, bæði til eignarskatts og tekjuskatts, eru að vísu nokkurs virði, en auðvitað fjarri því að bæta upp það tap, sem af því hlytist, að vextir væru 1½% undir almennum sparisjóðsvöxtum. Um skattfrelsi þessa sparifjár er hins vegar það að segja, að það er auðvitað mjög óeðlilegt að lögleiða skattfrelsi fyrir aðeins eina ákveðna tegund af sparifjárinnstæðum. Annað mál er það, eins og rætt hefur verið hér á Alþ. a. m. k. einu sinni, að lögleiða skattfrelsi fyrir allt sparifé, í hvaða stofnun sem það stendur inni og í hvaða skyni sem það hefur verið lagt inn í stofnunina. Á því máli eru að vísu ýmsir gallar, eins og ég fyrir mitt leyti tók fram, þegar þetta mál var síðast hér til umr. Þó er það mál vel ræðandi. Hitt tel ég ekki koma til nokkurra mála, að lögleiða skattfrelsi fyrir aðeins eina tegund sparifjár í einni lánsstofnun. Þetta ákvæði er því mjög óeðlilegt, en út yfir tekur þó, að gert skuli ráð fyrir því, að vextir skuli aðeins vera 3½%.

Mér dettur í hug sú skýring, að þetta frv. hefur verið tvíflutt áður, það eru líklega tvö ár síðan það kom fyrst fram. Þá var ekki óeðlilegt að hafa þetta ákvæði, því að þá munu sparisjóðsvextir almennt hafa verið 3½% eða 4%. En þetta hefur breytzt. Þetta frv. hefur hins vegar ekki tekið þeim framförum með tímanum, sem það hefði átt að taka. Það virðist vera tvö ár á eftir tímanum að þessu leyti.