09.11.1953
Neðri deild: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í C-deild Alþingistíðinda. (2634)

89. mál, olíueinkasala

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér þykir vera heldur þögn hjá olíuflokkunum hér á Alþ. Það var dálítið meira uppi á þeim gállinn fyrir kosningarnar í sambandi við olíumálin, og fæ ég nú ekki séð, hvernig það verður þolað af hálfu Alþ. hér hvað eftir annað, að stjórnarflokkarnir hagi sér þannig á þingi, að þeirra ráðh. sýni sig ekki og gegni ekki venjulegum þingmannsstörfum, hvað þá heldur ráðherrastörfum. Þetta er að verða þinginu til algerrar skammar, hvernig ráðh. haga sér, og það liggur raunverulega fyrir, að hæstv. forseti verði að gera svo vel að fara að gefa ráðherrunum áminningu um, hvernig þeir rækja sín störf, vegna þess að þetta getur ekki gengið dag eftir dag, að ráðh. sýni sig ekki, svari ekki fyrirspurnum þm. og það ekki meira að segja viðvíkjandi málum, sem þeir hafa sjálfir talað um manna mest rétt fyrir kosningar. Ég verð að benda á, að þetta framferði er beinlínis til þess að gera Alþ. vansa, og ég álít, að hæstv. forseti þurfi sem fulltrúi Alþ. gagnvart þjóðinni að halda uppi virðingu Alþ. gagnvart ráðherrunum og sjá um, að þeir séu ekki Alþ. þannig til skammar eins og þeir eru með því, hvernig þeir stunda sín þingmannsstörf.

Það er ekki um neitt smáræði að ræða, þar sem olíuflutningurinn er til landsins. Þetta er sjötti parturinn af öllum innflutningi Íslands; sjötti parturinn af öllum þeim gjaldeyri, sem Ísland notar, er fyrir olíu, og við vitum allir, hvernig þetta hefur verið undanfarið. Undanfarið hefur þetta verið þannig, að útlendir hringar hafa keypt upp Framsfl. og Sjálfstfl. Útlendir olíuhringar eiga Framsfl. og Sjálfstfl., og útgerð útlendu olíuhringanna á Íslandi á Sjálfstfl. og Framsfl. er ábatasamasta útgerðin, sem rekin er. Það er þess vegna ekkert undarlegt, þó að hæstv. ráðh. kæri sig ekki um að standa hér sérstaklega frammi fyrir þm. og eiga að verja sitt mál. Það er allri þjóðinni vitanlegt, hvernig alræmdasti olíuhringur veraldarinnar, Standard Oil, hefur tökin á Framsfl. og hvernig ensku olíuhringarnir hafa tökin á íhaldinu. Þess vegna er það út af fyrir sig ákaflega ánægjulegt, að í eitt skipti skuli tökum hinna útlendu olíuhringa hafa verið hnekkt á Íslandi, sem sé með því, að kaup hafa verið gerð annars staðar en hjá þeim.

En hvað er það svo, sem verið er að gera hérna sem stendur? Jú, við vitum, að sem stendur kaupum við mestalla olíu til landsins fyrir fisk, og það er aðstaða, sem við höfum ekki haft hingað til á Íslandi. Ég man ekki betur en að það hafi meira að segja verið svo, að það hafi verið heimtaðir dollarar í greiðslu, þegar keypt var frá Englendingum, frá ensku hringunum. Ég held þess vegna, að það sé út af fyrir sig ákaflega ánægjulegt. En við sjáum bara, hvað er að gerast: Olíuhringarnir eru samt sem áður að koma sér svo að segja inn um bakdyrnar, eftir að ríkisstj. hefur farið inn á það að kaupa olíu frá Sovétríkjunum fyrir fisk. Lepplingarnir hérna heima eiga að halda sínum tökum, halda eignarréttinum á tönkunum, halda aðstöðunni með dreifinguna, halda einokuninni á olíuflutningunum og geta þannig haldið áfram sínum gróða, þangað til útlendu olíuhringarnir treysti sér til þess að knýja ríkisstj. til þess að hætta við sams konar kaup og þau, sem nú hafa verið gerð. Það er opinbert leyndarmál, að það var mögulegt fyrir Danmörku að fá samninga um innflutning á olíu, líklega allri olíu, sem Danmörk kaupir, frá Sovétríkjunum fyrir danskar landbúnaðarafurðir og aðrar afurðir, sem Danir láta í té. Stóru olíuhringarnir hindruðu þennan innflutning. Það var aðeins eitt einasta félag, eftir því sem mér var kunnugt, a. m. k. seinast, sem tók að sér að flytja inn nokkuð af olíu; útlendu olíuhringarnir notuðu sitt vald yfir olíugeymunum til þess að hindra, að flutt væri inn olía frá Sovétríkjunum þangað. Olíuhringarnir hafa ekki í þetta skipti treyst sér til þess að setja þannig hnefann í borðið hérna heima, að knýja fram slíka neitun á þessum viðskiptum. Hins vegar hafa þeir knúið það fram, eftir því sem vitað verður, — en því getur nú máske hæstv. viðskmrh. svarað, þegar hann nú er kominn hér í þingsalinn, — að hringarnir þrír hér heima hafa einokun á flutningnum og dreifingunni, og meðan sú einokun helzt, meðan ríkisstj. verður að skipta þannig á milli þeirra þessum innflutningi, þá veit maður, að hvenær sem þægilegri aðstaða yrði fyrir olíuhringana, þá mundu þeir færa sig upp á skaftið og nota sinn eignarrétt yfir olíugeymunum til þess að hindra, að eins hagkvæm viðskipti yrðu gerð og þau, sem núna hafa verið gerð.

Við skulum alveg gera okkur ljóst, að pólitískt séð eru þessi viðskipti, sem ríkisstj. hefur gert við Sovétríkin um olíuinnflutninginn, ákaflega þýðingarmikil fyrir Ísland. Þau þýða raunverulega, að í sinni baráttu við einræði olíuhringanna hefur Ísland fengið sér þarna bandamann, sem hægt er að beita gegn ofurvaldi olíuhringanna, svo framarlega sem ríkisstj. hefur fullan hug á því. Ég held þess vegna, að það sé ákaflega þýðingarmikið að knýja hér fram aðstöðu hæstv. ríkisstj. til þessara hluta. Við vitum alveg hreint, hvernig muni fara, þegar þessi 1. umr. er búin, ef hæstv. ríkisstj. er ekki knúin til þess að láta í ljós sínar skoðanir. Þá verður þetta mál svæft í n., eins og öll önnur beztu mál á þinginu, og kemur aldrei aftur í dagsins ljós, og hæstv. ríkisstj. kemur sér hjá því að gefa nokkrar upplýsingar um, hvernig þessum málum sé hagað nú sem stendur.

Við getum svo sem hins vegar rennt grun í það, hvaða fingur eru í spilinu á bak við tjöldin. Viðvíkjandi innflutningnum til landsins núna á olíu, býst ég við, að flugvélabenzínið sé undanþegið eins og nú standa sakir, og hvernig er um flugvélabenzínið? Hver er sá aðili, sem flytur inn flugvélabenzínið til Íslands? Er það Standard Oil? Hver er sá aðili, sem sér um söluna á flugvélabenzíninu á Íslandi? Er það að mestu leyti Olíufélagið h/f? Sér það meira að segja um söluna á Keflavíkurflugvelli? Fær þetta félag e. t. v. greiðslu í dollurum fyrir svo og svo mikið af þeirri olíu, sem það selur? Fær þetta félag e. t. v. að hagnýta þessa dollara, án þess að haft sé verulega mikið eftirlit með því, hvernig það gerir það? Þetta væru upplýsingar, sem ekkert væri undarlegt að kæmu hér fram um, hvernig þessu er háttað nú sem stendur. Og hvernig stendur á því, svo framarlega sem við höfum getað fengið keypt flugvélabenzín, að það skuli ekki vera þarna með í, eða höfum við e. t. v. ekki getað fengið það keypt? Þetta eru allt saman spurningar, sem er ákaflega eðlilegt, að bornar séu fram.

Það hefur verið farið með samninginn við Sovétríkin eins og mannsmorð af hálfu hæstv. ríkisstj. Það hefur lítið verið sagt frá því, hvernig þessir söluskilmálar eru. Við þm. vitum ekki fyrir víst einu sinni, hvort t. d. það er ríkisstj., sem hefur keypt olíuna, og hvort hún síðan hefur úthlutað henni til olíufélaganna, eða hvort ríkisstj. hefur beinlínis látið þessi félög kaupa þessa olíu, þannig að það séu beinir samningar á milli rússnesku olíufélaganna og íslenzku, þessara þriggja íslenzku innflytjenda. Hitt vitum við aftur á móti, að ríkisstj. hefur áreiðanlega haft það í sínum höndum að setja hvaða skilyrði sem hún vildi í sambandi við kaupin og söluna á olíunni, vegna þess að við vitum, að ríkisstj. hefur gegnumgengizt alla þessa sölu. Nú, þetta er náttúrlega ekki neitt smáræði. Það er ekki neitt smáræði, hvort ríkisstj. álítur sig hafa vald til þess að ráðstafa í sambandi við almenna viðskiptasamninga eins og þessa samninga við Sovétríkin, á hvern hátt viðkomandi vara sé seld á Íslandi. Við skulum segja: Ef ríkisstj. álítur sig hafa vald til þess að úthluta þessum þremur olíufélögum, þá hlýtur hún líka að hafa vald til þess að úthluta einu þeirra. Ef hún hefur álitið sig hafa vald til þess að úthluta þessum þremur, þá hlýtur hún líka að hafa álitið sig hafa vald til þess að bjóða fleiri aðilum á Íslandi að vera þarna með í, olíusamlögum útvegsmanna og öðrum slíkum, eða ef bifreiðarstjórar t. d. settu upp sitt sérstaka innflutningskerfi, að bjóða þeim að vera þarna með. Hvað hefur ríkisstj. gert í þessu? Hefur hæstv. ríkisstj. boðið þessum aðilum svona kosti, eða hafa bara verið gerðir samningar á milli Framsóknar og Sjálfstfl. um, að þeirra félög skuli sitja þarna að?

Það er ekki aðeins um olíuna, sem þetta gildir. Hvernig er með sementið? Ríkið gat náttúrlega flutt inn sementið til landsins. Hér á Íslandi eru stórir aðilar, sem sjá um byggingar á almannavegum, eins og öll þau samtök, sem eru í sambandi við byggingu verkamannabústaðanna og eiga að vera í sambandi við byggingu samvinnubústaðanna, og þessi samtök hafa meira að segja eftir lögum sérréttindi fram yfir venjulega borgara um að sitja fyrir innflutningi samkvæmt gömlum lögum. Það heyrist ekkert um, að ríkisstj. hafi boðið upp á neitt slíkt í sambandi við innflutninginn á sementinu, en hitt vita menn, að það er skipt niður á milli ákveðinna fyrirtækja Sjálfstfl. og ákveðinna fyrirtækja Framsfl., eða, svo að ég sé ekki að gefa það í skyn, að flokkarnir eigi þessi fyrirtæki, þá milli fyrirtækja, sem eru mjög sterk og voldug í þessum flokkum. Það er ekki tilkynntur nokkur skapaður hlutur um þetta. Það er sem sé farið að á nákvæmlega sama hátt eins og danskir einvaldskonungar gerðu, á meðan þeir gáfu ákveðnum félögum í Kaupmannahöfn einkarétt á verzluninni við Ísland, og við vitum, hvaða félögum danskir einvaldskonungar gáfu slík einkaréttindi á verzluninni við Ísland. Þeir gáfu þeim auðborgurum slík einkaréttindi, sem höfðu stutt þá sérstaklega í því að brjótast til valda, — stutt þá sérstaklega í því að koma auðvaldinu á. Það var úthlutað sem eins konar fríðindum til beztu bakhjarla dönsku einvaldskonunganna úr borgarastéttinni einokuninni á ákveðnum höfnum á Íslandi, Það er nákvæmlega sama kerfið, sem núverandi hæstv. ríkisstj. er að taka upp. Hún gerir stærstu viðskiptasamninga, sem gerðir hafa verið, loksins knúin til þess. Eftir að hafa tafið fyrir því og skemmt fyrir því í mörg ár, að slíkir samningar væru gerðir, þá er hún loksins knúin til þess að gera þá, og það er ríkið sjálft, sem gerir þá, en ríkið það þýðir: fésýslumenn Framsóknar og Sjálfstfl.; þeir úthluta til sinna fyrirtækja einokuninni á þessum innflutningi. Og það er þarna um að ræða innflutning fyrir upp undir 200 millj. kr. á mörgum þýðingarmestu vörum, sem til Íslands eru fluttar.

Það er nú ekkert undarlegt, þó að þm. vilji fá eitthvað að vita um það, sem er að gerast hér í þessum efnum. Það er ekkert undarlegt, þó að þm. komi þess vegna fram hérna með kröfur um, að hæstv. ráðh. séu hér viðstaddir og svari þeim spurningum, sem fram koma. Það er ekki svo lítið þarna í húfi, og menn ættu nú að mega nokkurn veginn búast við því, að flokkar, sem aldrei taka til máls, þá sjaldan sem þeir tala hér á Alþ., án þess að hafa lýðræðið á vörunum, hugsuðu ekki alveg eins og danskir einvaldskonungar út frá mottóinu: „Vér einir vitum“ — eða réttara sagt: „Vér einir megum vita“ — þannig að það eigi að vera einkaleyndardómur ríkisstj. og þeirra fésýslufyrirtækja, sem reka Sjálfstfl. og Framsfl., að vita, hvernig ríkið skiptir innflutningnum, sem fram fer til Íslands. — Ég held þess vegna, að það sé ekkert undarlegt, þó að þm. krefjist þess, að upplýsingar séu gefnar um þessi mál í þinginu, og mótmæli því, að það sé látið viðgangast, að ráðherrarnir geti hér fund eftir fund neitað að svara. Hitt er alveg rétt hjá hæstv. forseta, að hann getur ekki flutt ráðherrana í böndum hérna inn í þingsal, og það hefur ekki heldur komið fram nein sérstök ósk um að flytja þá í böndum inn í þingsal. Hitt aftur á móti er hægt að gera, þegar ráðh. fara að viðhafa þetta hvað eftir annað, í fyrsta lagi að hringja, — að hringja þannig, að ráðherrarnir haldi, að allt þeirra handjárnaða lið þurfi nú að fara að mæta við atkvgr. til þess að koma stjfrv. í gegn, því að það er vitanlegt, að aldrei kæmist neitt stjfrv. í gegn hér í hv. d., svo framarlega sem þeir menn, sem taka hér þátt í umr., hugsa málin og tala um þau, væru hér einir viðstaddir, því að stjórnarliðið leggur það yfirleitt í sinn vana að hvorki hugsa né tala um neitt af þeim málum, sem hérna liggja fyrir, heldur greiða bara atkv., þegar hringt er á það, í hugsunarleysi með ríkisstj. um hvað sem er, svo framarlega sem það er ekki rjúpan eða hrafninn, sem til umræðu er, þá fá hv. stjórnarflokkaþm. að tala.

En ég held í öðru lagi, að það væri mjög rétt fyrir hæstv. forseta að athuga það, ef hæstv. ráðherrar ætla að halda viðteknum hætti, að fresta þeim málum, sem stjórnarandstaðan fer fram á að frestað sé, fresta umr. um þau og taka þau fyrir hvað eftir annað hér, þangað til ráðherrarnir fást til að svara. Með því, hvernig nú stefnir hér á Alþ., er verið að gera Alþ. að hreinni skrípamynd af lýðræði og þingræði. Það er farið að útkljá öll mál utan þingveggjanna af örfáum mönnum í stjórnarflokkunum. Síðan eru þær ákvarðanir, sem þannig eru teknar, hamraðar í gegn í þingflokkum stj., og af því að ég veit, að það eru til margir ágætir menn í þingflokkunum, sem styðja stj., þá veit ég ósköp vel, að þeir mótmæla oft á sínum þingflokksfundum, þó að þeir skoði það hins vegar sína skyldu að þegja á þingfundum. Þegar svo er búið að píska þetta í gegn á þingflokksfundum stj., þá er komið hér á Alþ., þm. stjórnarflokkanna sagt að þegja og reynt að kúska málin fram, ráðherrarnir passa sig að taka ekki til máls, og þannig er hvert málið hér á þinginu ýmist afgreitt til n. til að svæfa það eða málin algerlega þöguð í hel. Svo er ástandið orðið þannig, að það er bara hægt að ræna fyrirtæki, sem kosta eitt til tvö hundruð millj. kr., af ríkinu, án þess að ráðherrarnir fáist til að segja orð um það, og leggja álögur á þjóðina, án þess að nokkur lög séu til fyrir því, og taka af henni þannig um 100–200 millj. kr. Ofan á þetta allt saman er svo farið að ráðstafa öllum innflutningnum til landsins eins og það væru danskir einvaldskonungar að úthluta til einokunarfyrirtækja, til nýrra hörmangarafélaga. Þetta er ástand, sem ekki getur gengið, og ég vil fagna því, að Alþfl. hefur flutt þetta frv. hér um olíueinkasöluna, og ég vil vonast til þess, að það sé hægt að knýja fram hér við þessa 1. umr. þannig umræður um það, að stjórnarflokkunum haldist ekki uppi að þegja um málið.