16.11.1953
Neðri deild: 23. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í C-deild Alþingistíðinda. (2657)

98. mál, almannatryggingar

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Lögin um almannatryggingar móta lífskjör æði fjölmenns hóps landsmanna, auk þess sem réttindi þeirrar löggjafar snerta á einhvern hátt beint eða óbeint næstum alla landsmenn. Setning almannatryggingalaganna var á sínum tíma eitt af stærstu skrefunum, sem við Íslendingar höfum stigið í átt til hinna beztu eiginleika siðmenningarinnar. En hitt er engu að síður raunverulegt, að hin ýmsu ákvæði löggjafar þessarar þykja mismunandi sanngjörn og mismunandi þrauthugsuð, enda er ekkert eðlilegra en að slík löggjöf sé til endurskoðunar, bæði til leiðréttingar á upprunalegri vansmíð, en þó alveg sérstaklega til þess að lögin haldi fullu samræmi við þær breyt., sem framvinda tímanna skapar í þjóðfélaginu hverju sinni.

Það frv., sem liggur hér fyrir á þskj. 162, gerir ráð fyrir að auka í nokkru réttindi bótaþeganna, en í öðru að skapa þeim réttindi, þar sem þau voru ekki fyrir hendi áður. Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um þau atriði, sem frv. tekur til, enda þótt ég telji, að fyrir þeim sé nú í rauninni nægilega gerð grein í grg. frv.

Í fyrsta lagi er hér lagt til í 1. gr. þessa frv., að þeir menn, sem njóta heiðurslauna og ólögboðinna eftirlauna samkv. fjárl., fái þessar fjárveitingar ekki beint til frádráttar á sinn ellilífeyri, — hér er í flestum tilfellum um að ræða ellilífeyrisþega, — heldur komi framlag fjárl. þeim, eins og aðrar tekjur, einungis til frádráttar eftir almennum skerðingarákvæðum almannatryggingalaganna, en þeim skerðingarákvæðum er svo hagað, að nemi tekjur lífeyrisþega hærri fjárhæð en lífeyririnn, verður skerðing á lífeyrisgreiðslunni og skerðingin fer svo vaxandi eftir því, sem tekjurnar verða hærri unz tekjurnar hafa náð þrefaldri upphæð lífeyrisins, þá fellur að öllu niður lífeyrisgreiðslan. Það er óeðlilegt, að þeir menn, sem eftir langa og dygga þjónustu eru sæmdir þeim sérstaka heiðri að fá fjárveitingu á fjárl., án þess að ríkinu beri til þess skylda að veita þeim eftirlaun, séu látnir frekar gjalda þess en njóta, en svo er það raunverulega eins og nú er málum komið. Ég þekki þess dæmi, að gamlir menn, sem hafa eingöngu haft sinn ellilífeyri af að lifa, hafa orðið fyrir þeim heiðri, að Alþ. hefur tekið þá inn á fjárlög, veitt þeim sem heiðurslaun nokkrar krónur. — hér er oftast um lágar fjárhæðir að ræða. Þetta leiðir til þess, að einn góðan veðurdag, þegar slíkur heiðurslaunþegi ríkisins kemur að sækja sinn ellilífeyri, þá fær hann það svar, að nú sé því miður ekki lengur hægt að borga honum almannatryggingalífeyrinn hans. hann eigi þess í stað að innheimta sin heiðurslaun úr ríkissjóði. Og síðan er þeim hinum sama manni skýrt frá því, að hann geti komið aftur eftir tvo, þrjá mánuði, eftir því hve hárri upphæð honum hefur verið úthlutað á fjárl. En sem sé þegar liðinn er jafnlangur tími eins og maðurinn væri að fá þetta greitt í ellilífeyri. getur hann komið aftur og vitjað um sinn ellistyrk á ný. Í slíkum tilfellum verður þá hinn aldurhnigni heiðurslaunþegi að fara að útvega sér trúnaðarmann til þess að veita fénu móttöku hér í Reykjavík, og okkur sem búum úti á landsbyggðinni, finnst það ekki sérlega greiður gangur að fá afgreidd okkar mál úr fjarlægð. Auk þess verður af þessu nokkur kostnaður. Sem sé: Sá, sem sæmdur er heiðurslaunum á 18. gr. fjárlaga, og heiðurslaunin eru, eins og þau eru í flestum tilfellum, aðeins lágar fjárhæðir, fær engan raunverulegan fjárhagsstuðning af þeirri löggjöf, heldur þvert á móti allmikið umstang og svolítinn kostnað. Það væri eðlilegra, ef Alþ. meinti ekkert með því að taka slíka menn inn á fjárlög annað en það að heiðra þeirra nöfn, að þeir væru alls ekki hafðir á fjárl., heldur á einhverjum heiðurslista, sem Alþ. samþykkti þá, og léti nöfn þeirra standa þar án þess að tilgreina nokkra krónutölu aftan við. Ég held hins vegar, að hér sé um að ræða misskilning, þannig að Alþ. ætlist raunverulega ekki til þess, að þetta sé svo í framkvæmd, en vegna ákvæða almannatryggingal. eru eftirlaun eða einhvers konar laun úr opinberum sjóðum dregin frá hinum almenna lífeyri. Þess vegna er hér lagt til. að þetta verði leiðrétt með þeim hætti, að slíkar fjárveitingar sem ég hef hér oftsinnis nefnt verði eingöngu teknar eins og almennar tekjur bótaþegans eða lífeyrisþegans og komi því aðeins til skerðingar, að þær séu það miklar ásamt öðrum tekjum hans, að þær heyri undir 1. tölulið bráðabirgðaákvæða almannatryggingal. um skerðingu.

Í öðru lagi er hér í þessu frv. lagt til, að fjölskyldubæturnar séu einnig látnar ná til þeirra barna, sem greiddur er barnalífeyrir með. Almannatryggingalöggjöfin gerir nú ráð fyrir því, að greiddar séu fjölskyldubætur með öllum börnum hverrar fjölskyldu innan við 16 ára aldur nema einu. og þessar greiðslur fara í engu eftir efnahag foreldranna, heldur eru þær fastákveðnar án tillits til þess. Það einasta, sem fellir niður réttinn til fjölskyldubótanna, er, að forstöðumaður heimilisins, sem barnið hefur á sínu framfæri, taki ekki með því barnalífeyri. En þetta þýðir í framkvæmdinni það, að öryrkjar, sem hafa börn á sínu framfæri, og gamalmenni, sem hafa börn á sínu framfæri, svo og þeir, sem hafa börn í fóstri fyrir aðra, njóta ekki sama réttar og aðrir. Í rauninni er það svo, að hér er um að ræða þá aðila, sem kannske allra frekast þyrftu að fá fjölskyldubætur. Einstæðar mæður eru látnar njóta þessara fjölskyldubóta og bæturnar kallaðar mæðralaun, en hér er lagt til að fjölskyldubótarétturinn verði ekki skertur í neinu við það þó að barnalífeyrir sé greiddur með viðkomandi börnum. Þetta er áreiðanlega það atriðið í framkvæmd almannatrygginganna, sem með réttu sætir mestri gagnrýni um þessar mundir og þarfnast þess skjótar en nokkuð annað, að hér sé bætt um. Sem sé, það hefur tekizt svo til vafalaust fyrir einhvers konar mistök, að einmitt þeir aðilarnir, sem mest þurfa á þessu að halda, þ. e. a. s. börn öryrkja, börn eða fósturbörn gamalmenna og munaðarlaus börn fá ekki þennan rétt núna, sem aðrir hafa alveg án tillits til efnahags foreldranna. Ég tel þess vegna. að það sé ekki einasta réttmætt af Alþ., heldur beinlínis siðferðisskylda, að hér verði bætt um.

Þá er hér lagt til að kaflinn um sjúkrabætur verði látinn taka þeim breyt., að giftar konur verði látnar njóta þar sama réttar eins og aðrir, en svo er ekki eins og nú standa sakir. þ. e. a. s., í l. er ákvæði svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Giftar konur fá því aðeins greiddar sjúkrabætur, að þær færi sönnur á, að maður þeirra geti ekki séð þeim farborða.“

Ég vil vekja athygli á því, að hér eru giftar konur settar skör neðar en allir aðrir þegnar þessa þjóðfélags hvað snertir réttinn til sjúkrabóta. Engum öðrum aðila er gert það að skyldu að sanna óhæfni venzlamanna sinna eða sifjaliðs til þess að framfæra sig í veikindum. Þetta á aðeins við um giftar konur. Í reyndinni þýðir þetta, að giftar konur fá yfirleitt ekki sjúkrabætur. Það kunna að vera dæmi til þess, ég veit ekki um þau. Og í því héraði, þar sem ég er búsettur, hafa slíkar bætur ekki verið greiddar síðustu árin, kannske ekki endilega vegna þess, að engin kona hafi öðlazt rétt til þeirra, heldur vegna þess, að konur tregast til þess jafnvel þó að ástæða væri til, að sanna það, að maður þeirra sé óhæfur til þess að framfleyta þeim í veikindum þeirra. Þetta ákvæði er ranglátt, og því þarf að breyta, enda er það í fullu samræmi við þær kröfur sem samtök kvenna gera yfirleitt um þessi mál. Og þó að ég vilji nú ekki leggja dóm á það hér, hversu réttmætar þær kröfur eru yfirleitt, þá er það mín skoðun, að hér sé um að ræða fullkomið réttlætismál, sem rangt væri að láta undan dragast að leiðrétta.

Og þá kem ég að því, sem er fjárhagslega veigamesta atriðið í því, sem lagt er til í þessu frv. Það er í 3. gr. frv., en þar er lagt til, að allur elli- og örorkulífeyrir verði hækkaður um 25%. Ég hef gert á því svolitla athugun, hvað skeð hafi í þessum málum frá því er lögin voru sett. Almannatryggingalöggjöfin er, eins og hv. alþm. sjálfsagt muna vel, frá árinu 1946, og þá er gert ráð fyrir því í upphafi, að ellilífeyrir einstaklinga á fyrsta verðlagssvæði, svo að ég taki dæmi þar, sé 100 kr. á mánuði í grunn. Ef sú vísitala, sem þá var lögð til grundvallar kaupgreiðslum, væri enn í gildi, þýðir það, að þessi ellilífeyrir mundi núna vera einhvers staðar milli 620 og 630 kr. Hins vegar er hann í reyndinni, eftir þeim reglum sem nú er farið eftir, 533 kr. Ég skal taka það fram, að þessar tölur og þær tölur, sem yfirleitt eru nefndar hér í frv. og grg. þess, eru miðaðar við vísitöluna 157, eins og gildandi var þegar frv. var samið nú um mánaðamótin. Við sjáum af þessu, að hagur lífeyrisþegans hefur versnað um 14–15% frá því að lögin voru samþ. Nú væri það hins vegar eðlilegt, að á því tímabili, sem liðið er frá því að lögin voru sett, hefði heldur miðað í hina áttina, að lífskjör þessa fólks væru gerð betri. Það, sem lagt er til í frv., er, að kjör þessara lífeyrisþega verði hækkuð um 7–8%, en það er það, sem ske mundi, ef frv. yrði að lögum. Ég skal taka það fram, að lífeyrir á 1. verðlagssvæði fyrir hjón er nú 854 kr. á mánuði, en mundi, ef þetta yrði að lögum, verða 1067 kr. á mánuði. Fyrir einstakling mundi þetta þýða hækkun úr 533 kr. upp í 667 kr. á mánuði. Vænti ég þess, að hv. alþm. þurfi ekki að finnast það vera nein ofrausn við lífeyrisþegana.

Þá kem ég að síðustu að því atriði, að samþykkt á þessu frv. mundi að sjálfsögðu ekki verða kostnaðarlaus. Ég hef því miður ekki aðstöðu til þess að geta reiknað út með nokkurri nákvæmni, hvað samþykkt frv. í heild mundi kosta, en ég get hins vegar greint frá því, að samþykkt 1., 2. og 4. gr. frv. mundi ekki hafa mjög mikil aukin fjárhagsleg útgjöld í för með sér. Hækkunin á lífeyrinum um 25% mundi hins vegar hafa í för með sér allveruleg aukin fjárútlát fyrir almannatryggingarnar, og þess skal getið, að ef miðað er við árið 1952, sem er síðasta ár, sem við höfum reikningana yfir, þá námu ellilífeyrisgreiðslurnar 38 millj. 680 þús., en örorkulífeyrisgreiðslurnar 11 millj. 86 þús., þ. e. a. s. samtals elli- og örorkulífeyrir 49 millj. 766 þús. En það þýðir það, að ef þetta væri hækkað um fjórðung, þá mundu lífeyrisgreiðslurnar hafa numið, ef ekki kæmi til nein önnur breyting á þessu, 12 millj. 441½ þús. meira en var eftir þeim lögum, sem þá voru í gildi. En ef við miðum við meðalvísitölu ársins í ár, sem Tryggingastofnunin er nú búin að áætla 157¼ úr stigi, þá mundi samþykkt þessa frv. hafa í för með sér hækkun, sem nemur 13 millj. 150 þús. Þess skal getið, að þetta mundi hækka örlítið meira en þessar tölur sýna, vegna þess að skerðingarákvæðin mundu sjálfkrafa færast og rýmka við það, að lífeyririnn væri hækkaður, þar sem skerðingin er miðuð við lífeyrisupphæðina. Ég geri þess vegna ráð fyrir því, að samþykkt þessa frv. mundi í heild hafa í för með sér útgjaldaaukningu, sem næmi nálægt 14 millj., eða kannske rúmlega það. Það er að sjálfsögðu ekki hægt, a. m. k. ekki með þeim tölum, sem ég hef við höndina, að reikna það nákvæmlega út, hversu miklu þetta mundi nema, en ég hygg, að það sé ekki fjarri til getið, að þetta mundi nema eitthvað rúmum 14 millj. kr.

Þá kemur spurningin: Höfum við efni á því að auka útgjöld almannatrygginganna um þessa upphæð? Ég svara því til, að á meðan hæstv. ríkisstj. leggur fyrir Alþ. frv. til fjárlaga með 38–39 millj. kr. tekjuafgangi, þá er ekki úr vegi að gera ráð fyrir því, að nokkur hluti af þessum tekjuafgangi væri heldur notaður til þess að viðhalda þeim lífskjörum, sem Alþ. fyrir sjö árum samþykkti til handa gömlu fólki og lasburða og auka þau í nokkru, heldur en að taka það fé til annarra nota. Þá vil ég líka sérstaklega benda á það, að það er ekki einasta réttlætismál, að vel sé búið að þeim, sem hafa þegar skilað löngu lífsstarfi, og hinum, sem ekki hafa heilsu til þess að afla sér tekna af eigin rammleik, heldur er það og brýnt hagsmunamál. Það má ekki ske, að við látum kjör þessa fólks fara versnandi, og hér er aðeins lagt til, að þau séu bætt um 7–8% frá því að löggjöfin var sett, og er í rauninni um svo litla hækkun að ræða, að ég hygg, að alþm. ættu að get fallizt á, að frv. þetta yrði samþ.

Ég vil svo að lokinni þessari umr. gera það að till. minni, að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og félmn.