07.04.1954
Efri deild: 79. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í C-deild Alþingistíðinda. (2698)

125. mál, húsaleiga

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þau fáu orð, sem ég segi hér um þetta frv. um húsaleigu, verða náttúrlega á þann veg, að þau hefðu kannske frekar átt að vera sögð við 1. eða 3. umr. hér í hv. þd., því að þau verða mjög almenns eðlis um frv. En þar sem hv. þm. Barð. (GíslJ), sem jafnframt er aðalforseti þessarar hv. þd., ræddi í gærkvöld um frv. þetta mjög almennt, í meginhluta af sinni ræðu, sem var geysilöng. þá vænti ég þess, að hæstv. forseti leyfi mér einnig nú við þessa umr. að fara nokkrum almennum orðum um frv.

Hv. þm. Barð. talaði hér langt mál í gærkvöld um þetta frv. og lýsti því sem einhverju mesta endemisfrv., sem fram hefði komið hér á Alþ., eftir því sem orð hans féllu. Hv. þm. kom hér fram sem mjög ákveðinn og öflugur talsmaður og fulltrúi fyrir húseigendur. Að því er mér virtist, vildi hann nú miða frv. eingöngu við Reykjavík, því að eitt af því, sem hann taldi að mjög væri ámælisvert, var það, að tveir þm. utan Reykjavíkur hefðu flutt þetta frv. En ég hélt nú, að hv. þm. Barð. væri ekki orðinn svo innlifaður hér í Reykjavík, að hann vissi ekki, að landið væri nokkru stærra en Reykjavík ein, og hér er um frv. að ræða, sem, ef að lögum verður, á að gilda um land allt, þ. e. a. s. um þéttbýlið hér í þessu landi, hvort sem það snertir Reykjavík eða aðra staði, svo að þetta var nú eitt með öðru, sem lýsti því, hve smátt og auvirðilegt varð til að tína til þess að reyna að ófrægja og gera að litlu þetta frv.

Hv. þm. Barð. lýsti því með mjög sterkum orðum, hve gengið væri á rétt húseigenda með þessu frv., sem hér er um að ræða. Eftir því sem hann komst að orði, þegar hann var á hátindi sinnar miklu ræðu, þá var það eiginlega niðurstaða hans, að mér virtist, að það væru miklar líkur til þess, að húseigendur sumir a. m. k. hér í Reykjavík mundu heldur vilja hafa hús sín full af rottum, músum, kakkalökkum, veggjalúsum og öðru slíku dóti og eftirláta þeim húsin heldur en að láta fólk búa í þeim. Það getur vel verið, að það sé það, sem eigi að koma, að húseigendur hafi leyfi til að eiga hús og láta þau verða full af slíku dóti eins og þessu og það þyki þá einhver ósvinna að setja löggjöf til þess að hindra það, að svo gálauslega og heimskulega sé farið með þau verðmæti, sem eru eign þjóðfélagsins og einhver mesta þörf er á að séu notuð hyggilega, því að það vita allir, að húsnæðisvandamálin eru einhver erfiðustu mál okkar þjóðfélags. Það er ekki heldur að undra, að svo sé, þegar við gætum að því, að við verðum að hafa dýrari, vandaðri byggingar heldur en flestar aðrar menningarþjóðir. Margar þjóðir geta lifað í ósköp einföldum, ódýrum húsakynnum og kannske átt þar sæmilega daga. En hér hjá okkur með okkar umhleypingasama, kalda, erfiða loftslag og með þær miklu kröfur, sem við gerum til húsnæðis, og ég segi þeim mun betur gerum um mannsæmandi húsnæði, þá er það alveg geysilega dýrt fyrir þjóðfélagið að koma upp íbúðum, sem sæmilegar geta talizt, yfir fólkið. Þegar allir hljóta að viðurkenna þessa staðreynd, þá er hitt vitanlega jafnsjálfsagt, að skynsamlega sé tekið á þessum málum og að þá sé með einhverjum skynsamlegum ráðum leitað eftir því, að það húsnæði, sem til er, hverjir sem það eiga, sé notað fyrir það fólk, sem mesta þörf hefur fyrir það.

Mig langar til að skjóta hér inn í örstuttu um annað mál, sem þó snertir þetta mjög mikið. Ábúðarlöggjöf okkar Íslendinga er allgömul að stofni til, en þó er nú yfirleitt talið svo, að ábúðarlöggjöf hafi fyrst verið sett árið 1884, þó að ýmis ákvæði væru eldri áður. Þessi ábúðarlöggjöf var endurskoðuð á árunum 1931–33. Mér er það sérstaklega minnisstætt, af því að það voru fyrstu þingin, sem ég sat á. Ég átti þá sæti í landbn. og hafði töluvert með þessi mál að gera. Ég held, að það sé rétt, að ég hafi verið frsm. landbn. varðandi frv., þegar það var til meðferðar. Ábúðarlögin voru svo að lokum afgreidd á þinginu 1933. Það, sem kom mér til að minnast þessa nú, er það, að þau rök, sem hv. þm. Barð. bar fram gegn því, að nauðsyn væri að setja almenna húsaleigulöggjöf fyrir þá 3/4 þjóðarinnar, sem nú búa í þéttbýli hér á landi, voru mjög á sömu lund og íhaldssömustu mennirnir þá báru fram gegn því, að sett væru einhver ákvæði til þess að tryggja þann óskaplega lélega rétt, sem leiguliðar á jörðum einstakra landeigenda áttu þá við að búa. Það voru nákvæmlega sömu rökin. Því var mjög haldið þá á lofti, að allt. sem gert væri til þess að tryggja afkomu þessara manna með því, að þeir ættu rétt á lífstíðarábúð, ef ekki meiru, og annað slíkt yrði til þess að koma öllu á vonarvöl, það yrði til þess að koma upplausn á þetta skipulag, og sú skylda, sem þá var lögð á landeigendur til þess að húsa jarðir sínar, sem var þó ekki nema að nokkru leyti, um leið og þær væru leigðar út, gerði þeim ómögulegt að eiga jarðirnar og þær því fara í eyði. En hver hefur reynslan orðið í þessum efnum? Reynslan hefur, eins og vita mátti, orðið sú, að þær endurbætur, sem gerðar voru á ábúðarlöggjöfinni í þetta skipti, hafa verið til stórhappa fyrir landbúnaðinn, og meira en það: þær breytingar, sem gerðar hafa verið á ábúðarlöggjöfinni síðan, sem eru nokkrar, en þó ekki stórvægilegar, hafa allar gengið í þá átt að tryggja þennan rétt enn betur, tryggja það fyrir leiguliðana, að aðstaða þeirra væri betri en hún var með ábúðarlögunum sjálfum.

Þetta er mjög glöggt dæmi um það, hve tregir menn eru að viðurkenna staðreyndir og gera hluti, sem sjálfsagt og nauðsynlegt er að gera. Mér datt þetta í hug og fann glöggt, hve skyldleikinn var mikill milli þeirra manna, sem þá beittu sér gegn þeim breyt., sem var verið að berjast fyrir, og hv. þm. Barð. í ræðu þeirri, sem hann hélt hér í gærkvöld. Ég er jafnsannfærður um það, að eftir nokkra áratugi, — það þarf sennilega ekki einu sinni að bíða svo lengi eftir því, — verður það frv., sem ég vænti að nú verði að l. á þessu þingi, talið mjög merkilegur áfangi í félagsmálalöggjöf okkar Íslendinga til þess að tryggja sem bezt rétt þeirra manna, sem mesta erfiðleika hafa varðandi húsnæði í þjóðfélaginu og minnsta möguleika til þess á eigin spýtur, án annarrar aðstoðar en þjóðfélagsins sjálfs, að geta fengið sæmilega aðstöðu á þann hátt. Það er út frá þessu meginsjónarmiði, sem ég álít að það sé sjálfsagt nú að samþykkja það frv. sem hér liggur fyrir. Ég segi það ekki af því, að mér detti í hug að halda því fram, að frv. muni vera gallalaust, og ég get meira að segja vel viðurkennt, að eitthvað af þeim brtt., sem hv. þm. Barð. hefur hér borið fram, geti vel átt rétt á sér; því dettur mér ekki í hug að neita. Frumlöggjöf verður aldrei gallalaus, og það verður að sjálfsögðu að breyta henni að einhverju leyti innan skamms tíma. En ef löggjafarþingið ætlar sér að velta málinu fyrir sér mörg ár, jafnvel áratugi, þangað til allir hv. þm. álíta, að ekki sé neitt athugavert við frv., þá verða aldrei sett l. um slíka hluti. Aðalatriðið er að koma sér niður á nokkur sjálfsögð meginatriði, sem menn hafa trú á að séu til stórbóta, og kæra sig þá minna, þótt eitthvað kunni að fljóta með, sem reynslan síðar sýnir að verður að breyta að einhverju leyti.

Hv. þm. Barð. lýsti því mjög, — ja, ég veit ekki, hvað ég á að segja, en hann var hálfklökkur í rómnum þá, — hvernig þessir geysilega vondu framsóknarmenn hefðu eiginlega flekað þetta frv. inn á — ja, ég held nú Reykjavík fyrst og fremst — eða hér inn á Alþ., og hann sagði m. a., hv. þm., að oddamaður í n., sem hann orðaði svo, sem mun eiga að vera form. n., sem fjallaði um þetta mál nú fyrir tveim árum, hafi verið fjandmaður Reykjavíkur. Ég veit nú ekki almennilega, hvað hv. þm. Barð. á við með þessu, og ég efast um meira að segja, að hann viti, hvaða maður það er, sem hann á þennan hátt hefur titlað fjandmann Reykjavíkur, eða m. ö. o. fjandmann 2/5 hluta þjóðarinnar eða meira. En þar sem það fór ekki neitt dult, að hann meinti formann n., þá mun það eiga að hitta þáverandi skrifstofustjóra félmrn., Jónas Guðmundsson, sem var formaður þessarar n., sem hér er um að ræða. Þessi maður hefur nú verið embættismaður í ráðuneyti, sem ég stjórnaði í þrjú ár eða meira, og ég ætla að leyfa mér að mótmæla þessu. Ég hygg, að Jónas Guðmundsson sé einn með okkar þroskuðustu félagsmálamönnum og hafi einmitt sýnt það í sínu starfi og ekki síður varðandi Reykjavík en önnur héruð, að hann hafi einmitt lagt sig fram í þeirri stöðu, sem hann var í, eins og líka var skylt, til þess að benda á úrræði til bóta fyrir slíka staði, fyrir þéttbýlið í landinu, og þá ekki sízt fyrir höfuðborgina sjálfa. Ég nefni þetta aðeins til að sýna, á hverju óskaplegu hundavaði hv. þm. Barð. fór í þessari ræðu sinni, því að ég svo sem veit ósköp vel, að hann mun ekki hafa meint þennan mann, þegar hann talaði um þennan höfuðfjandmann Reykvíkinga, sem hefði hér verið að verki. Sjálfsagt hefur hann ætlað að hitta einhvern framsóknarmann með þessu fagra heiti.

Ég verð nú að segja það, að mér virtust allverulegar söguskekkjur í því, sem hv. þm. Barð. sagði um undirbúning þessa frv., því að hann virtist álíta, að það væri Framsfl. einn, sem að þessu stæði, og hann hefði viljað ginna þetta fóstur sitt, sem hann nefndi svo, hér inn á Alþingi og fá alþingismenn til þess að samþykkja það og hér væri ekkert nema fláttskapur og illska ein að baki, eins og allt, sem framsóknarmenn hugsuðu, a. m. k. varðandi Reykjavík. Mér virðist því rétt, að ég segi hér örlítið — ég skal fara mjög fljótt yfir sögu — um það, hvernig þetta frv. hefur til orðið.

Þetta frv. er orðið allgamalt, frá því að fyrst var farið að ræða um löggjöf í þessu efni. Ég skal geta þess, að á árunum 1946–48, sem var nú áður en ég kom inn í ráðuneytið, var hafinn undirbúningur að löggjöf um almenna húsaleigulöggjöf, og þeir menn, sem þá fjölluðu um þetta, höfðu sérstaklega kynnt sér málið á Norðurlöndum og í Bretlandi og víðar, og út frá því gerðu þeir uppkast að frv. um þetta efni. Þeir menn, sem um þetta fjölluðu þá, voru þáverandi skrifstofustjóri félmrn., Jónas Guðmundsson, og Gizur Bergsteinsson hæstaréttardómari. Þetta frv. lá svo fyrir, þegar ég kom í ráðuneytið í ársbyrjun 1950, og með fullu samkomulagi innan ríkisstj. varð það að ráði, af því að ríkisstj. leit þá svo öll á, eða ég vissi ekki betur en svo væri, að það væri mikil nauðsyn, að sett yrði húsaleigulöggjöf, að skipuð var sérstök n. í þetta mál. Sú n. var þannig skipuð, að Jónas Guðmundsson var formaður n. Aðrir nefndarmenn voru þeir Magnús Jónsson, sem þá var framkvæmdastjóri Fasteignaeigendafélags Reykjavíkur, en er nú hv. 2. þm. Eyf., Ólafur Sveinbjörnsson skrifstofustjóri framfærslumála Reykjavíkurbæjar, Þórður Björnsson bæjarfulltrúi í Reykjavík og Hannes Pálsson frá Undirfelli, starfsmaður í fjmrn. Það voru þessir 5 menn, sem fengu það hlutverk að gera frv. um þetta efni, og þeir skiluðu síðan frv., sem er í raun og veru afskaplega líkt því frv., sem hér liggur fyrir, en þrír nm. höfðu ágreiningsatriði um vissa kafla frv., en það, sem ég vil taka fram, er það, að öll n. stóð einhuga að meginhluta frv., þ. e. a. s. öllum þeim köflum, er snerta almenna húsaleigu í frv. Það voru aðeins heimildarkaflarnir, X. og XI. kafli, sem verulegur ágreiningur var um. Að vísu var nokkur ágreiningur um atriði í 1. gr. frv., eins og hún þá var orðuð, en eins og sú gr. er nú, þá féllust allir nm. nema Hannes Pálsson frá Undirfelli á að hafa hana eins og hún nú er í frv. Ég bendi á þetta til þess að sýna, að það voru ekki einhverjir vondir framsóknarmenn einir, sem af einhverri lævísi og hrekkvísi gerðu þetta frv., heldur var það gert af nefnd, sem öll ríkisstj. stóð að, og í þessari nefnd voru fulltrúar frá Fasteignaeigendafélagi Reykjavíkur og einn aðalfulltrúi borgarstjórans hér í Reykjavík. Það er því ofraun jafnvel jafnmiklum vitmanni og skörungi og hv. þm. Barð. að ætla að færa sönnur á, að þetta frv. sé eingöngu fundið upp af einhverri illgirni og vonzku af hálfu Framsfl. Frv. er samið og að mestu leyti líka fylgt af fulltrúum þeirra samtaka hér í Rvík, sem málið varðar mest, eins og Fasteignaeigendafélags Reykjavíkur og skrifstofu borgarstjórans. Þessu finnst mér nauðsynlegt að ég geri hér grein fyrir nú í þessu sambandi.

Hv. þm. Barð. var að gefa mér svona dálítið góð meðmæli í gær, og þakka ég honum fyrir það. Ég get náttúrlega kvittað fyrir það með sama móti, því að við höfum ýmislegt starfað saman og getað gert það á sæmilega góðan hátt. En það, sem hv. þm. var að tala um, að ég hefði ekki viljað flytja þetta frv., heldur hefði ég fengið einhverja undirmenn mína, eins og hann orðaði það, til þess að flytja frv., þá er þetta mesti misskilningur. Ég hef einu sinni flutt þetta frv. sem stjórnarfrv. hér á Alþingi. Þá var ríkisstj. svo mikið sammála um málið, að það var samþykkt innan ríkisstj., að ég mætti flytja það sem stjórnarfrv., þótt hins vegar væri tekið fram, að það væru viss atriði í frv., sem meiningarmunur væri um. Annað skipti fékk ég nefnd til að flytja frv., og í þriðja skiptið voru það svo einstakir þm. úr Framsfl., sem fluttu það.

Ég veit ekki, af hvaða ástæðum það er, að það er útlit fyrir, að hv. Sjálfstfl. hafi því meir fjarlægzt þetta frv., því lengur sem liðið hefur. Ég tel það mikinn misskilning af honum og hann muni ekki uppskera neitt gott af því síðar, því að ég er alveg sannfærður um það, eins og ég sagði áðan, þegar ég dró ályktanir af meðferð ábúðarlagafrv. fyrir rúmum 20 árum hér á Alþingi og hvernig sá málatilbúnaður var allur, að það verður hið sama hér, að þessi löggjöf, þótt gölluð kunni að vera í einstökum atriðum, — og dettur mér ekki í hug að neita, að hún geti verið það að einhverju leyti, mun á sínum tíma verða talin mjög merkilegur hyrningarsteinn þess að setja löggjöf um það í okkar þjóðfélagi, sem alveg er nauðsynlegt að löggjöf sé sett um. Þar má ekki vera með neina tæpitungu eða hræðslu við það, að einhverjir einstakir menn eða jafnvel einstakar stéttir eins og fasteignaeigendur setji sig á móti frv. Vissulega voru óðalsbændurnir fyrir 25 árum, sem ýmsir áttu margar jarðir, ekkert glaðir yfir að fá á sig húsaskyldu og skyldu um að leigja jarðir til lífstíðarábúðar og annarra slíkra hluta, en þeir urðu að sætta sig við það, og þeir hafa gert það. Það, sem gerzt hefur síðan, er það, að fjöldi af þeim jörðum, sem þá voru í leiguábúð, hefur komizt í einstakra manna eigu og er nú í eigu þeirra. Og það er það sama, sem ég álit að eigi að þvinga í gegn með hæfilega sterku húsaleigufrv., þ. e. að stefna að því, eftir því sem mögulegt er, að sem flestir eigi sína íbúð. Þetta getur að einhverju leyti stuðlað að því, — ég er ekki í neinum vafa um það, — því að vissulega eru mikil vandkvæði á því og ekki neitt sólskin — það er mér vel ljóst — fyrir húseigendur að leigja út íbúðir. Ef þetta að einhverju leyti gæti stutt að því, að þeir vildu selja íbúðir sínar með hóflegu verði, og hugsanlegt væri að koma þeim þannig í hendur þeirra, sem sjálfir eiga að nota íbúðirnar, þá er það atriði, sem að mínum dómi er eingöngu til, bóta og er sjálfsagt að stuðla að, eftir því sem frekast er unnt.

Ég ætlaði mér ekki að tala mjög langt í þessu máli og skal reyna að efna það. Ég held, að það sé tiltölulega lítið fleira, sem ég sé ástæðu til þess.að taka fram. Ég vil þó nefna það, að hv. þm. Barð. sagði í gær í sinni ræðu — ég hef skrifað það hér niður — hann sagði: Fyrstu 10 kaflar frv. gætu verið skynsamlegir, ef þeir væru sæmilega samdir — og eitthvað fleira svipað þessu nefndi hann. Ég skal þakka honum fyrir þessa viðurkenningu, því að þetta eru einmitt kaflarnir um hin almennu húsaleiguákvæði. Það getur vel verið, að hv. þm. Barð. gæti fært þetta til miklu betra máls, — ég skal ekkert um það segja, — en það hafa nú ekki meiri klaufar um þetta fjallað en menn eins og Gizur Bergsteinsson hæstaréttardómari og Jónas Guðmundsson skrifstofustjóri í félmrn., auk þeirra manna annarra, sem ég hef nefnt hér áður. Það má náttúrlega alltaf áfella alla löggjöf og finna ýmislegt að eins og þetta, en það er því miður oft gert einungis til þess að eyða góðum málum og ekkert annað. Það er alltaf hægt að bæta löggjöf síðar með bættu orðalagi og sníða af þá vankanta, sem áreiðanlega verða oftast nær, þegar ný löggjöf er sett um atriði, sem hafa ekki verið lögfest áður.

Það er gerður mikill blástur að þessum heimildarköflum í frv. Það út af fyrir sig gæti ég skilið. Í Nd. voru ekki gerðar aðrar brtt. af hálfu hv. sjálfstæðismanna þar heldur en leggja til, að þeir kaflar yrðu felldir niður. Það virðist svo, að hv. Sjálfstfl. í þeirri d. væri í raun og veru með frv. að öðru leyti. En það kom nú í ljós, að það var þingvilji fyrir því í hv. Nd., að þessir kaflar einnig væru í frv. Og ég hef aldrei getað skilið, hvað ósköp menn geta verið óánægðir með þetta. Mér virðist miklu fremur, að sveitarfélögin megi þakka fyrir að fá heimildir í lögum, sem er algerlega í þeirra valdi að ákveða, hvort þau vilja nota eða ekki. Þarna er ekki um neitt annað að ræða. Það er ekki verið að þvinga neinu inn á sveitarfélögin með þessu; siður en svo. Þeim er bara heimilt að gera vissar ráðstafanir, ef þeim virðist ástandið þannig í húsnæðismálum á sinu umráðasvæði, að nauðsynlegt sé að gera þær. Ég skal taka það fram, eins og ég held ég hafi tekið fram í Nd., eða einhvern tíma a. m. k., þegar um þetta frv. var rætt, að ef þetta hefðu verið ákveðin lagafyrirmæli, sem er þarna í X. og XI. kafla frv., þá hefði ég alveg verið á móti þeim, — ég skal ekki segja öllum ákvæðunum, ég held það sé nú eitthvað í þeim, sem ég hefði viljað lögfesta, en alls ekki á þann hátt eins og það er þar sett fram. En þar sem hér er aðeins að ræða um heimildir til bæjar- og sveitarfélaganna, þá finnst mér, að hér sé bara verið að gera þeim gott, en ekki verið að brugga þeim nein Lokaráð, síður en svo. Ég er svo lýðræðissinnaður maður, og ég trúi svo á það fólk og þá menn, sem stjórna bæjar- og sveitarfélögum okkar, að það sé engin áhætta að leggja í þeirra hendur töluvert miklar heimildir. Þeir menn, sem þar stjórna, munu ekki nota þær, nema það sé ástæða til og þeir finni, að það þurfi að gera einhverjar töluvert, jafnvel „drastískar“ ráðstafanir í eitt skipti til þess að forða enn meiri voða, og það er aðeins þetta, sem hér liggur fyrir, og ekkert annað. Þess vegna hef ég aldrei getað skilið það, hve mikill bægslagangur hefur einmitt orðið út úr þessum köflum frv.

Ég mun svo ekki hafa þessi orð öllu fleiri. Ég fylgi að sjálfsögðu þeim brtt., sem hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. flytur hér á þskj. 619. Önnur breytingin er ekkert annað en leiðrétting. Það komst hér prentvilla í frv. eins og það var lagt fyrir. En svo einkennilega vildi nú til í hv. Nd., að d. felldi að leiðrétta þetta eins og það lá fyrir. Það liggur í hlutarins eðli, að eins og þetta er í frv. getur það alls ekki gengið, og engum manni með óbrjálaða skynsemi gat dottið í hug, að sveitarstjórnir gætu sett upp mannmargar nefndir og ákveðið launakjör og látið svo ríkissjóð borga. Þetta hefur engum manni dottið í hug. Hitt var aftur sjálfsagt og eðlilegt, að ef þær skipuðu slíkar nefndir, þá ættu sveitarsjóðirnir sjálfir að borga og þá auðvitað sveitarstjórnirnar að ákveð,a launin. Ég nefni þetta af því, að það er svo einkennilegt, að það skuli þurfa að vera að deila um atriði eins og þetta.

Ég sé nú, að hér er komin brtt. frá tveim hv. þm. á þskj. 644 um að breyta þessu þannig, að ríkissjóður eigi að standa straum af þessu öllu. Það álít ég fjarri lagi, algerlega fjarri lagi. Þau bæjar- eða sveitarfélög, hvort sem eru stór eða smá, sem vilja nota sér þau ákvæði, sem eru í heimildarköflunum, og þá að einhverju leyti skipa þá nefnd eða þær nefndir, sem þar er gert ráð fyrir, eru ekkert of góð til þess að kosta þessar nefndir, og það er að mínum dómi sjálfsagt. Einnig er ég, eins og að líkum lætur, þó að ég hafi ekki talað hér um einstakar brtt. hv. þm. Barð., andvígur þeim og mæli með því, að þær verði felldar.

Skal ég svo láta þessu lokið.