18.02.1954
Neðri deild: 49. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í C-deild Alþingistíðinda. (2748)

142. mál, jarðræktarlög

Flm. (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Á þskj. 368 flyt ég frv. að tveimur brtt. viðjarðræktarlögin. Með frv. þessu fylgir nokkur grg., og vænti ég, að hv. þm. hafi kynnt sér hana og sé því ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta frv. Ég vil þó ekki láta hjá líða að bæta nokkru við það, sem í grg. segir.

Undir fyrri liðnum er breytingin í því fólgin, að þar er lagt til, að jarðabótastyrkur sé greiddur til endurræktunar túna. Nú er það svo, að styrkur til þessara framkvæmda er ekki greiddur almennt, en hins vegar munu vera þess dæmi, að styrkur hafi þó verið greiddur til einstakra manna út á slíka endurræktun, og við það hefur skapazt nokkurt misræmi á milli manna. Slíkt er eins og nú er ástatt háð þeim trúnaðarmönnum, sem mæla jarðabætur hverju sinni.

Mér segja fróðir menn um landbúnað, að nýrækt og sú forrækt, sem nú hefur verið undirbúin í sveitum landsins, sé víða orðin það mikil, að nægilegt megi teljast, a. m. k. eins og háttað er um bústofn okkar nú og mun verða næstu árin. Hins vegar skortir mikið á, að nægilega vel hafi verið frá ræktuninni gengið, og má því telja, að það land, sem nú er í ræktun, gæti með betri ræktun og gróðursetningu skjólbelta gefið mun meiri uppskeru en nú er og þannig framfleytt stærri bústofni. Í því sambandi er rétt að hafa í huga, að þegar tún voru ræktuð fyrir nokkuð mörgum árum, þá voru ekki til þau áhöld og sú tækni, sem nú er, og þess vegna var af þeim sökum ekki unnt að gera þau tún þannig úr garði, sem nú er hægt. Er þá fyrst og fremst að gæta þess, að þau tæki, sem nú eru til að færa til í túnum, eru mun betri en áður var, en gömlu túnin eru víða að ganga úr sér og falla í órækt, vegna þess að það vantar á þau halla og myndast í þeim kal.

Það hlýtur öllum að vera ljóst, að það væri mjög óhagstætt frá þjóðhagslegu sjónarmiði, ef það skyldi verða ofan á í ræktunarmálum landsins, að gömlu túnin, sem þannig voru úr garði gerð í upphafi eins og ég hef lýst, yrðu látin falla í órækt, eingöngu vegna þess að styrkjapólitík í landbúnaðinum væri þannig háttað, að hún freistaði manna fremur til að ráðast í nýrækt og láta gömlu túnin ganga úr sér og falla í órækt, þar sem svo hagaði til, að í þau væri komið kal og þau skiluðu ekki þeirri uppskeru, sem æskileg eða arðvænleg þætti. Það hlýtur líka öllum að vera ljóst, að það yrði mun ódýrara fyrir hið opinbera að veita styrk til endurræktunar gömlu túnanna heldur en til nýræktarinnar, vegna þess að í nýræktinni er veittur styrkur bæði út á framræslu, grjótnám og girðingar, fyrir utan slétturnar sjálfar, en í gömlu túnunum yrði nær eingöngu um að ræða styrk út á endurræktunina, þ. e. a. s., styrkur til skurða og girðinga og grjótnáms hyrfi að mjög verulegu leyti. Það má því ekki skoða það svo, að hér sé fyrst og fremst um að ræða að auka styrk til ræktunar eða veita nýja styrki, heldur mundi reyndin miklu fremur verða sú, að heildarstyrkveitingar gætu jafnvel orðið minni með þessu móti til landbúnaðar heldur en ef nýræktin er þanin út, en gömlu túnin látin ganga úr sér. Þá þykir mér líka rétt að taka það fram, þó að óþarft ætti að vera, að það þarf enginn að ætla, að bændur mundu fara að brjóta upp gömlu túnin eingöngu vegna þess, að styrkur væri veittur til endurræktunar þeirra, því að hann yrði að sjálfsögðu svo lítill, að það borgaði sig aldrei að brjóta upp tún í góðri rækt, heldur þá og því aðeins, að það væri fallið í órækt eða farið að gefa mjög lítinn arð.

Um síðari lið till., sem er nýr liður, þ. e. a. s. að veita styrk út á skjólbelti í ræktunarlöndum, get ég verið miklu fáorðari. Til skýringar þeim lið er flest það sagt í grg., sem segja þarf. Ég vil aðeins geta þess, að skjólbelti eru fyrir utan það, sem sagt er í grg. um gildi þeirra fyrir aukningu uppskerunnar, m. a. nauðsynlegur undanfari þess, að hægt sé að hefja gróðursetningu nytjaskógar í verulegum mæli, vegna þess að nytjaskógurinn þarf skjól eins og annar gróður fyrst og fremst, og skjólbeltin kæmu honum því einnig að verulegum notum. En eftir að nytjaskógi er plantað í skjóli skjólbeltanna, þá eru skjólbeltin fyrst orðin fullkomin í sjálfu sér, vegna þess að barrskógurinn er hið bezta og öruggasta skjólbelti, sem um er að ræða.

Ég vil geta þess hér, að um þessi mál hef ég rætt og aflað mér upplýsinga hjá nokkrum bændum og mönnum, sem hafa til að bera sérfræðilega þekkingu á landbúnaði, og hafa þær umræður mínar við þá menn leitt til þess, að ég hef flutt þetta frv. hér Vona ég, að þingmenn taki þessum málum með skilningi og vinsemd og þetta frv. nái fram að ganga nú á þessu þingi.

Ég vil svo mælast til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og landbn.