23.11.1953
Neðri deild: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég tel, að þetta frv. beri rangt nafn. Það ætti aðeins að heita: frv. um breytt nafn á fjárhagsráði. Annað felst ekki í þessu frv. Þýðing þess er sú ein, að skipt er um nafn á ráðinu, sem hingað til hefur haft með höndum veitingu gjaldeyris- og innflutningsleyfa og fjárfestingarleyfa, og jafnframt er fækkað í því um þrjá menn.

Hæstv. viðskmrh. sagði í framsöguræðu sinni, að þetta frv. markaði tímamót. Ég fæ ekki séð, hvernig frv., sem hefur þetta innihald og þetta innihald eitt, getur markað nokkur tímamót í viðskiptasögu þessarar þjóðar. Það er auðvitað fjarstæða, að í þessu frv. felist það, að við höfum fengið fullt verzlunarfrelsi. Í því felst ekkert spor í áttina til verzlunarfrelsis, eins og ég mun sýna fram á.

Hvað er verzlunarfrelsi? Verzlunarfrelsi er auðvitað fólgið í því, að allir, sem hafa hug á að flytja vörur inn frá útlöndum, eigi þess kost, þ.e.a.s., ef þeir eru reiðubúnir til þess að greiða fyrir þær í íslenzkum peningum það, sem þær kosta. Verzlunarfrelsi er fólgið í því, að engar hömlur skuli vera á innflutningi vara, ekkert almennt takmark á því magni, sem flytja megi inn, og jafnframt, að frjáls skuli vera sala á þeim gjaldeyri, sem hver maður girnist til þess að kaupa hvaða vörumagn sem hann vill. Ef einhverjar takmarkanir eru annaðhvort á vöruinnflutningnum sjálfum eða á gjaldeyrissölunni, sem til innflutningsins þarf, þá er verzlunin ekki frjáls. Hér er um að ræða svo einfalda hluti, að um þá er ekki hægt að deila.

Hvernig er nú ástand þessara mála? Er verzlunin frjáls í þessum skilningi? Á síðari árum, eða síðan hæstv. fyrrv. ríkisstj. tók við völdum, hefur verið alllangt gengið í því að afnema bein höft á því vörumagni, sem leyft er að flytja inn, þ.e.a.s., það hefur verið hætt að gera bein innflutningsleyfi að skilyrði fyrir vöruinnflutningi. En þetta hefur fyrst og fremst haft skrifstofuþýðingu, vegna þess að menn hafa ekki átt kost á að kaupa þann gjaldeyri, sem þeir hafa þurft á að halda til þess að flytja inn það, sem hugurinn kann að hafa girnzt. Höftin hafa birzt í því, að bankarnir hafa neitað um gjaldeyri, ef þeim hefur sýnzt, haft leyfi til þess að gera það og fengið að gera það alveg óátaldir. Höftunum hefur m.ö.o. ekki verið beitt með takmörkuðum gjaldeyrisveitingum. Þeim hefur verið beitt sem takmörkun á gjaldeyrissölu. Það er líka rétt, að þessum höftum hefur ekki verið beitt eins harkalega og gert var um tíma vegna gjaldeyrisskorts, en það hefði verið hægt að auka innflutninginn með nákvæmlega sama móti, þótt hitt kerfið, leyfakerfið, hefði verið í gildi. Og það er hægt að takmarka innflutninginn aftur með nákvæmlega sama hætti og áður, þó að leyfakerfið sé ekki í gildi. Þannig getum við búizt við því, að óbreyttri þeirri skipan, sem nú gildir og á að gilda, þótt þetta frv. verði að lögum, að innflutningurinn verði aftur takmarkaður stórkostlega með höftum, ekki með beinu innflutningsbanni, ekki með niðurskurði á leyfisveitingum, heldur með takmörkun á gjaldeyrissölu bankanna. Þangað til bönkunum hefur verið gert að skyldu að selja hverjum þeim gjaldeyri, sem óskar eftir gjaldeyri til að kaupa erlendar vörur, er verzlunin lögð í viðjar hafta, ekki frjáls. Þetta er sú meginstaðreynd, sem menn verða að hafa í huga, þegar um verzlunarfrelsi er rætt. Hitt eru furðulegar blekkingar, þegar talað er um það ár eftir ár og mánuð eftir mánuð, að stigin séu spor í áttina að verzlunarfrelsi með því einu að afnema það form hafta, sem felst í leyfisveitingum, meðan hinum raunverulegu höftum, sem felast í takmörkun á gjaldeyrissölunni er haldið.

Hvernig er ástandið núna í þessum málum? Að hversu miklu leyti er innflutningurinn frjáls? Það vita allir, sem til þekkja, að tiltölulega lítið er frjálst af innflutningi frá Bandaríkjunum. Það er ekki mikið frjálst af innflutningi frá löndunum í Greiðslubandalagi Evrópu. Hins vegar er hið svo kallaða innflutningsfrelsi aðallega gagnvart clearing-löndunum, sem við höfum vöruskiptasamninga við. Frelsið birtist aðallega í því, að sagt er við innflytjendur: Þið

megið kaupa eins mikið og þið viljið af tilteknum vörum frá tilteknum löndum, og það eru einkum og sér í lagi clearing-löndin. Viðskiptafrelsið er m.ö.o. ekki meira en það, að innflutningurinn er bundinn, honum er beint með þessum fyrirmælum til ákveðinna landa, vöruskiptalandanna, en frá löndunum, sem verzla í frjálsum gjaldeyri. Og það má ekki einu sinni velja milli clearing-landanna. Það er ekki svo vel, að viðskiptin við clearing-löndin í heild séu nokkurn veginn frjáls. Nei, þau eru hverju sinni bundin við ákveðið clearing-land, og það má ekki flytja viðskipti milli þeirra.

Þannig er ástandið í dag. Þetta er það ástand, sem Sjálfstfl. hefur verið að gorta af sem miklu verzlunarfrjálsræði á undanförnum árum. Hver er afleiðing þess, að verzlunarfrelsið er fyrst og fremst á því fólgið, að viðskiptunum er beint til clearing-landanna? Það er öllum kunnugt, að vörur í clearing-löndunum eru allmiklu dýrari en í löndunum í Greiðslubandalagi Evrópu og á dollarasvæðinn. Sem dæmi um það má t.d. nefna, að skófatnaður frá Ísrael, sem er í Greiðslubandalagi Evrópu, er um 20–30% ódýrari en nákvæmlega sams konar eða heldur lakari skófatnaður frá Spáni, sem er vöruskiptaland. En enginn innflutningur á skófatnaði er leyfður frá Ísrael, þótt stöðugt séu til boða tiltölulega mjög hagstæð kaup á skófatnaði þar. Allur skófatnaðarinnflutningur eða nær allur er látinn koma frá Spáni. Þetta er allt verzuunarfrelsið í skófatnaðarinnflutningnum. Ég get nefnt 10–20 dæmi hliðstæð þessu, en það er ástæðulaust. Þetta er öllum, sem til þekkja, svo kunnugt, að það er nóg að nefna um það eitt dæmi.

Það er ekki nóg að segja, að innflutningur ákveðinna vörutegunda sé frjáls eða skuli vera frjáls. Það er ekki nóg að afnema þá reglu, að það þurfi innflutningsleyfi fyrir ákveðnum vörutegundum, ef menn fá neiið, sem menn fengu áður í fjárhagsráði eða innflutningsstofnuninni, í bönkunum. Ég skal nefna um þetta dæmi, sem frá er skýrt í dagblaði alveg nýlega. Í Tímanum 17. nóv., eða fyrir tæpri viku, var viðtal við einn af fulltrúum Sambands ísl. samvinnufélaga, Hjalta Pálsson, um dráttarvélar, en innflutningur á þeim var gefinn frjáls fyrir ári. Hver er nú reynslan af verzlunarfrelsinu með dráttarvélarnar? Tíminn segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hjalti sagði, að í fyrra hefði ekki verið hægt að fullnægja eftirspurninni um dráttarvélar. Hefði það að mestu stafað af því, að erfiðlega hefði gengið að fá gjaldeyri fyrir kaupunum. Innflutningur á dráttarvélum ætti nú að heita frjáls, en að sjálfsögðu segði gjaldeyririnn til um það hverju sinni, hve mikið magn væri hægt að flytja inn hverju sinni.“

Hér er kjarna málsins lýst í örfáum setningum í öðru aðalblaði hæstv. ríkisstj., Tímanum. Hér er beinlínis frá því skýrt, að það sé orðaleikur einn að vera að tilkynna, að innflutningur á ákveðinni vöru sé frjáls, því að eftir sem áður verði að sækja um gjaldeyri og eftir sem áður sé neitað um gjaldeyri, ef hann sé ekki talinn fyrir hendi. Innflutningseftirlitið hefur hreinlega verið flutt ofan úr Arnarhvoli eða ofan af Skólavörðustig niður að Austurstræti. Það er allt og sumt. Sannleikurinn er sá, að kjarni allra yfirlýsinga hæstv. ríkisstj. um aukið verzlunarfrelsi hefur verið sá einn, að yfirstjórn haftanna hefur verið flutt milli gatna. Það er glæsibragurinn yfir allri stefnu hæstv. ríkisstj. í átt að auknu verzlunarfrelsi. Ég ætla að vara menn við að svara þessu þannig, að reynslan sýni, að innflutningurinn hafi verið aukinn, vegna þess að hann hefði getað aukizt nákvæmlega jafnmikið, þó að haftakerfið hefði verið í gildi, og hann getur enn minnkað nákvæmlega jafnmikið, þó að búið sé að afnema haftakerfið, ef bankarnir taka upp harðhentari neitunarpólitík en þeir hafa fylgt nú undanfarið. Þess vegna er það mergur málsins, þegar talað er um, hvort þetta frv. boði einhverja stefnubreytingu í innflutningsmálunum, hver skilyrði eru til þess frá gjaldeyrissjónarmiði að auka innflutninginn, hver skilyrði eru til þess, að bankarnir eða innflutningsyfirvöldin fjölgi jáum sínum, en fækki neium sínum. Þetta er auðvitað háð því, hver gjaldeyrisafstaða bankanna er, hvort hún er að batna eða hvort hún er að versna.

Ef þetta frv. ætti að þýða einhverja breytingu fyrir landsmenn og fyrir innflytjendur, ef þetta frv. ætti að marka einhver spor í átt að verzlunarfrelsi, þá ætti því að fylgja yfirlýsing um, að væntanleg væri af hálfu ríkisstj. og bankanna sú stefna að stórfjölga jáyrðum við innflutningsbeiðnum, en stórfækka neitunum. Hvort þetta verður gert eða ekki, hlýtur að vera komið undir því, hvernig gjaldeyrishreyfingarnar hafa verið undanfarið. Hefur gjaldeyrisástandið verið að batna? Að því vék hæstv. viðskmrh. ekki einu orði í ræðu sinni. Ég skil vel, af hverju hann gerði það ekki. Það munu menn heyra á því, sem ég segi hér á eftir. Ég ætla ekki, að hæstv. viðskmrh. sé það ekki algerlega ljóst, hverja meginþýðingu þetta atriði hefur fyrir það, hverjum augum menn líta á þetta frv. Hann er það glöggur viðskiptamaður, hæstv. viðskmrh., að honum er áreiðanlega fullljást, að mat manna á þessu frv. sem einhverri stefnubreytingu er algerlega komið undir því, hvort gjaldeyrisaðstaðan er þannig, að búast megi við auknum jáyrðum, en færri neitunum.

En hver skyldi vera sannleikurinn um þetta efni? Í lok síðasta mánaðar var aðstaða bankanna gagnvart útlöndum sem hér segir: Bankarnir áttu inni 102 millj. kr. í dollurum, þeir skulduðu 95 millj. kr. í gjaldeyri Greiðslubandalags Evrópu, og þeir skulduðu 30 millj. kr. í vöruskiptagjaldeyri, þ.e.a.s., þeir skulduðu nettó 23 millj. kr. í erlendum gjaldeyri. (BÓ: Í hvaða gjaldeyri?) Það er EPU-gjaldeyririnn og clearing-gjaldeyririnn samtals. (Gripið fram í: Nú ruglar ræðumaður því saman, hvort það eru skuldir ellegar hvort þar eru með ábyrgðir.) Nei, nei, þetta er að frádregnum ábyrgðum. Þetta er gert á sama hátt og bankarnir gera gjaldeyrisaðstöðu sínu upp, að frádregnum ábyrgðunum. Við vitum báðir, sem erum þessum málum kunnugir, að það hefur lengi verið til siðs í bönkunum hér að gera gjaldeyrisaðstöðuna þannig upp, að ábyrgðirnar séu dregnar frá.

Þetta eru þær opinberu tölur, sem fyrir liggja um þetta mál. Og það er alveg óþarfi fyrir núverandi og fyrrverandi viðskmrh. að þykjast ekki hafa heyrt getið um þessar tölur. Þær eru sannar. Þær liggja fyrir í opinberum skýrslum. Ég skal lesa upp tölurnar aftur, ef þeir kynnu að hafa gleymt að líta á þessa staðreynd, sem ég trúi varla. Þær eru svona: Gjaldeyrisinneignin í dollurum er 102 milljónir, gjaldeyrisskuldin í EPU-gjaldeyri er 95 millj., gjaldeyrisskuldin í etearing-gjaldeyri er 30 millj., svo að heildarniðurstaðan er 23 milljóna skuld. Nú má geta nærri, hvort búast má við því, að í kjölfar þessarar skuldar muni fylgja stóraukning á jáum hjá bönkunum og minnkun á neium. Þá eru þessir heiðursmenn, sem nú stjórna viðskiptamálunum, ekki eins varkárir í fjármálum og viðskiptamálum og þeir hafa þótzt vera — það verð ég að segja — ef meiningin er nú að stórauka innflutninginn og skuldirnar.

Nú gæti enn verið um það að ræða, að þrátt fyrir þessa skuld hafi nú gjaldeyrisaðstaðan farið batnandi á s.l. ári. Við gætum sagt, að það væri ástæða fyrir breyttri stefnu í þessum málum, ef skuldin hafi verið enn meiri fyrir ári, og það gefi tilefni til þess að vona, að jáunum mundi nú fjölgað og neiunum fækkað. En fyrir réttu ári, þ.e. í októberlok 1952, var gjaldeyrisaðstaðan þessi: Inneign í dollurum 36 milljónir, skuld í EPU-gjaldeyri, gjaldeyri Greiðslubandalags Evrópu, 31 millj., og skuld í clearing-gjaldeyri 22 milljónir. Heildarniðurstaðan var neikvæð, nettóskuld erlendis 23 millj., nákvæmlega sama upphæð. Á s.l. ári hefur gjaldeyrisaðstaðan því staðið nákvæmlega í stað, ekki batnað um eina milljón. Mig langar til þess að spyrja, hvort það sé meining hæstv. ríkisstj. að fylgja þessari þróun eftir með fjölgandi jáum hjá bönkunum og fækkandi neium við innflutningsleyfabeiðnum. Það væri mjög fróðlegt fyrir alþingismenn og allan almenning að fá um það að vita.

Raunar gefur þessi staðreynd, að gjaldeyrisaðstaðan hefur staðið í stað á s.l. ári, þ.e. skuldin hvorki minnkað né vaxið, ekki rétta hugmynd um hina raunverulegu þróun málanna, vegna þess að Marshallviðskiptin hafa mjög veruleg áhrif á gjaldeyrisaðstöðuna. Þess vegna er mjög athyglisvert að virða fyrir sér innkominn gjaldeyri og útlátinn gjaldeyri á fyrstu tíu mánuðum þessa árs. Tölurnar um hann eru þessar:

Í mánuðunum janúar–október 1953 er innkominn gjaldeyrir 766 millj. kr., en útlátinn gjaldeyrir 841 millj. kr. Útlátinn gjaldeyrir hefur verið 75 millj. kr. meiri en innkominn gjaldeyrir. Það hefur m.ö.o. verið halli á gjaldeyrisviðskiptunum um 75 millj. kr. á fyrstu tíu mánuðum ársins. Ástæðan til þess, að þessi halli kemur ekki fram í auknum gjaldeyrisskuldum erlendis, er auðvitað Marshallviðskiptin.

Þetta eru þær raunverulegu efnahagslegu staðreyndir, sem við okkur blasa á þeim sömu dögum sem hæstv. ríkisstj. leggur fram frv., sem hún segir að tákni tímamót í viðskiptasögu landsins. Frv. gæti því aðeins táknað tímamót, að von væri á stórauknum innflutningi. Og nú vil ég fá að vita: Er það meining hæstv. ríkisstj. að túlka þessar staðreyndir, sem ég nú hef verið að lýsa, á þann hátt, að von megi vera á stórauknum innflutningi til landsins?

Annað atriði í frv. er í raun og veru miklu þýðingarmeira, en það er, að fjárfestingareftirlitið er afnumið að talsverðu leyti og aukið frjálsræði manna til þess að byggja sér íbúðarhús. Hámark þeirrar íbúðarstærðar, sem má byggja án leyfis fjárhagsráðs, er hækkað verulega.

Um þetta er það að segja, að eftirlit fjárhagsráðs á undanförnum árum mun hafa verið mjög haldlítið. Það mun alls ekki hafa náð tilgangi sínum. Fjárhagsráð hefur haldið illa á málum að því leyti, að það hefur ekki fylgt því eftir, að settar reglur væru haldnar. Það verkar auðvitað mjög spillandi á allan hugsunarhátt almennings og virðingu fyrir lögum og reglum, að settar skuli reglur af opinberum aðilum, sem síðan er illa framfylgt, jafnvei alls ekki. Þess vegna held ég,að breytingin til batnaðar á þessu sviði sé í raun og veru miklu minni en stafirnir á pappírnum gefa tilefni til. Hitt er annað mál, að þessari breytingu ber hiklaust og tvímælalaust að fagna. Starfsemi fjárhagsráðs undanfarin ár hefur verið eins og lamandi hönd á byggingarstarfseminni, sérstaklega vegna þess, að fjárhagsráð hefur haldið illa á þessum málum, eins og ég hef margoft rakið hér áður, þegar þau hafa verið til umr. Þess vegna mátti búast við því, að um leið og afskipti þess af þessum málum mundu minnka, þá mundi ástandið í þessum málum batna fyrir almenning.

Heildardómur minn um frv. er því sá, að í því felist næsta lítil breyting á núverandi ástandi. Breytingin er aðallega sú, að mönnunum, sem hafa yfirstjórnina með höndum, er fækkað úr fimm ofan í tvo.

Hæstv. ráðh. lagði á það mikla áherzlu, að það væru grundvallaratriði í þessu frv., að nú skyldi innflutningurinn vera frjáls, en það þarf að bæta því við, að hann er frjáls samkv. reglugerð, sem ríkisstj. setur hverju sinni. Ég vil minna á, að samkv. gildandi lögum er innflutningurinn frjáls á þeim vörutegundum, sem hann á annað borð er frjáls á, samkv. reglugerð, sem fjárhagsráð setti. Munurinn er m.ö.o. enginn annar en sá, að nú á ríkisstj. að setja reglugerðina, en áður setti fjárhagsráð hana. Fjárhagsráð hefur heyrt undir alla ríkisstjórnina og mun auðvitað enga reglugerð hafa sett nema í ful1u samráði við hana. Þetta er öll breytingin, sem á sér stað. Það breytist, hver skrifar undir reglugerðina. Þótt starfsmönnunum eða ráðsmönnunum verði fækkað úr fimm ofan í tvo, þá er bara spurningin, hvort starfsmönnum stofnunarinnar verði ekki fjölgað jafnmikið í staðinn. Ef það er rétt, að þessir menn hafi verið störfum hlaðnir, og verkefnin minnka ekki svo gífurlega mikið, þá virðist hafa verið illa á málunum haldið þarna hingað til, ef það er allt í einu hægt að láta þrjá menn, sem hafa haft fullt starf og verið störfum hlaðnir, fara, án þess að nokkur nýr maður komi í staðinn. Þess vegna vildi ég leyfa mér að ljúka máli mínu á því að beina þeirri spurningu til hæstv. viðskmrh., hvort nokkur áætlun hafi verið gerð um það, hversu mikið muni sparast í sambandi við þessa breytingu. Ég trúi ekki öðru en að ríkisstj. vandi málatilbúnað sinn svo, að hún geri sér grein fyrir því, með hvað miklu starfsliði hún ætlar að reka þá stofnun, sem hún er hér að leggja til að komið verði upp, og hver er niðurstaðan af þeirri áætlun. Hversu mikið ætlar ríkisstj. sér að spara með þessari breytingu, hversu marga menn og hversu mikinn kostnað? Það þætti mér og vafalaust mörgum öðrum mjög fróðlegt að fá skýrar upplýsingar um. Ég efast ekki um, að hæstv. viðskmrh. sé reiðubúinn til að gefa þær, ef hann hefur þær á reiðum höndum.