08.10.1953
Efri deild: 5. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í C-deild Alþingistíðinda. (2797)

32. mál, vegalög

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Með þessu litla frv., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 32, fer ég fram á það, að vegur frá Ólafsfirði um svo kallaðan Ólafsfjarðarmúla til Dalvíkur verði tekinn í þjóðvegatölu. Það er orðið langt síðan farið var að hreyfa þessu máli og byrjað að fara fram á það við mig að flytja till. um það, að fyrirhugaður vegur þarna yrði tekinn í þjóðvegatölu. Ég hygg, að það hafi verið séra Ingólfur Þorvaldsson í Ólafsfirði, sem hreyfði þessu fyrst í blaðagreinum, og það eru orðin mörg ár síðan, — ég man nú ekki, hvaða ár það var, — og síðan hefur málinu í raun og veru verið haldið vakandi.

Ég skal játa það, að til þessa hef ég tekið fremur dauft í þetta mál, sem sést m. a. á því, að ég hef ekki flutt till. um þetta fyrr. Ástæðan til minnar tregðu hefur verið sú, að þótt ég sé ekki verkfræðingur og sjálfsagt lítið dómbær um þá hluti, þá hefur mér litizt illa á þessa leið. En þess er þó að geta, að ég hef aðeins séð hana frá sjó, ákaflega oft farið í bát meðfram Ólafsfjarðarmúla og ekki litizt á hann og ekki langað til að ganga þar uppi eða aka. En kunnugir menn segja, að leiðin sé miklu óálitlegri að sjá hana af sjó en raunverulegt sé, og það vissi ég, að tveir menn gengu þetta í vor, og töldu þeir báðir, að það væri engum vandkvæðum bundið að leggja þarna veg. Við þm. Eyf. höfum þó ekki alveg daufheyrzt við óskum Ólafsfirðinga í þessu efni; ég hygg, að það hafi verið árið 1950, á þinginu þá, sem við bárum fram þáltill. um að skora á ríkisstj. að láta athuga vegarstæði þarna, og þetta var gert. Það kom verkfræðingur frá vegamálaskrifstofunni og athugaði þetta vegarstæði, hann taldi vel fært að leggja þarna veg og gerði um það kostnaðaráætlun, og ég vonast eftir, að innan mjög lítils tíma, vonandi áður en ég lýk máli mínu, þá fái ég þessa grg. frá vegamálaskrifstofunni. Kunnugir menn telja, að það geti verið um tvær leiðir að ræða eða tvö vegarstæði, en þessi rannsókn vegamálaskrifstofunnar mun aðeins hafa verið gerð á annarri þessari leið, og þeirri erfiðari þ. e. a. s., hún liggur framan í múlanum, sú leið, og yfir svo kallaða Ófærugjá, og af nafninu geta menn, þó að ókunnugir séu, hugsað sér, hvernig sú gjá muni vera. En það mun ekki vera neinum sérstökum vandkvæðum bundið að leggja veg ofar, fyrir ofan alla kletta, og þá segja þeir, sem þar hafa farið, að það sé ákaflega auðvelt að leggja veg þar. Þar eru engar ófærur og engar hættur.

Það hefur svo ekkert frekar gerzt í þessu máli þangað til í haust, að það skeður, sem getið hefur verið um opinberlega og líklega flestir hv. þm. hér í d. vita, að Ólafsfirðingar sjálfir byrjuðu á því að leggja þarna veg af frjálsu framtaki. Það var ekki kaupstaðurinn, heldur einstakir menn. Og þegar svo er komið, að verkið er þannig hafið, þá finnst mér alveg sjálfsagt að taka þessa leið í þjóðvegatölu og það af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er auðvitað rétt að koma á móti Ólafsfirðingum, sem leggja fram fé og fyrirhöfn nú þegar í þetta verk. Það er a. m. k. meiri ástæða til að sinna þeirra máli eitthvað en hinna, — sem algengast er, — sem aðeins heimta af ríkinu, fyrst, að vegurinn sé tekinn í þjóðvegatölu, og síðan lagður af ríkinu að öllu leyti. Hin ástæðan, sem ég tel vera fyrir því, að nauðsynlegt sé að taka þennan fyrirhugaða veg í þjóðvegatölu, er sú, að það er í raun og veru ekkert vit í því, að einstakir menn séu að leggja þennan veg, án þess að vegarstæðið hafi verið ákveðið af vegamálastjórninni. Það getur hæglega farið svo, að þeirra verk verði ónýtt, — að þótt ákveðinn yrði þarna vegur af vegamálastjórninni og Alþ., þá er ekkert víst, að hann yrði ákveðinn nákvæmlega þar, sem þessir einstaklingar eru byrjaðir á að leggja hann. Þess vegna tel ég, að það þurfi að hraða þessu máli.

Það eru ekki einasta Ólafsfirðingar, sem hafa áhuga á þessu máli, heldur hefur það komið í ljós, að nærliggjandi bæir og sveitir hafa það einnig og hafa heitið fjárstuðningi, en ég veit þó t. d. um nágrannahreppinn, Dalvíkurhrepp, að hans stuðningur er því skilyrði bundinn, að vegarstæðið verði ákveðið af vegamálastjóra eða hans starfsmönnum. Einnig hefur þess verið getið í blöðum, að heitið hafi verið fé úr ríkissjóði í þessa framkvæmd, og mun það rétt vera. Ég geri ráð fyrir, að það sé af vegaviðhaldsfé, því að engin fjárveiting er til þess ætluð á fjárlögum. Ef farið væri nú að veita fé úr ríkissjóði til þessarar framkvæmdar og svo einnig af t. d. Siglufjarðarkaupstað og Akureyri og kannske fleiri aðilum fyrir utan Ólafsfirðinga sjálfa, þá þætti mér miklu vissara, að vegarstæðið væri rannsakað enn á ný og alveg ákveðið, hvar vegurinn á að liggja, og það held ég verði bezt tryggt með því að taka fyrirhugaðan veg þarna í þjóðvegatölu. Þá hlýtur það að vera næsta skrefið, að vegamálastjórnin ákveði legu vegarins.

Ég þykist nú ekki þurfa að fjölyrða þetta frekar, en leyfi mér að leggja til, að frv. verði vísað til hv. samgmn. að þessari umr. lokinni, og vildi ég leyfa mér að vænta þess, að n. afgreiddi málið, hvort sem meiningin er að gera víðtækari breyt. á vegalögunum eða ekki, og það af þeim ástæðum, sem ég hef greint.