26.02.1954
Efri deild: 53. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í C-deild Alþingistíðinda. (2810)

151. mál, óréttmætir verslunarhættir

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ekki margbrotið og þarf ekki langra skýringa, vegna þess að það er gerð mjög ýtarleg grein fyrir því í grg., hvers vegna það er flutt. Það er farið fram á það, að viðskmrh. sé heimilt að veita þeim mönnum, sem hafa verzlunarleyfi, leyfi til þess að selja listmuni og bækur á frjálsu uppboði. Þetta frv. er borið fram vegna þess, að eins og löggjöf er nú háttað, er það ekki talið heimilt. og frv. er borið fram fyrst og fremst eftir ósk manns, sem hefur haft talsvert mikið af listmunum hér til sölu og hefur sjálfsagt að sumu leyti unnið mjög þarft verk á því sviði, flutt ýmsa góða listmuni hingað til lands, og þetta frv. er borið fram til þess, að honum og þá öðrum, sem tækju upp sams konar eða svipaða verzlunarhætti, sé heimilt að halda þessi uppboð, sem þetta frv. gerir ráð fyrir að heimila, ef að lögum verður.

Það má taka það fram, að slík uppboð erlendis eru mjög algeng og þykja til hægðarauka bæði fyrir þá, sem vilja selja listmuni, og eins fyrir þá, sem vilja kaupa.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta litla frv., en óska eftir því, að því verði vísað til 2. umr. og allshn.