29.03.1954
Efri deild: 72. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í C-deild Alþingistíðinda. (2819)

186. mál, læknaskipunarlög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil ítreka það, að ég tel hér mjög farið aftan að réttum siðum um meðferð mála, vegna þess að þetta er slíkur lagabálkur, að vitanlega átti heilbrmrn. og heilbrmrh. að segja til um, hvort þeir aðilar vildu taka málið að sér, og þá fyrst og fremst ráðh., nema því aðeins að þn. vilji gera málið að sínu máli, sem mér virðist fjarri vera. En að sjálfsögðu verður að ætlast til þess, að einstakir embættismenn, sem að verulegu leyti starfa á ábyrgð hlutaðeigandi ráðh., láti sinn boðskap slíkan sem þennan koma til Alþ. fyrir milligöngu hans og að ráðh. gefist færi á því, áður en embættismennirnir taka að sér uppástunguréttinn um löggjöf, að kynna sér málið til hlítar og setja á frv. sitt mark, ef hann telur ástæðu til. Og eins og hv. 1. þm. N-M. réttilega gat um, þá er þetta mál einmitt sérstaklega slíks eðlis, að það er fullkomin ástæða til þess, að ráðh. hafi af því afskipti og að ekki sé tekið fram fyrir hendurnar á þeirri n., sem hv. þm. sagði að starfaði að þessu máli.

Ég tel því, að n., án þess að kynna sér óskir ráðherrans í þessu, hafi ekki farið rétt að.