18.12.1953
Sameinað þing: 30. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (2836)

133. mál, frestun á fundum Alþingis

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég vil út af þessum ummælum hv. 4. þm. Reykv. segja það, að ég tel, að ef þessi till. er samþykkt, þá hafi stjórnin heimild til að gefa út brbl. Hv. þm. spyr um, hvort stjórnin ætli að nota þá heimild. Það getur hugsazt, að hún noti hana. Og ég tel það einmitt kost, að hún hafi slíka heimild. Margir þm. eru búsettir utan Reykjavíkur, og það getur verið mjög óþægilegt fyrir þá, að kveðja þurfi saman þing, ef grípa þarf til einhverrar lagasetningar. Þetta er alveg sama spurningin, sem hv. 4. þm. Reykv. vekur hér, eins og fram kom af hendi hv. 2. þm. Reykv., ef ég man rétt, 1948, þegar þáverandi forsrh., Stefán Jóhann, fór fram á sams konar heimild og ég fer fram á núna. Hv. 2. þm. Reykv. gat þá alveg réttilega um heimild stjórninni til handa til útgáfu brbl. Mig rekur ekki minni til, að hv. 4. þm. Reykv. hafi beitt sér á móti slíkri samþykkt þá, og lágu þó mál svipað fyrir að ýmsu leyti þá og nú. Það var einmitt dregið í efa, að þær lagaheimildir, sem þingið hafði gefið, nægðu til úrlausnar á þeim viðfangsefnum, sem risið gætu, og af þeim ástæðum jafnvel gert ráð fyrir, að til brbl. þyrfti að koma. Ég vil ekki, að menn hafi um það mismunandi hugmyndir, hvaða skilning stjórnin leggur í þetta, og heldur ekki hvernig hún mundi nota þær heimildir, ef henni þætti við þurfa.