27.10.1953
Neðri deild: 11. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í D-deild Alþingistíðinda. (2887)

59. mál, héraðsrafmagnsveitur ríkisins

Pétur Ottesen:

Fyrsti flm. þessarar þáltill., hv. 2. þm. Skagf., Jón Sigurðsson, er fjarverandi, og vil ég þess vegna láta nokkur orð fylgja þessari till., þegar hún nú er tekin hér fyrir.

Tilgangurinn með þessari till. er sá að koma því til leiðar, að gerð verði nokkur athugun á tveimur liðum í gjaldskrá héraðsrafmagnsveitna ríkisins. Það er að því er snertir fastagjald af gripahúsum og fastagjald vegna vélanotkunar skv. ákvæðum þessarar reglugerðar.

Því er nefnilega þannig varið, að fastagjald af gripahúsum er hið sama og fastagjald til dæmis að taka af félagsheimilum, skólum, sjúkrahúsum, gistihúsum og þess háttar byggingum. Hér er um mjög ólíka gjaldstofna að ræða. Fastagjaldið af gripahúsum ætti að vera mun lægra, enda hefur nokkuð á því borið, að þetta hafi orðið þess valdandi, að bændur hafa ekki treyst sér kostnaðar vegna að taka rafmagn í útihús, nema þá það allra minnsta eða ófullnægjandi miðað við þær þarfir, sem þar eru fyrir hendi. Okkur flm. virðist því, að full ástæða væri til, að ný athugun færi fram á þessum lið gjaldskrárinnar eða reglugerðarinnar um gjaldskrá héraðsrafmagnsveitna ríkisins.

Hinn liðurinn er um það, að það virðist ekki vera á fullri sanngirni reist að setja fastagjald, sem nemur allt að 1200 kr. á ári, á hvern rafmagnsmótor, sem notaður er til heyblásturs, þegar þess er gætt, að þessir mótorar eru ekki í notkun nema sem svarar tveimur til þremur mánuðum á ári, en fastagjaldið hins vegar svo hátt sett eins og hér hefur verið lýst og tekið allt árið. Auk fastagjaldsins verður svo að sjálfsögðu að greiða samkv. gjaldskránni það rafmagn, sem notað er við heyblástur. Þessar ástæður virðast okkur fim. vera þess eðlis, að fullréttmætt sé, að þessi atriði gjaldskrárinnar verði tekin til nýrrar athugunar. Súgþurrkun eða heyblástur er ákaflega nauðsynleg og hefur leyst mikinn vanda í sambandi við heyþurrkunina, og er þess vegna mjög mikils um vert, að mönnum sé ekki gert allt of erfitt fyrir um það að nota þessa aðferð til þess að bjarga heyinu frá skemmdum. En með því fyrirkomulagi, sem hér er á um þetta efni, hefur nokkuð á því borið, að menn telja sér bundna of þunga bagga með því að hafa þessa tilhögun um gjald fyrir þessa þjónustu.

Ég vildi svo leyfa mér að óska þess, að þessu máli verði vísað til landbn.