17.02.1954
Sameinað þing: 33. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (2918)

100. mál, milliþinganefnd í heilbrigðismálum

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Þessi till., sem hér liggur fyrir, er, eins og hún ber með sér, um tvö atriði: Að gera till. um fjölda, stærð og staðsetningu sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila í landinu. Og í annan stað að gera till. um almennar ráðstafanir til eflingar heilsuvernd og heilbrigði með þjóðinni.

Það er ekki ýkjalöng grg., sem fylgir þessari till., en ég álít, að hana þurfi ekki lengri. Ef einhverjir eru þeirrar skoðunar hér á Alþingi, að ekki sé þörf á að samþykkja þessa till. og vinna þetta verk, sem þar er gert ráð fyrir, þá er ég fús til að ræða það nánar, en sé ekki ástæðu til þess við framsögu og án þess að fram komi mótmæli að tefja hv. Alþingi á því að reifa málið frekar.

Ég óska eftir, að málinu sé vísað til allshn. og síðari umr., og væri æskilegt, þar sem liðið er á þing og nokkur dráttur hefur orðið á því, að till. hafi verið afgreidd hér, að hægt væri að hraða afgreiðslunni í allshn.