12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (2935)

100. mál, milliþinganefnd í heilbrigðismálum

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Það, sem gaf mér nú tilefni til að biðja um orðið, var tvennt, sem kom hér fram við fyrri hluta umr.

Annað var það, að það væri nægilegt verkefni fyrir slíka nefnd sem þessa að koma sér niður á það, hvar fjórðungssjúkrahús fyrir Austfirði ætti að reisa. Ég held nú, að það sé ekki svo nærri, að af þeim sökum sé ástæða til að skipa nefnd með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir, því að að sjálfsögðu þyrfti ríkisstj. eða viðkomandi héruð að hafa ákveðinn og meiri undirbúning, áður en að því verki er snúið. En það er í raun og veru það eina, eins og fram kom, sem ekki er að nokkru búið að taka ákvarðanir um að því er snertir staðsetningu sjúkrahúsanna.

Viðvíkjandi hinum þættinum, þeirri almennu fræðslu um heilbrigðishætti og heilsuvernd, er það að segja, að mér skildist nú á hv. flm. þessarar till., að það væri aðallega mataræði og manneldi, sem hann hefði í huga í þessu sambandi. Ég vildi nú leyfa mér að benda hv. þm. á, að til þess að hefja aðgerðir í því efni er alveg fullkomlega óþarfi að skipa nokkra nefnd. Það er til í lögum, ég ætla frá 1945, ákvæði um manneldisráð, sem beinlínis er ætlað að hafa með höndum manneldisrannsóknir og rannsóknir á fæðutegundum. Um nokkurra ára skeið var unnið mikið og gott verk í þessum efnum og að verulegu leyti byggt á tillögum og undirbúningi Skúla prófessors Guðjónssonar, sem starfaði að undirbúningi þessa máls. Og það voru að ýmsu leyti mjög merkilegar upplýsingar, sem manneldisráð undir framkvæmdastjórn Júlíusar Sigurjónssonar, ef ég man rétt, hafði innt af höndum. En einhverra hluta vegna — ég held, að það hafi verið í kringum árið 1950, þegar núverandi stjórnarflokkar tóku við — féll þessi starfsemi niður með öllu. Ég vildi leyfa mér að benda hæstv. heilbrmrh. á að fletta upp í þessum lögum frá 1945, því að ég efast ekki um, að hann sér það, að hann hefur nægar heimildir í þessu efni og góðan og sæmilega traustan grundvöll að byggja á.

Ég vék að því hér í fyrri ræðu minni, að ég áliti, að rétt væri að vísa þessari till. til ríkisstj., og bjóst við því, að það mundi koma till. um það, eftir því sem einn hv. þm. hafði talað hér. Það hefur nú ekki orðið í staðinn fyrir það hefur hann flutt brtt. En mér þykir rétt að leggja til, að þessu máli verði vísað til hæstv. ríkisstj. til athugunar, byggt á þeim forsendum, sem ég hef gert hér grein fyrir, að verkefnið sé ekki sérstakt fyrir þessa nefnd, og að allt, sem henni er ætlað að gera, beri eftir eðlilegum hætti öðrum aðilum að vinna bæði að framkvæmd og undirbúningi á.