13.04.1954
Sameinað þing: 49. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (2964)

207. mál, kosningar til Alþingis og lög um sveitarstjórnarkosningar

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Í till. þeirri til þál., sem hér liggur fyrir á þskj. 839 og flutt er af hv. þm. A-Húnv., hv. þm. Barð., hv. þm. A-Sk. og mér, er það lagt til, að Alþ. kjósi 7 manna nefnd til þess að endurskoða lög um kosningar til Alþingis og lög um sveitarstjórnarkosningar, en gildandi lög um þetta efni eru nr. 80/1942 og nr. 81/1936.

Það hefur komið fram á þessu þingi, að margir hafa áhuga fyrir endurskoðun og breytingu kosningalaga, og eru áður komnar fram uppástungur um, að endurskoðunin verði falin sérstakri nefnd. Þar sem nú er komið að þinglokum, mun það að öllu athuguðu vera svo, að mestar líkur séu til, að till. um slíka endurskoðun nái fram að ganga í því formi, sem við nú flytjum hana.

Í till. er gert ráð fyrir, að Alþ. kjósi sjálft nefndina á breiðum grundvelli og að henni verði eingöngu falið að endurskoða kosningalögin.

Þar sem mjög er orðið áliðið þings, legg ég ekki til, að till. verði vísað til nefndar, en vænti þess, að henni verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr.