13.04.1954
Sameinað þing: 49. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (2967)

207. mál, kosningar til Alþingis og lög um sveitarstjórnarkosningar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þar sem ég er einn af flm. þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir, þá þykir mér ástæða til að segja örfá orð, einkum út af þeim ræðum, sem hér hafa verið haldnar.

Það hefur komið í ljós að undanförnu smátt og smátt, að á okkar kosningalögum eru ýmsir gallar, sem nauðsynlegt er að leiðrétta. Skal ég nefna sem dæmi það, sem er mjög áberandi í sambandi við bæjar- og sveitarstjórnarkosningar, að þar getur hvort tveggja átt sér stað, nú á þessu ári, að talsvert miklum hóp af kjósendum er bægt frá því með lögum að taka þátt í bæjar- eða sveitarstjórnarkosningum, ef þeir hafa flutt á milli staða, og hitt getur líka átt sér stað, að aðrir kjósendur, sem hafa flutt á milli staða, geti kosið á tveim stöðum á sama árinu. Ég nefni þetta sem dæmi til sönnunar því, að það er nauðsynlegt að endurskoða okkar kosningalög, og er það í rauninni ekkert undarlegt, vegna þess að í aðalatriðum eru þau orðin fullra tuttugu ára gömul, en þetta er mikill lagabálkur og eðlilegt, að hann sé endurskoðaður nú. Hins vegar gat það orkað tvímælis, hvort það var nauðsynlegt að setja í þetta mþn. eða fela ríkisstj. að láta sína starfsmenn, stjórnarráðsstarfsmenn, framkvæma þessa endurskoðun fyrir næsta þing.

En út af því, sem hér hefur komið fram hjá hv. 1. landsk. og hv. 1. þm. Eyf., þá vil ég segja það, að ég sé enga ástæðu til að vera að blanda saman þeim tveimur málum, sem hér er um að ræða, því að þetta er, eins og allir sjá, ný till. og stendur ekki í neinu sambandi við þá till., sem þeir aðallega ræddu. Hún var upphaflega flutt á allt öðrum grundvelli en hér er um að ræða, og inn í hana átti, bæði eins og hún var upphaflega og eins og henni var skilað frá allshn., að blanda endurskoðun á kjördæmaskipuninni, sem liggur fyrir nefnd, sem búin er að starfa í mörg ár, og virðist liggja beint fyrir að heimta, að sú n., sem er stjórnarskrárnefndin, skili áliti. Þau mál, sem þar er um að ræða, eru þess vegna alveg utan við það verksvið, sem hér er ætlazt til að þessi n., sem við flytjum hér till. um, eigi að fjalla um. Hitt má segja að sé kannske eðlilegur ágreiningur, varðandi skipun þessarar nefndar, hvort það skuli vera fleiri eða færri menn í henni, og eins hitt, hvort þeir skuli vera tilnefndir af þingflokkunum eða kosnir af Alþ. En okkur sýndist það nú, flm. öllum, að það væri eðlilegt að hafa á því þann sama hátt og venjulega hefur verið um milliþinganefndir, að þessi n. væri kosin hlutfallskosningu eftir venjulegum reglum hér á Alþ.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál, en vil leggja áherzlu á það, að hv. þm. séu ekkert að blanda saman hér þeim tveimur málum, sem hv. 1. landsk. lagði áherzlu á að blanda hér saman í sinni ræðu, og ég vænti þess, að hæstv. forseti geti séð svo til, að þessi till. geti gengið hér í gegn án þess að fara til n. Þetta er ákaflega einfalt mál, og þar sem nú er komið að þinglokum, þá er nauðsynlegt, að það séu hafðar hraðar hendur á því, ef menn ætlast til, að þessi till. nái hér samþykki.