19.10.1953
Sameinað þing: 9. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í D-deild Alþingistíðinda. (3065)

20. mál, endurskoðun varnarsamnings

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, snertir stórmál, og er full ástæða til að ræða hana ýtarlega. Ég mun þó ekki lengja umr. mjög að þessu sinni. og er ástæðan aðallega sú, að við þm. Þjóðvfl. höfum borið fram þáltill. hér á Alþ., þar sem krafizt er uppsagnar hins svo nefnda varnarsamnings, svo fljótt sem lög leyfa, en jafnframt lagt til, að gerðar séu nú þegar margvíslegar ráðstafanir til að koma eftir föngum í veg fyrir spillingu og margvíslegt böl, sem leiðir af dvöl hins erlenda hers í landi okkar. Munum við skýra greinilega stefnu Þjóðvfl. í þessum málum, þegar tillaga okkar á þskj. 21 kemur til umr., en við höfum óskað þess, að fyrri hluta umr. um þá till. verði útvarpað. Ég vil þó ekki með öllu láta hjá líða að gera grein fyrir afstöðu minni og flokks míns til till. þeirrar, sem hér liggur fyrir og tveir hv. þm. Alþfl. og forustumenn, ritari hans og formaður, eru flutningsmenn að.

Fyrst vil ég geta þess, sem ég tel vel um till. og jákvætt frá okkar sjónarmiði, en því miður hafa hv. flm. búið svo um hnútana, að um þau atriði hlýt ég að verða fáorðari en ég þó gjarnan vildi. Ég vil í þessu sambandi aðeins minnast á nokkur atriði í ræðu hv. 1. landsk. (GÞG), sem talaði hér áðan fyrir till. Hann beindi nokkrum spurningum til okkar þjóðvarnarmanna, og ég mun svara þeim að nokkru í því, sem ég segi um afstöðu okkar hér á eftir, en vil þó drepa strax á örfá atriði.

Hv. 1. landsk. lýsti sig andvígan hlutleysi og taldi það bæði heimskulegt og háskalegt. Litlu síðar í ræðu sinni sagði hann alveg réttilega: Aðalatriðið er, hverjir eru hagsmunir okkar Íslendinga sjálfra. — Auðvitað hljótum við að ræða þessi mál fyrst og fremst á þessum grundvelli. En ég vil spyrja hv. frsm.: Eru það hagsmunir okkar að skipa okkur í sveit með ákveðnum stórveldum, ákveðinni stórveldablokk, vísum styrjaldaraðila, ef ófrið skyldi bera að höndum? Veit hv. þm. ekki, hvernig nútíma styrjöld er háð? Hún er háð ekki aðeins með beinni innrás í land, heldur er hún háð með gnægð flugvéla og margs konar sprengna, þ. á m. getum við búizt við kjarnorkustyrjöld. En hver er þá vörnin, sem við eigum í vændum, þegar slík styrjöld er háð, þó að hér sé eitthvað af liði í landi? Ég efast um, að hann hafi gert sér það fyllilega ljóst eða viljað gera sér það fyllilega ljóst, að vörnin fyrir flugvélaárásum og fyrir kjarnorkuárásum, — vörnin, sem þjóðin sjálf fær fyrir þessum árásum, er harla lítil, jafnvel þó að hér sé her í landi eða einhverjir tilburðir til varnar.

Hann spurði einnig, hv. þm., hvað við þjóðvarnarmenn vildum að gert væri, ef styrjöld bæri að höndum. Vitanlega verður hverju sinni að taka afstöðu til mála eins og þau liggja fyrir, og ég vil svara þessu í sem allra stytztu máli með þeim orðum, sem hann sjálfur sagði: Það verður vitanlega að láta hagsmuni Íslands hverju sinni ráða því, hvernig við tökum afstöðu gagnvart hverjum þeim vanda, sem að höndum ber. — Nú viðurkenndi hv. þm. í ræðu sinni, að styrjaldarhætta hefði farið minnkandi, og hann notaði það sem eina af meginröksemdunum fyrir því, að endurskoða þyrfti varnarsamninginn, eins og þeir tillögumenn fara fram á. En eigum við að láta herlið dvelja hér árum og áratugum saman, eða svo að ég segi ekki það mikið, eigum við að taka á okkar herðar að reka hér og halda við stórkostlegum hernaðarmannvirkjum, ef til vill svo að áratugum skiptir? Er það í okkar þágu eða í þágu einhverra annarra? Mig langar til, að hv. flm. þessarar till. svari því hiklaust og umbúðalaust.

Hv. þm. talaði mikið um það, að ef við værum hlutlausir, þá mundum við ekki geta verzlað við önnur lönd, við yrðum útilokaðir frá því að verzla við styrjaldaraðila. Hann lagði töluverða áherzlu á þetta verzlunarsjónarmið. Ég held nú, að reynslan sýni, að það sé ekki veruleg hætta á því í styrjöld, að við getum þá ekki komið út afurðum okkar. Það hefur reynsla síðustu styrjalda sýnt, og þetta virðist því vera hálfgerð tylliástæða.

Hv. þm. sagði eitthvað á þá leið, að varnir landsins yrðu að vera svo öflugar, að árásarhættu sé bægt frá. En hvað mundi þurfa til þess? (Gripið fram í.) Var það ekki? Var það misskilningur? En ég hygg þó, að þeir, sem telja, að hér verði að halda uppi vörnum, hljóti að halda fram þeirri röksemd, að slíkar varnir eigi og verði að vera svo öflugar, að ekki sé veruleg hætta á árás, eða að minnsta kosti að það stórauki ekki árásarhættuna að hafa hér litlar og lítilfjörlegar varnir. En varnir, sem mundu duga til þess að verja ekki aðeins landið, heldur íslenzku þjóðina, yrðu að vera svo öflugar, að þó að landið allt væri eitt virki, þá hygg ég, að það mundi ekki duga til.

Ég skal svo snúa mér aftur að þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir, og vil þá fyrst geta þess, eins og ég áðan sagði, sem ég tel ástæðu til að fagna í till., en það er einkum það atriði, að hv. flm. eru þeirrar skoðunar, að nauðsyn beri til að loka herstöðvunum og banna þar alla almenna umferð. Að vísu má segja, að það dragi dálítið úr fögnuðinum, að orðalagið á þessum lið er heldur þokukennt, eins og raunar fleira í till., en þó virðist það vaka fyrir hv. flm. að koma í veg fyrir stöðugt ráp hermanna um allar trissur og margvísleg meira en þarflaus samskipti hermanna og Íslendinga. Og þar eð þessi stefna er í samræmi við ályktun miðstjórnar Alþfl., eins og hv. flm. skýrði frá, þá má líklegt telja, að þinglið flokksins allt fylgi henni fram einart og ötullega. Þegar þess er einnig gætt, að Framsfl., flokkur hæstv. utanrrh., hefur gert svipaða ályktun í þessum efnum, þá mun mega ætla, að þingmeirihluti sé fyrir því, að herstöðvunum verði lokað. Ég vil ekki að óreyndu gera ráð fyrir, að þessar ályktanir fyrrgreindra flokka séu gerðar til þess að sýnast eða sefa óánægða flokksmenn, heldur vænti ég þess, að þar fylgi hugur máli. En á það reynir nú trúlega á þessu þingi, hversu djúpstæður er áhugi hv. alþm. á því að girða fyrir hina margvíslegu ógæfu, sem af því stafar, hve herliðið er látið leika hér lausum hala.

Að öðru leyti en því, sem tekur til lokunar herstöðva, nær till. sú, sem hér liggur fyrir, allt of skammt að mínum dómi, enda byggð á forsendum, sem ég er í mörgum efnum ósamþykkur, þ. á m. þeirri forsendu, að við ekki aðeins séum, heldur einnig að okkur beri að vera í hernaðarbandalagi, en af því leiðir svo það, að við hljótum um langa framtíð að gegna margvíslegum og þungbærum skyldum, sem því eru samfara, þ. á m. vörzlu og viðhaldi alls konar hernaðarmannvirkja. Verður sú starfsemi litlu eða engu fýsilegri í mínum augum, þó að svo sé ráð fyrir gert í þessari till., að Íslendingar hagnist fjárhagslega á slíkri hervirkjagæzlu. Vil ég af þessu tilefni skýra stuttlega afstöðu Þjóðvfl. Íslands til hersetu og þátttöku Íslendinga í hernaðarbandalögum.

Flokkur minn telur, að Íslendingum beri að taka upp að nýju hlutleysisstefnu sína í hernaðarátökum þjóða á milli, þeir eigi að hafna þátttöku í hvers konar hernaðarbandalögum og lýsa yfir ævarandi vopnleysi sínu, þeir eigi því að nota fyrsta hugsanlegt tækifæri til að losna úr hinu svo nefnda Norður-Atlantshafsbandalagi. Þjóðvfl. lítur svo á, að Íslendingum beri að ástunda vinsamleg skipti við allar þjóðir og það eigi að vera keppikefli þeirra og skylda að beita áhrifum sínum í samtökum þjóðanna til eflingar friði og alþjóðlegri réttarvernd hlutlausra smáríkja. Við höfum að vísu heyrt það sagt æði oft, að hlutleysi sé úrelt hugtak, sem reynzt hafi haldlaust í síðustu styrjöld. Það var sagt hérna áðan, bæði af hv. 1. flm. þessarar till. og hæstv. utanrrh. Verjendur hersetu á Íslandi hafa margsagt þetta. Þeir hafa sagt, að það megi ekki láta landið óvarið, yfirlýsingar um hlutleysi og vopnleysi endist skammt til varnar, ef svo skyldi fara, að ný heimsstyrjöld brytist út. Mér vitanlega hefur enginn haldið því fram, að slíkar yfirlýsingar tryggi landið gegn afskiptum í hernaðarátökum stórvelda. Slík trygging er því miður engin til. Ég hef hlýtt á margar ræður og lesið margar greinar, sem formælendur erlendrar hersetu hafa flutt og ritað, en ég hef hvergi komið auga á nein skynsamleg rök fyrir því, að herseta og hervirkjagerð í landinu verði íslenzku þjóðinni nokkur vörn. Vissulega hvílir þó sú skylda á þeim mönnum, sem hafa kallað yfir okkur herlið, að sanna þetta. En þeir hafa látið það ógert. Ég hygg þvert á móti, að herstöðvar á Íslandi séu, eins og komizt hefur verið að orði, fyrir fram pöntuð þátttaka í hugsanlegri komandi styrjöld. Við vitum allt of vel eða getum a. m. k. ráðið af líkum, hvernig ófriður milli hinna mestu hervelda nútímans mundi háður, ef styrjaldarbrjálæði hæfist að nýju. Ófriðarþjóðirnar mundu að sjálfsögðu leggja allt kapp á að vinna herstöðvum óvinanna og samgöngumiðstöðvum eins mikið tjón og framast væri kostur. Það væri að vísu hugsanlegt, að sterku herveldi tækist að verja landið okkar fyrir innrás, en þjóðinni mundi það í rauninni enga vernd geta veitt. Hversu öflugt herlið og hversu stórfelldur vígbúnaður sem hér væri, mundi sennilega ekkert fá varnað því, að kjarnorkusprengjum og öðrum stórvirkum drápstækjum yrði varpað á hið verndaða land. Hervernd mundi því í ófriði ekki aðeins verða íslenzkri þjóð fánýt, heldur verri en engin. Þegar er verndarþjóðin lenti í styrjöld, mundi samband okkar við hana gera land okkar að ófriðarsvæði og þjóð okkar raunverulega að ófriðarþjóð, en það mundi leiða yfir hana allt það böl og alla þá tortímingu, sem því væri samfara. Hið eina, sem íslenzkri þjóð getur verið vernd í, ef ný styrjöld brytist út, er vissulega það að vera sem fjærst herstöðvum og hernaðarátökum.

Þetta eru í mjög stuttu máli þær forsendur, sem við þjóðvarnarmenn byggjum á þá stefnu okkar, að segja beri upp herverndarsamningnum frá 1951 og taka upp að nýju hlutleysis- og vopnleysisstefnu þá, sem Íslendingar fylgdu í utanríkismálum allt fram að þeim örlagaríka degi, er þeir voru flekaðir í hernaðarbandalag það, sem kennt er við Norður-Atlantshaf.

Þar eð ætla má, að brátt gefist tækifæri til að ræða þessi stórmál öll í áheyrn alþjóðar, sé ég ekki ástæðu til að hafa þessi orð miklu fleiri. Á eitt atriði vil ég þó lítillega minnast.

Fylgjendur og forsvarsmenn amerískrar hersetu á Íslandi láta það stöðugt klingja á hverjum þeim manni, sem er andvígur hersetu og bendir á hinar margvíslegu hættur, sem af því stafa, að hann sé í þjónustu annars stórveldis, hann sé leppur og leiguþý Rússa, eins og það er stundum svo fallega orðað. Þó að í hlut eigi menn, sem lýst hafa sig fullkomlega andvíga þeim stjórnarháttum, sem tíðkast austur þar, eru rök verjenda hernámsins, ef rök skyldi kalla, nálega alltaf hin sömu: Þeir menn og þeir flokkar, sem sætta sig ekki við amerískt herlið á Íslandi, jafnvel margs konar yfirtroðslur þess herliðs, eru í rússneskri þjónustu, þeir eru að gera Rússum auðveldara fyrir að hertaka landið, þeir eru að grafa undan frelsi og lýðræði, og fleira mæla þeir álíka spaklega. Því er ekki að neita, að hér eru til menn, sem sjá Rússland í dýrðarljóma og trúa heitt á það stjórnarfar, sem þar ríkir, en hitt er alger ofrausn hjá forsvarsmönnum amerískra herstöðva á Íslandi að vilja gefa Rússum allar þær þúsundir Íslendinga í öllum stjórnmálaflokkum, sem eru andvígar hersetu hér á landi og sjá glöggt þann voða, sem íslenzkri þjóð er búinn af hennar völdum. Það er staðreynd, að ekkert ríki nema Bandaríki Norður-Ameríku hefur krafizt þess á friðartímum að fá herstöðvar á Íslandi. Rússar hafa mér vitanlega aldrei gert kröfur um slíka aðstöðu hér á landi. Ef þeir hins vegar sýndu svipaða ásælni í okkar garð sem Bandaríkjamenn hafa gert, þá er það vissulega skylda okkar að gera þeim skiljanlegt, að íslenzk þjóð vill ekki gera land sitt að fótaskinni erlendra herja eða erlends yfirgangs í einni eða neinni mynd. Því miður hefur glapsýni íslenzkra forustumanna valdið því, að Bandaríkjum Norður-Ameríku hefur ekki verið gert þetta nægilega skiljanlegt. Við þjóðvarnarmenn teljum, að fyrir löngu sé tími til þess kominn, að það verði gert.

Þetta vildi ég sagt hafa um afstöðu Þjóðvfl. til þess stórmáls, sem þáltill. sú, er hér liggur fyrir, fjallar um. Af töluðum orðum mínum leiðir, að ég tel till. ná allt of skammt, en sum atriði hennar eru þó að mínum dómi til bóta frá því, að ekkert væri gert, og er þar þá sérstaklega um að ræða lokun herstöðvanna. Sá er vissulega vilji alls meginþorra Íslendinga að lifa í sátt við allar þjóðir, og sú er vissulega ósk þeirra að leggja sinn skerf fremur til þess að draga úr hatursbálinu en viðhalda því og blása að glóðunum. Það er siðferðisleg skylda okkar Íslendinga að láta ekki sjálfviljugir nota íslenzkt land til að efla eða magna ófriðarbálið, er við vitum að fyrr eða síðar getur hleypt gervöllum heimi í ljósan loga og orðið tortíming allrar siðmenningar.