24.02.1954
Sameinað þing: 35. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í D-deild Alþingistíðinda. (3163)

113. mál, endurskoðun skólalöggjafarinnar

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þessi þáltill. á þskj. 220, sem við hv. þm. V-Húnv. (SkG) leyfum okkur að bera fram, er um það, að hæstv. ríkisstj. verði falið að skipa þriggja manna n. til þess að gera heildarendurskoðun á skólalöggjöf landsins og framkvæmd á reglum hennar.

Í till. er tekið fram, að við endurskoðun þessa skuli lögð á það áherzla að leita á grundvelli fenginnar reynslu af skipan skólamálanna í landinu fyrirkomulags, er sé hvort tveggja í senn vænlegra til giftusamlegs uppeldis og kostnaðarminna fyrir þjóðfélagið en það fyrirkomulag, sem nú gildir.

Með setningu hinnar miklu almennu og að ýmsu leyti merku skólalöggjafar 1946 var skólum landsins falið uppeldi þjóðarinnar í mjög stórum stíl og auknum. Sagt er, að á skólaárinu 1952–1953 hafi fimmti hluti allra landsmanna setið á skólabekk, eða 28600 samtals. Kostnaður fyrir ríki, sveitarfélög og einstaklinga af framkvæmd löggjafarinnar er afar mikill og fer vaxandi ár frá ári. Nálægt því sjöunda hver króna, sem kemur í ríkiskassann, gengur til skólamála. Hvað sveitarfélög leggja fram, liggur ekki fyrir í heildartölum, og það, sem nemendur og stuðningsmenn þeirra borga, er vitanlega hvergi skráð. En miklar eru þær upphæðir.

Skólamálakostnaðurinn er auðvitað alvarlegt umhugsunarefni fyrir þjóð, sem skortir fé til margra framkvæmda og mikilsverðra. En fyrir mitt leyti vil ég samt taka fram, að ég lít ekki svo á, að hinn mikli kostnaður við skólamálin sé það, sem gerir þau athugaverðust. Gott uppeldi verður tæplega ofborgað. Athugaverðara er, ef skólalöggjöfin þrátt fyrir þungar álögur, sem henni fylgja, nær ekki tilgangi sínum, og athugaverðast, ef hún skyldi að einhverju leyti standa í vegi fyrir því, sem hún átti að koma til leiðar: að hjálpa hinum ungu „til þess að öðlast heilbrigð lífsviðhorf og hollar lífsvenjur“, en þannig er að orði komizt um hlutverk skóla í 1. gr. í l. um fræðslu barna, og er það vel og réttilega mælt.

Óhætt mun að fullyrða, að almennt mun álitið, að skólalöggjöfin nái ekki tilgangi sínum, og sumir telja, að einstök atriði hennar vinni beinlínis á móti honum. Hér er svo mikið í húfi, að ekki má draga lengur að endurskoða löggjöfina. Vaninn má ekki ná að „helga“ galla hennar. Þá brunna má ekki draga að byrgja, sem komið er í ljós að börn detta í.

Fyrrv. menntmrh., hv. 3. þm. Reykv. (BÓ), skipaði 28. maí s. l. nefnd „til þess að endurskoða og gera till. um námsefni og námstíma í barna-, gagnfræða- og menntaskólum“. Í skipunarbréfinu segir:

„Nefndinni er sérstaklega falið að endurskoða námsefni það, sem nú er lagt til grundvallar kennslu í barna-, gagnfræða- og menntaskólum, og gera tillögur um námsskrár fyrir hvert þessara skólastiga með tilliti til þess, að námsefnið sé við hæfi hvers fræðslustigs og kennslubækur svari þeim kröfum, sem eru gerðar til hverrar námsgreinar.“

Ráðherrann á þakkir skilið fyrir áhuga sinn og framtak, sem kom fram í skipun n. Nefndin hefur enn ekki lokið störfum, en á skammt í land með að gera það, að því er mér er sagt. Verksvið hennar er innan ramma l., en ekki endurskoðun á l. sjálfum. Niðurstöður þessarar n. geta flýtt fyrir og létt störf þeirrar n., sem við hv. þm. V-Húnv. leggjum til að skipuð verði, en ekki gert skipun hennar óþarfa, af því að löggjöfina sjálfa þarf að endurskoða, en ekki aðeins framkvæmd hennar: Skal ég nú rökstyðja það.

Við flm. þáltill. nefnum ekki sérstaklega í grg. þeirri, er henni fylgir, nema fjögur atriði sem dæmi um þörf endurskoðunar og breytinga. Fleira er þó um að ræða. Hið fyrsta, sem við nefnum, er, að skólaskylduárin séu of mörg. Ég álít, að hámark skólaskyldu eigi að vera frá 7–14 ára og í samfelldum barnaskóla. Nú er fræðsluskylda, eins og menn vita, í barnaskólum frá 7–13 ára og 2–3 ár í framhaldsskólum, eða 8–9 ár samtals. Tel ég því rétt að fella úr gildi l. um gagnfræðanám III. kaflann, sem er um fræðsluskyldu og skólaskyldu; og breyta í samræmi við þetta I. kafla l. um fræðslu barna, lengja þá barnaskólaskylduna um eitt ár, en fella niður framhaldsskólaskylduna. Heimild mætti e. t. v. hafa fyrir einhverja landshluta, t. d. Reykjavík, til þess að lengja skyldunám hjá sér, ef þeir landshlutar telja það nauðsynlegt. Það mun verða farsælla undir flestum kringumstæðum, að það sé ekki fyrirskipað, heldur á valdi ungmenna og forráðamanna þeirra, hvort eða hvenær þau snúa sér að framhaldsnámi, eftir að barnaskólanámi lýkur. Líklegt er, að flestum unglingum á aldrinum 14–16 ára sé hollara og þroskavænlegra að taka þátt í margbreytilegum störfum atvinnulífsins en að sitja á skólabekkjum. Nægur tími virðist vera eftir 16–17 ára aldur til þess að stunda framhaldsnám, nema þegar frá er talið langskólanám, og vænlegri virðist til árangurs skólaganga, þegar eigin vilji og þroski koma til sögunnar. Frjálst val nemandans í þessum efnum eykur honum ábyrgðartilfinningu bæði fyrir sjálfum sér og skólanum.

Skólaskyldan setur framhaldsskóla í mikinn vanda, það er í ljós komið, — vanda, sem hann virðist ekki rísa undir, og hún hefur leitt til mikils kostnaðar, sem hægt er að draga úr að ósekju. Auðvitað mál er það, að þjóðfélagið á að sjá fyrir því, að til séu skólar handa þeim, er þá vilja sækja eftir barnaskólaaldur, en í oftrú á fræðsluskylduna hafa verið settir á stofn hér og þar unglingaskólar, miðskólar og gagnfræðaskólar, sem of lítil verkefni hafa og sama sem engin verkefni mundu hafa, ef 13 ára börn barnaskólanna væru ekki til þeirra flutt. Í landinu öllu eru um 50 gagnfræða-, mið- og unglingaskólar. Af þeim eru 14 heimangöngugagnfræðaskólar, og þeir eru í stærri bæjunum, og átta af þeim eru hér í Reykjavík. Gagnfræðaskólar með heimavistum eru 8, allir í sveitum. Mið- og unglingaskólar eru 28 alls. Ætlazt er til þess í l., að miðskólar og gagnfræðaskólar starfi hvergi nema 15 nemendur minnst séu í ársdeild, en samkvæmt skýrslum, sem ég hef séð um nemendafjölda skólanna, fullnægja býsna margir þeirra ekki þessum ákvæðum. Auðséð er, að hér er pottur brotinn. Skipta þarf landinu í skólahverfi framhaldsskóla og stilla svo til, að skólar séu ekki fleiri en verkefni hafa að jafnaði. Skóla í tveim bekkjum með nemendum 14–15 ára ætti undantekningarlaust að sameina barnaskólunum, þannig að ekki sé kostað til tveggja skóla á því stigi á sömu stöðum. Heimild er til þessa í gildandi l. að því er skólakerfið í sveitum snertir, en ætti að lögleiða fyrir bæi líka, af því að reynslan sýnir, að einnig á þetta við í smærri bæjunum.

Annað atriðið, sem við flm. nefnum, er, að skólasetan ár hvert í barnaskólum þéttbýlisins sé of löng. Í 38. gr. l. um barnafræðslu segir, með leyfi hæstv. forseta: „Skólar í kaupstöðum og þorpum með 1000 íbúa eða fleiri skulu starfa sem næst 9 mánuði á ári.“ Í staðinn fyrir 9 mánuði ætti að koma 6 mánuðir. Heimild til lengingar upp í 9 mánuði mætti vera fyrir stærstu kaupstaðina. Fjarstæða er að hafa börn í skóla fram á sumar og taka þau í skóla snemma hausts í þorpum og smábæjum. Með því eru þau slitin úr náttúrlegu sambandi við atvinnulíf og svipt heilsusamlegri útivist, sem þau geta vel notið á þessum stöðum. Ekki er ætlazt til þess, að hvert barn sæki skólann 9 mánuði, það veit ég vel, en ákvæðið hefur samt áhrif í þá átt að teygja úr skólavist allra barnanna og valda námsleiða og þreytu og áhugaleysi með þeim afleiðingum, sem Stefán Klettafjallaskáld kallaði í ádeilu sinni á skóla:

„Voða vatnssýki í minni

og visnun í skynjun.“

Nú eru kennurum við hvern skóla borguð laun eftir því, hve kennslan stendur marga mánuði árlega. Álitið er, að ýmsir kennarar leggist á móti fækkun kennslumánaða vegna kjaraskerðingar, er fylgja mundi, og er það auðvitað ekki nema mannlegt. Ég tel, að vel mundi borga sig að láta launahæð haldast, þótt kennslumánuðum yrði fækkað. Velferð nemendanna er dýrari en krónum taki, því má aldrei gleyma.

Hið þriðja, sem nefnt er í grg., er það, að kerfisbinding kennslu- og námsefna sé of mikil. Í l. um skólakerfi og fræðsluskyldu, sem eru stofn skólalöggjafarinnar, er svo fyrir mælt, að allir skólar, sem kostaðir eru eða styrktir af almannafé, skuli mynda samfellt skólakerfi. Er skólunum þar skipað niður eins og einni stórri verksmiðju í deildir, sem eiga að taka ein við af annarri, stig af stigi, og gera fyrsta flokks menn úr hráefni, sem upphaflega var börn og furðu ólíkur efniviður og margvíslegur. Maðurinn notar mikið stærðfræði og vélar og gefst það vel til að gera sér með því náttúruöflin undirgefin, en á sjálfan sig má hann ekki líta sem reikningsdæmi og ekki heldur sem hráefni, er hægt sé að vinna úr góða vöru með verksmiðjulegum hætti. Mannssálir lúta öðrum lögmálum en dauðir hlutir og þola illa tangatök og steypumót kerfisbindingar. Próf eins og landsprófin á að nema úr lögum. Undirbúningur þeirra þvingar frá upphafi eins og töng eða mót nám allra, sem eiga námsleið með þeim, er ætla þau próf að taka. Hinir almennu skólar eiga að vera óháðir slíku. Inntökupróf ætti að gilda við gagnfræðaskóla og menntaskóla eins og fyrrum var.

Fjórða atriðið í grg. till. er, að hagnýtt nám til undirbúnings þátttöku í atvinnulífi þjóðarinnar sé vanrækt. Ég hef fréttir af því, að ekki nema helmingur af skólum gagnfræðastigsins haldi uppi verknámi. Þetta er háskalegt. Fyrir þá sök njóta margir nemendur þar ekki hæfileika sinna, en eru þó skyldaðir í skólana. Sumir eru gáfaðir til handanna, sagði gamla fólkið, þótt bóknám sé þeim torvelt. Það eru menn, sem þjóðfélagið þarf sjálfs sín vegna að mennta á þeirra sviði, ekki síður en hina á bóklega sviðinu. Í öðru lagi hefur mér skilizt, að verknámsdeildir þeirra skóla ýmissa, er þær hafa, hafi fremur einhæft og smávægilegt föndur að verkefni, vinni t. d. lítið, þótt við sjávarsíðuna sé, að því, sem sjávarútvegi tilheyrir, svo sem að ríða net, hnýta á, snúa tauma o. s. frv. Meðan þannig háttaði í þjóðlífinu, að heimilin gátu annazt bóklega uppfræðslu, sáu þau um verknámið líka í samræmi við það atvinnulíf, sem þjóðin lifði. Nú slitnar æskan í skólunum á námsbraut sinni úr sambandi við atvinnulífið, nema þá helzt iðnað. Vera má, að þetta sé ekki göllum löggjafar að kenna, heldur þá framkvæmd hennar, eða eigum við máske að telja þetta óviðráðanlegt eins og nú hagar til í landinu? Giftusamlegt er það áreiðanlega ekki, og full ástæða er til þess að endurskoða, hvað hægt kynni að vera að gera betur í löggjöf landsins að því er þetta snertir.

Ég hef þá minnzt á það fernt, sem í grg. till. er bent á sem dæmi um þörf endurskoðunar á skólalöggjöfinni, auk kostnaðarins, er af henni leiðir. Á fleira vil ég benda.

Kennarar eru samkvæmt löggjöfinni embættismenn ríkisins. Þeim eru veitt embættin eftir 1–2 ára reynslutíma. Ekki er hægt að segja þeim upp starfi, nema skólinn sé lagður niður eða þeir gerist sekir menn og sannir að sök. Þetta eru föst embætti til 65 til 70 ára aldurs. Kennarastaðan er sennilega ábyrgðarmesta staða þjóðfélagsins. Kennararnir eru þeir embættismenn, sem eru falin vandmeðförnustu pundin til varðveizlu og ávöxtunar, þegar á allt er litið. Þeim er trúað fyrir því að annast vorverkin á hinum andlega akri þjóðarinnar. Sú byggð, sem er heppin með kennara, má venjulega hrósa happi langa tíð, en hin, sem það er ekki, bíður þess ekki bætur, hver veit hve lengi. Það þarf að vanda betur til kennaranna. Margt úrvalsmanna er í íslenzkri kennarastétt, en þar eru líka til menn, sem ekki ættu að vera þar. Þetta er eðlilegt, það hefur verið of auðvelt að komast í kennarastöður. Reynslutíminn, 1–2 ár, hefur verið of stuttur. Hann ætti ekki að vera skemmri en 5 ár. Aldursskilyrði fyrir inngöngu í Kennaraskóla Íslands er 16 ár. Skólinn er fjögurra ára skóli, svo að sá, sem kemur þangað 16 ára og ekki tefst, útskrifast þaðan 20 ára. Hvaða líkur eru til þess, að 16 ára unglingur hafi gert sér ábyggilega grein fyrir því, að köllun hans sé að vera kennari, gegna þeirri vandasömu stöðu? Og hvaða líkur eru til þess, að 20 ára ungmennið, sem máske hefur verið í skóla öll sín ár síðan það varð 7 ára, hafi öðlazt nauðsynlega lífsreynslu til þess að vera í raun og veru maður til þess að taka að sér voryrkjuna á akrinum, þótt þekkingarprófseinkunnirnar kunni að vera forsvaranlegar? Nei, hér þarf lögum að breyta og betur um að búa, til þess að vænta megi góðrar uppskeru. Aldursskilyrði fyrir inngöngu í kennaraskólann á að færa úr 16 upp í 18 ár. Gera þarf ráðstafanir til þess, að reynt verði með vísindalegri nákvæmni og réttdæmi að velja þá eina til kennaranáms og útskrifa, sem hafa nauðsynlega hæfileika og heppilega skapgerð til þess að rækja hið mikilsverða og vandasama uppeldisstarf í skólunum. Kennara á að launa vel, en gera til þeirra mjög miklar kröfur.

Í sambandi við það, sem ég hef hér sagt um nauðsynina á því, að kennarar séu vel hæfir, vil ég taka fram, að ég tel mikla nauðsyn á því, að til framkvæmda verði látin koma að einhverju eða öllu leyti lög frá 1947, sem eru kafli úr lagabálkinum um menntun kennara og má telja að tilheyri hinu nýja skólakerfi. Þessi lagakafli er um æfinga- og tilraunaskóla, Í 2. gr. l. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Skólinn starfar sem æfingaskóli kennaraskólans. Skal hann hafa uppeldis- og kennslufræðilegar athuganir með höndum, einkum varðandi barnafræðslu og gagnfræðanám. Skal hann og hafa forgöngu um, að slíkar athuganir verði gerðar í öðrum skólum og unnið úr þeim.“ Uppeldismálaþing, sem háð var í Reykjavík 12.–14. júní s. l. sumar, benti í þessa átt og beindi þeirri áskorun til menntmrh., að hann beitti sér fyrir því, að ½% af framlagi ríkisins til fræðslumála yrði framvegis veitt til vísindalegra rannsókna á uppeldi og kennslutækni. Það er kostað til vísindalegra rannsókna á ræktun landsins, fóðrun búpenings og fiskagöngum við strendurnar, en hvers vegna er vanrækt að láta rannsaka vísindalega, hvað hæfir bezt börnum landsins sjálfum, sem eiga að verða drottnarar landsins og sjávarins, — hæfir þeim bezt í uppeldi og kennsluaðferðum? Þetta er dýr vanræksla að mínu áliti.

N., sem lagt er til á þskj. 220 að skipuð verði, hefur áreiðanlega á margt að líta. Á það þykist ég nú hafa fært fullar sönnur. Lagt er til, að nm. verði aðeins þrír. Fjölmennari n. neytir sín alls ekki betur við verkefni sem þessi. Auðvitað starfa þessir menn í samráði við fræðslumálastjóra og fá aðstoð eftir þörfum hjá þeim, sem með stjórn skólamálanna fara. Í till. er svo fyrir mælt, að óskað skuli, að Samband íslenzkra barnakennara og Samband framhaldsskólakennara bendi sameiginlega á einn mann í n. Ég tel rétt, að þriðji aðilinn taki þátt í að benda á þennan mann, en það er Félag menntaskólakennara. Ætti að mega bæta því inn í till. við síðari umræðu. Fleiri en einn fulltrúa tel ég ekki rétt að kennarar eigi úr sínu liði í þessari þriggja manna nefnd.

Svo vil ég að lokum óska þess, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og hv. allshn.