03.03.1954
Sameinað þing: 37. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í D-deild Alþingistíðinda. (3197)

145. mál, Grænlandsmál

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs eingöngu út af því, að hv. fim. þessarar till. lagði til, að henni yrði vísað til allshn. Mér finnst þessi till. þannig, sem virðist fjalla um hvorki meira né minna en það, að Ísland krefjist yfirráða yfir þessu stóra landi, Grænlandi, að ef nokkurt mál er utanríkismál, þá finnst mér þetta vera það. Ég vildi því leggja til, að till. yrði vísað til hv. utanrmn., því að þar á hún sannarlega heima. En ef svo færi, að Alþingi vildi ekki fallast á þá till. mína, þá vildi ég gjarnan fá ofur litlar upplýsingar frá hv. flm. till.

Till. virðist fara fram á það, að Ísland geri kröfu á hendur Dönum til eignar á Grænlandi og yfirráða og þar með skilst mér til yfirráða yfir þeirri þjóð, sem þar býr og er ekki Íslendingar, jafnvel þó að þeir kunni að vera blandaðir Forn-Íslendingum, — því trúi ég nú og held, að sú kenning Jóns Dúasonar sé rétt. En þeir tala allt aðra tungu, og er ekki hægt að kalla þá Íslendinga, þó að einhver kynblöndun hafi átt sér stað.

Það, sem ég nú vildi vita, a. m. k. ef till. á að vísa til allshn., er það, hvort það vakir virkilega fyrir flm. að ætlast til þess, að við Íslendingar förum að ráða yfir þessari framandi þjóð, eða hvort það er tilgangurinn að gera kröfu til þess, að við fáum að nota Grænland bæði til útgerðar og annarra hluta, þar sem það er óbyggt, sem vitanlega er mjög viða. Það er langt frá því, að ég viðurkenni rétt Dana til Grænlands, og mér finnst í fljótu bragði, að ég mundi vilja gjarnan samþykkja það, að Alþ. skoraði á Dani að gefa Grænlendingum sjálfstjórn, og svo gætum við samið við þá aftur um ýmis mál og verið þeim hjálplegir. En mér finnst það dálítið einkennilegt, ef það vakir virkilega fyrir tillögumanni, að Ísland eigi að fara að leggja undir sig enn minni þjóð en Íslendingar eru nú, ekki sízt þegar þess er gætt, að nýlenduþjóðirnar eru hver um aðra þvera að rísa upp á móti sínum yfirdrottnurum og heimta sjálfstæði. Samt sem áður ætla ég ekki að fara að ræða till., hvorki tjá mig henni meðmæltan né mótfallinn á þessu stigi málsins, þó að ég beri þessa fsp. fram, en ég endurtek það, að mér finnst hún þess eðlis, að hún eigi tvímælalaust að fara til hv. utanrmn.