03.03.1954
Sameinað þing: 37. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í D-deild Alþingistíðinda. (3199)

145. mál, Grænlandsmál

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það var nú ekki efnislega um till. Ég hef hlustað með mikilli athygli á hina skörulegu ræðu hv. frsm. og þau föstu rök, sem hann hefur fært fyrir máli sínu, en ég vildi frekar ræða um það, til hvorrar nefndar þetta mál á að fara.

Mér finnst nú vera dálítið einkennilegt, að hæstv. forseti skuli hafa aðeins ákveðið eina umr. um þessa till. Í till. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef danska stj. fellst ekki á þá kröfu, lýsir Alþ. yfir þeim vilja sínum, að leitað verði um málið úrskurðar alþjóðadómstólsins í Haag.“

Þetta ákvæði till., ef því verður ekki breytt, hlýtur að hafa stórkostleg fjárútgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð. Þess vegna finnst mér, að till. eigi heima í fjvn., nema því aðeins, að hv. flm. hugsi sér, að það sé borin fram ný þáltill. um það, að málið sé lagt fyrir alþjóðadómstólinn í Haag, sem ég sé ekki að sé ástæða til, ef till. verður samþykkt. En tvímælalaust hefur þá till. mjög mikil útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóðinn, svo framarlega sem ekki er gengið að kröfum Íslendinga. Það er alveg sýnilegt. Ég fellst hins vegar fullkomlega á þau rök hjá hv. flm., að það sé rangt að senda till. til hv. utanrmn. Við höfum fengið á því reynslu, byggða á þeim ummælum, sem hv. frsm. hélt fram, — m. a. hef ég persónulega fengið af því einnig reynslu, — að mál, sem vísað var til hv. utanrmn. og átti að afgreiðast þar, varð sama sem að vísa til hæstv. ríkisstj. og hefur aldrei verið afgreitt. Þess vegna er ég mjög samþykkur því, sem hv. flm. segir, að þangað eigi till. ekki að fara. Ég vil hins vegar gera það að till. minni, að málinu verði vísað til hv. fjvn., með tilvísun til þess, sem ég hef hér sagt, og vænti ég þá, að hv. formaður hafi allt vald á því, að málið verði afgreitt, eins og hann á kröfu á, á þessu Alþingi.