22.10.1953
Sameinað þing: 10. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í D-deild Alþingistíðinda. (3332)

213. mál, lánveitingar út á smábáta

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég mun ekki að þessu sinni ræða þá almennu hlið málsins, hvort ástæða sé til þess að hvetja menn til útgerðar smábáta. Um það hefur hver sína skoðun, og ég geri ráð fyrir því, að hin nýja friðun landhelginnar ætti að verða mörgum hvatning til slíkrar útgerðar, eða að minnsta kosti vona ég, að reynslan megi skera úr um það á jákvæðan hátt.

Ég tel óþarfa að lesa hér upp aftur þá þál., sem fram var borin af hv. fyrirspyrjendum. Ég skal hins vegar leyfa mér að skýra frá því, að fiskveiðasjóður Íslands hefur upplýst, að eigendur smábáta eigi rétt á lánum úr fiskveiðasjóði án aukaveða eða baktrygginga, ef bátarnir eru í fullkominni vátryggingu, en þó því aðeins, að um nýja báta með nýjum vélum sé að ræða og yfir fimm smálestir að stærð, þar sem um minni báta fari sem lausafé og geti þeir þess vegna ekki talizt frambærileg veðtrygging.

Varðandi svo vátrygginguna á slíkum bátum er þetta að segja: Þegar lögin um vélbátaábyrgðarfélög voru sett, voru opnir vélbátar skyldutryggðir samkvæmt þeim. En brátt komu fram á Alþingi kröfur um það frá þeim, sem töldu sig fara með umboð smábátaeigenda, að skyldutryggingu væri létt af þessum bátum. Alþingi varð við þessum kröfum, þó á þann hátt, að bátaábyrgðarfélögunum er heimilt að tryggja opna vélbáta, ef samþykki Samábyrgðarinnar kemur til. Þetta samþykki veitti Samábyrgðin félögunum þegar í eitt skipti fyrir öll. Síðan hafa margir opnir vélbátar verið tryggðir hjá félögunum og eru það enn, og samkv. upplýsingum þeirra félaga, sem svarað hafa fyrirspurnum þar um, þá stendur eigendum smábáta opið að tryggja þá hjá félögunum. Um vátryggingu smábáta gilda alveg sömu reglur og um vátryggingu stærri báta.

Vænti ég, að með þessu sé á fullnægjandi hátt svarað fyrirspurnum hv. fyrirspyrjenda.