11.11.1953
Sameinað þing: 15. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í D-deild Alþingistíðinda. (3375)

67. mál, fiskskemmdir

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd. Það var nú ekki annað, sem fyrir mér vakti með því, sem hv. fyrirspyrjandi kallaði svigurmæli í sinn garð, en að mótmæla því, sem hann hafði sagt í sinni fyrri ræðu varðandi mannaval við rannsókn þessa, enda báru ummæli hans í síðari ræðu fullkominn vott um það, að hann var ánægður með þá, sem staðið hafa að rannsóknunum, og þær afleiðingar, sem rn. hefur tekið af niðurstöðum rannsóknanna.

Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að vöruvöndun hnignaði mjög á Íslandi á stríðsárunum, og hefur verið reynt á margvíslegan hátt að leiðrétta missmíðar, sem þeir hafa orðið varir við, sem mest fjalla um þessi mál daglega. Sá embættismaður, sem ég gat um, Gunnlaugur Briem, hefur fylgt þessu máli jafnan eftir og tekið allar umkvartanir til greina og reynt að leiðrétta þær misfellur, sem hann hefur fengið fregnir af, á sinn venjulega hátt, þ. e. a. s. hljóðalausan og umbúðalausan, látið lítið á sér og sinni hæfni bera, en reynt að láta hins vegar sitt ágæti og sína starfshæfni koma fram í jákvæðum niðurstöðum af tilraunum til úrbóta.

Ég hef svo ekki um þetta annað að segja. Ég endurtek, að málið er að því leyti í höndum þess ágætasta manns, sem völ er á, þar sem það fyrst og fremst fellur undir skrifstofustjóra rn., Gunnlaug Briem, en það er kannske einhverjum fróun að vita um, að ég hef sjálfur, að svo miklu leyti sem til minna kasta kemur, ríkan áhuga fyrir, að allt sé gert, sem auðið er, til þess að létta af okkur skömm og skaða óráðvendni og hirðuleysis varðandi vöruvöndun á aðalútflutningsvörum okkar.