11.11.1953
Sameinað þing: 15. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í D-deild Alþingistíðinda. (3382)

88. mál, mannanöfn

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans og lýsi því jafnframt yfir, að mér var með öllu ókunnugt um það, að fyrrv. menntmrh. hefði fyrirskipað eða lagt drög að því, að framkvæmd yrði rannsókn á þeim mannanöfnum, sem nú tíðkuðust. Ég vissi ekki um hana, en mér þykir mjög vænt um, að hann skyldi hafa farið inn á þessa braut, því að það var vissulega ekki vanþörf á, að þarna yrði gerð rækileg athugun, ef það gæti leitt til einhverra bóta í þessum efnum, eins og vænta má.

Hæstv. ráðh. minntist í því sambandi á það, að á síðasta Alþ. hefði verið samþ. löggjöf um veitingu ríkisborgararéttar, þar sem þeim mönnum, sem sótt höfðu um íslenzkan ríkisborgararétt, var gert það að skyldu að taka upp íslenzk nöfn samkv. mannanafnalögunum. Ég lít nú að vísu þannig á, að eins og þetta var samþ., þá geti það orkað nokkurs tvímælis, og þó alveg sérstaklega meðan lögin um mannanöfn eru alls ekki framkvæmd gagnvart Íslendingum. Það hefur fyrrv. menntmrh. einnig séð, að þarna var mikið ósamræmi í milli, og hefur hann líklega af þeim ástæðum m. a. ákveðið, að fram færi rannsókn á þeim mannanöfnum, sem nú tíðkast.

Hæstv. menntmrh. minntist á það, að það væri stundum örðugt að greina á milli erlendra nafna, sem ekki lytu íslenzkum málsmekk, eða, eins og það er orðað í lögunum, „ekki hlýða lögum íslenzkrar tungu“. Það getur verið í einstökum tilfellum, að það sé nokkrum erfiðleikum bundið, en ég held, að engum hafi dottið í hug að ganga svo hart fram í þessum efnum að vilja banna eða leggja niður nöfn, sem tíðkazt hafa hér öldum saman, þó að þau séu sannanlega erlend eða af erlendum uppruna. Ef þau hlýða lögum málsins, sérstaklega beygingarlögum, þá mun engum hafa dottið það í hug. En það er alveg sérstaklega ein tegund málspillingar, sem virðist fara mjög í vöxt á síðari árum, og hún er sú að skíra börn og þó sérstaklega kalla börn, og fullorðið fólk þá líka, gælunöfnum. Þegar ég athugaði nöfn í nokkrum kirkjubókum, eins og ég gat um áðan, rakst ég á þetta hvað eftir annað, að það er farið bókstaflega að skíra börn með alls konar einkennilegum og næsta furðulegum gælunöfnum. Þetta er eitt af því, sem ég held að þurfi að stemma stigu við, en yfirleitt tel ég fulla nauðsyn á því, að annað tveggja sé gert, það sem hæstv. menntmrh. talaði um, að endurskoða lögin og þá breyta þeim að svo miklu leyti sem það kynni að þykja nauðsynlegt, eða þá að fylgja betur eftir framkvæmd þeirra en gert hefur verið.