18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í D-deild Alþingistíðinda. (3397)

97. mál, álagning á innfluttar vörur o. fl.

Viðskmrh. (Ingólfur Jósson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi (GÞG) misskildi mig alveg áðan. Ég var ekki að bera það á kaupmenn og kaupfélög, að þau hefðu brotið verðlagsákvæði í stórum stíl. Hitt veit þessi hv. þm., að verðlagsákvæðin dugðu ekki að því leyti, að það voru ýmsir, sem voru með alls konar viðskipti og brask á bak við tjöldin, þegar vöruþurrðin var, og það er nú hægt að tala um það í fullri hreinskilni. Það er öllum ljóst, að svarti markaðurinn og bakdyraverzlunin þróaðist á því tímabili, sem verðlagsákvæðin voru sem hörðust. Og hvers vegna eigum við að vera að setja hér upp hræsnissvip og viðurkenna ekki þessa staðreynd? Verðlagsákvæðin, á meðan þau voru hvað mest, dugðu ekki; það var farið fram hjá þeim, og almenningur hafði þess vegna ekki not af þeim. En þau verðlagsákvæði og það verðlagseftirlit, sem fyrrverandi ríkisstj. kom á með því að útiloka svarta markaðinn og vöruþurrðina, hefur verið haldbezt og halddrýgst fyrir allan almenning í þessu landi. Og ég vil segja, að það hafi sparað almenningi í þessu landi tugi millj. kr. og aukið kaupmátt launþeganna sem því svarar, að þeir skyldu losna við svarta markaðinn, sem þróaðist í skjóli verðlagseftirlitsins.

Þá er hv. fyrirspyrjandi að tala um það, að sparnaðurinn hafi ekki verið nema 170 þús. kr. 170 þús. kr. er náttúrlega ekki stór peningur að áliti þessa hv. þm., en þetta er vitanlega miklu meira en 170 þús. kr., vegna þess að það er annars vegar tekið árið 1949 og hins vegar árið 1952, og á þessu tímabili hafa launagreiðslur stórhækkað. En ég er sammála hv. þm. um það, að þetta út af fyrir sig er ekki afgerandi í málinu. Það, sem er afgerandi í málinu, er það, að verzlunarástandið hefur stórum batnað frá því, sem það var. Og hv. þm. ætti ekki að álasa hæstv. ríkisstj. fyrir það, þótt hún hafi ekki dregið úr verðgæzlunni. Verðgæzlan er í fullum gangi eftir sem áður og skýrslusöfnun efnis og hv. þm. óskar eftir að sé.

Ef við athugum nú — ég er hérna með verðútreikning yfir vefnaðarvöru — álagningu á vefnaðarvöru, t. d. á lérefti, eins og hún var samkvæmt verðlagsákvæðunum og eins og hún er í dag undir frjálsu verðlagi, þá er það þannig, að hér er t. d. eitt dæmi: léreft, sem er keypt fyrir kr. 1784.52. Ef verðlagsákvæði hefðu gilt, þá hefði álagning á þessum vöruslatta verið kr. 160.61, en álagning á svipaða upphæð núna er kr. 162.20. Það er m. ö. o. kr. 1.60 hærri álagning á þessa upphæð í dag en var á meðan verðlagsákvæðin voru í gildi. Nú vil ég geta þess, að þetta er raunverulega minni álagning í dag en var á meðan verðlagsákvæðin giltu, því að verðlagsákvæðin voru afnumin — að mig minnir — í apríl 1951. Síðan hafa ýmsir kostnaðarliðir hækkað mjög hjá verzluninni. 1952, í aprílmánuði, hækkuðu bankavextir, en það þýðir, að það hækkar verzlunarkostnaður. Og síðna 1951, eftir að verðlagsákvæðin voru afnumin, hefur kaupgjald og annar kostnaður við verzlunarrekstur aukizt gífurlega, eins og allir þekkja, sem við verzlun hafa fengizt. Samt er það svo, að á þetta vörumagn, kr. 1784.00. er ekki lagt meira núna en var undir verðlagsákvæðunum, nema sem nemur kr. 1.60, sem er raunverulega miklu minni þóknun í álagningu en áður var. Og þegar sú skýrsla, sem verður birt um næstu mánaðamót frá verðgæzlunni, kemur fram, þá munu menn sjá það, að álagning á vefnaðarvörur og aðrar nauðsynjavörur er nú svo hæfileg, miðað við það, sem hún var undir verðlagsákvæðunum, að það er ekki undan neinu að kvarta í þessu efni.

Mig minnir, að hv. fyrirspyrjandi hafi einhvern tíma verið í verðlagsn., sem tók ákvarðanir um, hversu álagning mætti vera há á ýmsum vörum, og mig grunar, að hámarksákvæðin á ýmsum vörum hafi verið ákveðin af honum, a. m. k. að einhverju leyti. Þegar nú undir frjálsu fyrirkomulagi er hægt að staðhæfa það, að álagningin er ekki meiri en þessi hv. þm. leyfði, þegar hann var í verðlagsn., þá er ekki a. m. k. ástæða fyrir hann að vera að kvarta undan hárri álagningu.

Varðandi það, sem þessi hv. þm. sagði hér áðan í sambandi við hækkaða álagningu, þá er rétt að geta þess, að fyrst í stað þegar álagningin var gerð frjáls, þá hækkaði hún töluvert á meðan verið var að metta markaðinn og seðja vöruhungrið, en síðan þetta breyttist og vöruhungrið var mettað og vöruframboðið varð nóg, þá hefur álagningin og verðlagið leitað í þann farveg, sem ég áðan var að lýsa, þannig, að álagning á vefnaðarvörur fyrir kr. 1800.00 er nú kr. 1.60 hærri en hún var á meðan verðlagsákvæðin giltu, og er þá ekki reiknað með hinum ýmsu kostnaðarliðum, sem hafa hækkað mjög á þessum tveim árum, sem liðin eru síðna hámarksákvæðin voru felld í burtu, þannig að raunverulega hefur álagningin og þóknunin til verzlunarstéttarinnar lækkað á þessu tímabili, þegar tekið er tillit til þessara kostnaðarliða.

Ég veit, að hv. fyrirspyrjandi er mjög ánægður yfir því að fá þessar upplýsingar, því að hann ber hag almennings fyrir brjósti sérstaklega, eins og okkur öllum ber vitanlega að gera. Þessar upplýsingar hefur hann kannske ekki búizt við að fá, en þessar staðreyndir hlýtur hann að vera mjög ánægður með. Og þegar sú skýrsla kemur, sem verður birt um næstu mánaðamót, þá mun hann verða enn glaðari í sinu hjarta af þeim árangri, sem hefur náðst í verzlunarmálunum.