31.03.1954
Sameinað þing: 43. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í D-deild Alþingistíðinda. (3453)

161. mál, verndun hugverka o. fl.

Fyrirspyrjandi (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Við Íslendingar erum hér í fámenninu að reyna að halda uppi menningarlífi, og er það eðlilega mjög erfitt. Í því sambandi verðum við auðvitað að hafa menningarsamband við önnur lönd. En þó að svo sé, er alls ekki víst, að þær reglur um verndun hugverka o. fl., sem gilda í öðrum löndum, eigi við hér hjá okkur.

Fyrir skömmu gengum við í Bernarsambandið, að því er ég tel að mjög vanhugsuðu máli. Fyrsti áberandi ávöxtur þess er hið alkunna STEF undir stjórn hávaðamannsins Jóns Leifs. Er sá félagsskapur, gauragangur framkvæmdastjórans, frekja og auglýsingastarfsemi svo kunn, að ég sleppi frekara umtali um það þær fáu mínútur, sem ég hef til umráða.

En þessi þátttaka í Bernarsambandinu hefur haft víðtækari afleiðingar. Áður en hún varð, sneru bókaútgefendur sér beint til höfunda erlendra bóka, sem þeir vildu gefa út, og fengu leyfi til þess fyrir sanngjarnt verð, miðað við aðstæður hér. Nú er þeim bent á að snúa sér til hinna erlendu „Stefa“, og kemur þá í ljós, að gjöldin, sem krafizt er, hafa margfaldazt, til þess að hægt sé að halda uppi STEF-starfseminni, en án þess þó að höfundarnir beri meira úr býtum en áður. Nú er krafizt af okkur fyrir þýðingarrétt sömu gjalda og milljónaþjóðir eru látnar greiða, t. d. Ítalía, Spánn og stórþjóðir Suður-Ameríku.

Í sambandi við umræður hér á þingi um að gera gagnkvæman samning við Bandaríkin um vernd hugverka minntist ég á, að ég álíti, að aðstaða okkar væri þannig, að við ættum ekki að vera aðilar að alþjóðasamningum um þessi efni, heldur gera sérsamninga um vernd hugverka við þær þjóðir, sem við viljum hafa menningarsamband við, og þá um leið tryggja gagnkvæmar greiðslur, því að það er, eins og amerískt firma sagði í bréfi til mín, miklu meiri skömm fyrir landið, að samið sé um 100 dollara þóknun fyrir þýðingu á bók, sem ekki fæst yfirfærð, en þó að hnuplað sé þýðingarréttinum, ef ég má komast svo að orði. — Hæstv. menntmrh. greip þá fram í fyrir mér og skoraði á mig að flytja þáltill. um, að Ísland gengi úr Bernarsambandinu. Ég svaraði því á þá leið, að ég væri ekki búinn undir að gera það, því að mig skorti upplýsingar til að rökstyðja þá till.

Fsp. þær, sem ég hef borið fram, eru fram komnar til að afla gagna í þessu efni. Þær eru í fimm liðum. Í fyrsta lið er spurt, hversu miklar gjaldeyristekjur íslenzka þjóðarbúinu hafi hlotnazt frá öðrum löndum fyrir þýðingarrétt íslenzkra bóka og flutningsrétt íslenzkra tónverka og leikrita, síðna Ísland gekk í Bernarsambandið. Önnur spurningin er, hversu mikið fé ríkisútvarpið hafi greitt erlendum réttareigendum fyrir flutningsrétt erlendrar hljómlistar og erlendra leikrita og skáldsagna á sama tíma. Þriðja spurningin er um, hversu mikið fé þjóðleikhúsið hafi greitt fyrir það sama. Fjórða spurningin er um það, hversu mikinn erlendan gjaldeyri gjaldeyrisyfirvöldin hafi veitt bóka- og blaðaútgefendum á sama tíma til greiðslu fyrir þýðingarrétt erlendra bóka og blaðagreina. Og fimmta spurningin er, hve mörgum beiðnum um sams konar gjaldeyrisleyfi gjaldeyrisyfirvöldin hafa synjað.

Ég skal að lokum geta þess, að ég hef í blöðum orðið fyrir nokkrum árásum út af afstöðu minni í þessu máli úr einni átt, sem sé frá aðalafætu „hinna fátækustu af hinum fátæku“, eins og komizt hefur verið að orði, sem telur, að afstaða mín sé sprottin af eiginhagsmunum, af því að ég hafi atvinnu af bókaútgáfu. Í því sambandi vil ég upplýsa, að ég hef enga bók gefið út í meira en tvö ár og ekki hugsað mér að gefa út fleiri bækur, því að ég er búinn að fá meira en nóg af bókaútgáfu hér á landi. En einmitt vegna þess, að ég var riðinn við bókaútgáfu, hef ég hingað til ekki komið skoðun minni á málunum eins á framfæri í þinginu og rétt hefði kannske verið. En nú tel ég mig standa það frjálsan, að ekki verði með neinum rökum hægt að rægja mig á þessum grundvelli þrátt fyrir góðan vilja í því efni.