31.03.1954
Sameinað þing: 43. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í D-deild Alþingistíðinda. (3455)

161. mál, verndun hugverka o. fl.

Fyrirspyrjandi (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir upplýsingar þær, sem hann hefur gefið. Þær staðfesta í höfuðatriðum þá hugmynd, sem ég hef gert mér um þessi mál. sem sé, að það væri siður en svo, eins og haft var eftir a. m. k. einum af forvígismönnum þeirra, sem ráku á eftir, að við gengjum í Bernarsambandið, að við gætum lagt niður síldveiðarnar, því að tekjurnar af íslenzkum hugverkum yrðu svo miklar, að við þyrftum ekki lengur að strita við að framleiða almenna útflutningsvöru. Í stað þess eru tekjurnar það litlar, að þær eru ekki taldar „teljandi“. Svörin við 2., 3. og 4. spurningu sýna, að aðstaða okkar hefur stórversnað fjárhagslega frá því, sem áður var.

En það, sem ég hafði mestan áhuga á, var svarið við fimmtu spurningunni, því að þar er talað um, að synjað hafi verið þrettán gjaldeyrisbeiðnum síðustu tvö ár, en skrifstofan vildi ekki hafa fyrir því að leita lengra. Það er einmitt ein af aðalástæðunum fyrir því, að ég hef verið á móti þessum samningum, að við höfum ekki fengið þær yfirfærslur, sem við höfum þurft til þess að greiða fyrir erlendan þýðingarrétt, og að það hefur verið talið þjóðinni til mikils ósóma erlendis.

Svörin við þessum spurningum hafa gefið efnivið í eina af þeim röksemdum, sem falla að þeirri till., sem ég mun ef til vill bera fram á sinum tíma, að við segjum upp þátttöku okkar í Bernarsambandinu og gerum sérsamninga við þær þjóðir, sem við viljum hafa menningartengsl við.