13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (3551)

Varnarmálin, samningar um framkvæmd

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Mér finnst þessi ræða hv. þm. bera þess helzt vott, að hann sé orðinn syfjaður, ef hann er þá ekki hreint og beint að tala upp úr svefni; það er raunar einna líkast því, þetta sem hv. þm. færði hér fram. Vitanlega er ekkert óvenjulegt við það, þótt ráðh. eða þm. afhendi blöðum til prentunar ræður, sem þeir ætla að flytja á næstunni, og ákveði það, hvenær koma skuli til birtingar. Þetta er algengt. Ég býst við því, að flestir hv. þm. hafi haft þennan hátt á einhvern tíma og áreiðanlega þessi hv. þm. einnig. Það er líka algengt, að ráðh. láti ræður sínar koma í blaði flokks síns og ekki annarra blöðum, og ekkert við því að segja, og ég hef aldrei heyrt fundið að því fyrr en nú. Þetta er algengur og sjálfsagður hlutur. Ef ráðh. álítur það henta, að ræða eftir hann komi aðeins í hans eigin flokksblaði, þá er það algerlega hans mál. Það skiptir engu máli í því sambandi, hvort ræðan er um utanríkismál eða einhver önnur málefni. Að mínum dómi eru þessar aðfinnslur hv. þm. út af birtingu á ræðu utanrrh. því hrein fjarstæða og ástæðulausar með öllu.